09.05.1985
Efri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5013 í B-deild Alþingistíðinda. (4282)

106. mál, tannlækningar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þdm. hafa veitt athygli hefur verið dreift brtt. á þskj. 879 við frv. til laga um tannlækningar. Þessi brtt. er við 6. gr. frv. eins og það er eftir 2. umr. í þessari hv. deild og tekur til verksviðs tannlækna. Greinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Verksvið tannlækna tekur til varna, greiningar og meðferðar á tannskemmdum, tannskekkju og tannleysi, til sjúkdóma, slysa og galla er þessu tengjast, þar með talið í mjúkvefjum og beinum.“

Um þetta mál hefur staðið nokkur deila á milli aðila innan tannlæknastéttarinnar síðustu daga, ekki síst þeirra sem hafa þar forustu á hendi. Við nm. í heilbr.- og trn. teljum að með þessari brtt. sé orðið fullt samkomulag í þessu máli.

Vegna hugleiðinga um 7. gr. frv. eins og hún er eftir 2. umr. í þessari hv. deild vill heilbr.- og trn. Ed. sérstaklega taka fram að það er vilji nefndarinnar og nefndin leggur ríka áherslu á það að tannlæknar fái aðild að lyfjanefnd.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en um þetta var eindregin samstaða.