31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég hef það sem af er þessu þingi reynt að leiða hjá mér nokkuð móðursýkislega umræðu um frjálst útvarp og það sem því fylgi þar sem fólk hefur greinilega ruglað mjög mikið saman lögbroti og einkennum þess fréttaflutnings sem fram fór í þessum svokölluðu frjálsu útvörpum. Ég get samt sem áður ekki leitt það hjá mér ef orð mín, töluð hér áðan, eru rangfærð. Ég lýsti því yfir að ég teldi hér vera um lögbrot að ræða. Ég er ekki dómari og enginn okkar hér, þannig að það er dómstóla að dæma um alvöru þessa brots. Ég lýsti því yfir líka að ég teldi það í sjálfu sér ekki alvarlegt og jafnvel eðlilegt að fólk bjargaði sér sjálft í þessum efnum þegar það hefði ekki þá þjónustu sem það er jafnvant og það er vant þjónustu Ríkisútvarpsins.

Ég er meðflm. að þessari till. vegna þess að ég tel það mjög alvarlegt ef sannast aðild ráðamanna þessarar þjóðar að þessu lögbroti. Það er allt annað en að upp spretti einhverjar útvarpsstöðvar hér og þar. Það er spurningin um aðild ráðh. og embættismanna þeirra manna sem við höfum skipað til þess að framkvæma þau lög sem við setjum á þessu þingi. Þess vegna er ég meðflm. að þáltill. um rannsóknarnefnd í þessu máli. Ef aðild ráðamanna að lögbroti telst sönnuð eða jafnvel þó að aðeins leiki grunur á um hana, þá tel ég það mjög alvarlegt fyrir þingræðið í þessu landi og nauðsynlegt að við því verði brugðist með þeim ráðum sem tiltæk eru og okkur eru í hendur falin.