09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5020 í B-deild Alþingistíðinda. (4293)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli og jafnframt vil ég taka það fram að ég mun síður en svo leggjast á móti því að sett verði inn aftur ákvæði um að endurskoðun á þessum lögum skuli fara fram innan tiltekins tíma. Ég var í allshn. þegar unnið var að þessu máli. Eins og fram kom hjá hv. frsm. var lögð mikil vinna í það af n. og lögin urðu miklu einfaldari en gert hafði verið ráð fyrir í frv. sem lagt var þá fram. Þar sem þarna var þannig að verki staðið og um að ræða fyrstu löggjöf á þessu sviði var talið sjálfsagt að setja inn þetta endurskoðunarákvæði þegar nokkur reynsla væri komin á framkvæmdina. Það sjónarmið mun hafa legið að baki því að ekki er í frv. aftur gert ráð fyrir endurskoðun innan tiltekins tíma að reynslan af þessari lagasetningu hafi verið góð, eins og hér hefur komið fram, og því kannske ekki jafnrík ástæða til þess og í upphafi að hafa slíkt ákvæði. Hins vegar vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum, að þróun er ákaflega ör á þessu sviði, eins og við vitum, og notkun alls konar tölvutækja ört vaxandi, bæði hjá opinberum stofnunum og einkaaðilum. Því er vissulega ástæða til þess að þarna verði áfram sami háttur hafður á. Því hef ég síður en svo neitt við það að athuga að rn. sé veitt aðhald og ætlast sé til endurskoðunar á lögunum innan ákveðins tíma.