09.05.1985
Efri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5017 í B-deild Alþingistíðinda. (4285)

106. mál, tannlækningar

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns vekja á því athygli að við vorum með brtt. að skilgreina verksvið tannlækna. Í upphafi 6. gr. segir: „Verksvið tannlækna tekur til forvarna.“ Um leið og við skilgreinum þetta sem verksvið tannlækna verðum við að gera undanþágu til að aðrir megi fara inn á þetta verksvið. Þess vegna flyt ég þessa brtt. í framhaldi af sömu grein.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki að þessu til að skemma málið eða eyðileggja fyrir þeim tannfræðingum sem til eru hér á landi og ástunda fræðslu gegn tannskemmdum. Ég vona að það verði lögð áhersla á að mennta fleira fólk til þessara starfa. Því miður starfa fáir að þessum málum enn sem komið er. En það var skilningur í nefndinni og þar var lögð áhersla á að það yrði aukin menntun á þessu sviði.

Varðandi yfirtannlækni erum við ekki alveg sammála. Ég hélt að mætti byrja á því að festa þetta í lögum og síðan væri hægt að fá manninum skipunarbréf ef ráðh. teldi hann ekki starfa eftir nógu skýru skipunarbréfi í dag.

Til þess að lengja þessa umr. ekki frekar ætla ég bara að ítreka að ég lagði þessar brtt. mjög tímanlega fram í heilbr.- og trn. til þess að menn gætu kynnt sér þessi mál og tók það út úr þeim brtt. sem mér fannst ég geta fallist á að ekki þyrfti að vera inni. Brtt. mínar hafa því breyst í meðförum. En ég legg mjög ríka áherslu á að bæði viðbótin við 5. gr. og skilgreiningin skv. 8. gr. verði ekki felldar vegna þess að ég tel að við séum þá að fara skref aftur á bak en ekki áfram ef svo fer.