31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðason, ágætur sessunautur minn, vék að ræðu minni hér áðan og fór nokkrum orðum um meginefni hennar. Mér þótti það heldur ánægjuleg ræða og um margt til fyrirmyndar vegna þess að þarna heyrðist loksins í talsmanni Sjálfstfl. sem hafði svolítinn metnað fyrir hönd síns flokks og hafði greinilega samvisku á sínum stað, það er meira en hægt er að segja um alla talsmenn þess flokks, þó hún væri að vísu ofurlítið bitin.

Honum var ekki sama hvort Sjálfstfl. og forustumenn hans væru sekir um lögbrot og hann viðurkenndi það hreinskilnislega og opinskátt að rekstur útvarpsstöðva væri lögbrot að óbreyttum lögum. Það er talsvert annað en heyra hefur mátt frá talsmönnum Sjálfstfl. á undanförnum vikum. Hann lýsti hins vegar þeirri von sinni að Sjálfstfl. væri ekki viðriðinn þetta mál. Ég skil vel þá frómu og heiðarlegu ósk hans. Ég veit að hún er af heilum hug mæli. En ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn fyrir hans hönd. Það er fullsannað að útsendingar þessarar sérstöku útvarpsstöðvar fóru fram frá húsi Sjálfstfl. (Gripið fram í: Það er bara reginmunur þar á.). Ja, ég verð nú að telja þetta sem fyrstu staðreynd málsins. Það er líka vitað að þegar rannsóknarlögreglan kom á staðinn meinaði framkvæmdastjóri flokksins lögreglunni aðgang að húsinu, vildi ekki að sannleikur málsins kæmi fram. Þetta er önnur staðreynd málsins. Það liggur líka fyrir að hæstv. fjmrh. gerði það sem í hans valdi stóð til þess að koma í veg fyrir að rannsókn á staðreyndum málsins færi fram og með einu símtali, eins og hér var rakið áðan, veitti hann raunar atbeina sinn til þess að lögreglan hvarf af staðnum. Það er alveg rétt, sem fram kom frá einum ágætum fulltrúa Sjálfstfl. á Alþingi í frammíkalli rétt áðan, að ekki eru þetta fullgildar sannanir. Vissulega eru þetta ekki fullgildar sannanir. En þegar færðar hafa verið svo sterkar líkur að því að lögbrot sé framið í húsinu og að það sé Sjálfstfl. sem þar eigi hlut að máli skyldi maður ætla að aðaltalsmaður Sjálfstfl., formaður flokksins, tæki af skarið og hreinsaði flokkinn, vísaði þessum ásökunum á bug. Það hefði verið einfalt mál af hans hálfu. En það gerði hann ekki. Þvert á móti varði hann þessi lögbrot. Hann gaf yfirlýsingar, ekki bara á opinberum vettvangi í fjölmiðlum, heldur líka hér á Alþingi, þar sem hann lýsti ánægju sinni með þessi lögbrot, og fer þá að vera afskaplega stutt í fullnaðarsönnun að minni hyggju.

Ég hygg að þeir sem eitthvað þekkja til þessa máls og til rannsóknarlögreglunnar viti það sama og kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni áðan. Þetta er fullsannað mál. Því miður, hv. þm., er þetta fullsannað mál. Hvað svo sem frómum óskum og góðum vonum líður, sem ég kann vel að meta að eru á sínum stað, fer ekki milli mála að þarna var Sjálfstfl. að verki og bar fulla ábyrgð á. Og eins og ég nefndi áðan hafa síðan staðið hér upp tveir talsmenn Sjálfstfl. á Alþingi, bæði hv. þm. Ellert Schram og Þorsteinn Pálsson, formaður flokksins, og varið löngum tíma í að verja þessi lögbrot og meira að segja hreyki sér af þeim.

Ég ítreka það enn að frá mínu sjónarmiði er það ekki það sem mest stendur upp úr í þessu máli hvort útvarpsstöðvar voru reknar eða ekki. Það er alveg rétt, sem hv. þm. nefndi hérna áðan, að lögbrot hafa fyrr verið framin í landinu. Og á þessu sviði, þ.e. á útvarpssviðinu, er um mörg lögbrot að ræða fyrr og síðar og þá ekki síst býsna mörg núna á allra seinustu árum. Margir okkar hafa haft þungar áhyggjur af því að framkvæmd laga væri ekki í samræmi við lagabókstafinn. Það getur auðvitað ekki góðri lukku stýrt hjá þjóðinni ef lög eru brotin í langan tíma með vitund og vilja forráðamanna þjóðfélagsins. En það sem er auðvitað hneykslanlegast í þessu máli er það, að í þessu tilviki voru það ráðherrarnir sjálfir og forustumaður flokksins sem stóðu fyrir lögbrotinu og vörðu það. Það er það sem er auðvitað meginmálið í þessu sambandi. (Menntmrh.: Hvaða ráðh.?) Spyr nú sá sem ekki veit. Ég heyri að hæstv. menntmrh. kemur alveg af fjöllum. Hann kannast ekki við það hvaða ráðherrar Sjálfstfl. hafa verið viðriðnir þetta mál, hefur ekki heyrt þess getið. En ekki ætla ég nú að endurtaka það sem ég hef sagt hér eða það sem aðrir hafa sagt.

Ég ætla einungis að segja það, að ég heyrði á ræðu hv. þm. Valdimars Indriðasonar að honum fannst sjálfsagt að láta rannsaka málið og það tel ég góðs vita. Og ég spyr því: Er ekki eðlileg afleiðing af þessari afstöðu þm. að hann styðji till. okkar vegna þess að málið verður ekki rannsakað fyrir dómstólum? Afskipti einstakra ráðh. af þessu máli og hugsanleg brot þeirra á lögum í því sambandi verða ekki rannsökuð fyrir almennum dómstólum. Þess vegna er auðvitað langeðlilegast að hv. þm. styðji okkur í því að þessi till. verði samþykkt.