08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5008 í B-deild Alþingistíðinda. (4263)

5. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að geta þess að þó að menn reyni að benda á sennilega þróun, hvort sem menn kalla það spádóm eða það sem menn telja sig sjá fyrir, þá felast ekki í því hótanir. Það felast ekki í því hótanir og það felast ekki í því tilboð.

Ég vil minna á það að hv. 1. þm. Vesturl. vakti athygli á því að það gæti orðið til að drepa mál hér í þinginu ef niðurstaða nefnda yrði hundsuð af deildinni. Ég held að hver sá sem hefur komið nálægt þessum þingstörfum geri sér grein fyrir því að þegar deildin tekur ákvörðun um að breyta meirihlutatillögum nefnda þá þýðir það mjög oft að deildin, sem fær málið til meðferðar, lítur svo á að hún þurfi að skoða það upp á nýtt, kanna hvaða flötur sé á málinu, hvað það sé sem þarna sé raunverulega deilt um.

Ég ræð engu um störf Ed. eða menntmn. þar. Menntamálanefndarmenn munu taka sjálfstæða ákvörðun um það hversu langan tíma þeir þurfa til að vinna að málinu. Ég hef alið þá von í brjósti að þetta mál færi út úr þinginu og að frv. yrði að lögum. Ég hef viljað gera þessa tilraun, láta á það reyna og minna á að þetta frv. verður endurskoðað eftir ákveðinn tíma. Ég var sammála mjög mörgu sem kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. varðandi það að við erum að fara inn á ný svið sem tíminn einn leiðir í ljós hvaða þróun taka.

Það er ekki hægt að sjá það fyrir í dag hversu margir munu t. d. fara út í útvarps- eða sjónvarpsrekstur. Það er heldur ekki hægt að sjá það fyrir hvort dagskrá þessara stöðva verður til fyrirmyndar eða ekki eða hvaða áhrif þær eiga eftir að hafa á menningarlíf í landinu. En það er aftur á móti ávallt spurning hjá þeim sem standa að lagasetningu hvort þeir vilja þróun eða hvort þeir vilja byltingu. Ég hef viljað þróun í þessum efnum.

Hv. 4. þm. Reykv. taldi að ég hefði látið að því liggja að um svik væri að ræða ef ekki yrði staðið við það samkomulag sem gert var. Það er vissulega rétt að það var skrifað undir nál. með þeim fyrirvara að heimilt væri að fylgja brtt. sem fram kæmu. Engu að síður var það hans skilningur að breytingar á þessari grein, sem aðaldeilan hefur staðið um, væru ekki í anda samkomulagsins því að hann hóf ekki umr. um stuðning við þær breytingar fyrr en hann hafði talað við hæstv. menntmrh. og talið sig hafa fengið grænt ljós.

Ég hafði dálítið gaman af því þegar hv. 5. þm. Reykv. flutti hér tilboð sitt. Þetta var opið tilboð. Það var ekki farið í neinar grafgötur með það að hér væri boðið upp á viss hrossakaup og lýst nákvæmlega hvert væri kaupverðið og hver væru skilyrðin. E. t. v. eigum við von á því í framtíðinni að heyra fleiri slík tilboð og það verði n. k. tilboðsstjórn sem eigi eftir að taka við þar sem það verði rætt hér úr ræðustól hvað sé boðið upp á og hver séu skilyrðin. En ég er ekki viss um að Sjálfstfl. telji þrátt fyrir allt að þessi vinnubrögð séu þess eðlis að þau séu girnileg til samstarfs.

Hv. 5. þm. Reykv. gat þess hver væru skilyrðin fyrir því að framsókn sæti í stjórn. Hann hóf sínar tölur á þann veg að það væri hagsmunagæsla fyrir SÍS. Mér er ljóst að Alþfl. getur ekki staðið að neinni efnahagslegri hagsmunagæslu fyrir þær eignir sem eitt sinn voru Alþýðuflokksins hér á landi eða Alþýðusambandsins, þ. e. verkalýðshreyfingarinnar, vegna þess að hann tapaði þeim öllum. Þannig hafa mjög mörg fyrirtæki, sem Alþfl. hefur borið ábyrgð á í gegnum söguna, siglt yfir. En að bera það á stjórnmálaflokk að hann sé fyrst og fremst hagsmunagæsluaðili fyrir eitt fyrirtæki, það nálgast að vera það sem kallað er úti í hinu daglega lífi meiðyrði. Það nálgast það að segja að menn gangi fyrir mútum, svo langt er haldið með þennan málflutning. Auðvitað nær það engri átt, hv. 5. þm. Reykv., að berja á þennan hátt frá sér.

Aftur á móti er mér ljóst að Alþfl. einn stjórnmálaflokka á Íslandi hefur þá stóru hagsmuni í dag að fá alþingiskosningar á undan sveitarstjórnarkosningum. Hvers vegna? Vegna þess að ef sveitarstjórnarkosningar verða á undan kemur í ljós hvert fylgi flokksins er, m. a. í Reykjavík. Hv. 5. þm. Reykv. hefur engan áhuga á því að slíkar upplýsingar liggi fyrir og ég skil hann mætavel. Það yrði ljóta hrollvekjan að fá sveitarstjórnarkosningarnar á undan.

Þá er aðeins eitt atriði eftir. Það er: Mun framsókn stuðla að því að frv. fari óbreytt í gegnum Ed. ef því verður breytt nú? Ég vil geta þess hér að í því samkomulagi sem gert var í n. var að sjálfsögðu haft fullt samráð við fulltrúa Framsfl. í menntmn. Ed. til þess að stuðla að því að um samræmingu á sjónarmiðum væri að ræða. Ég taldi að með því væri unnið af heilindum. Hitt hefði verið óeðlilegt að gera samkomulag í Nd. og segja svo að þegar það kæmi til Ed. að þá væri von á einhverri allt annarri afstöðu. Ég tel þess vegna að skoðanir okkar, hv. þm. Haraldar Ólafssonar og mín, í þessum málum fari saman og ég hef trú á því að hann vilji vinna að því að halda frv. í þeirri mynd sem samkomulagið hljóðaði upp á.