09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5021 í B-deild Alþingistíðinda. (4296)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér er fjallað um, er um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Þetta frv. er komið frá Nd. og samþykkt þar en sjútvn. Ed. leggur til að gerð verði á því breyting sem fjallar um það að þarna verði bætt inn aftur fulltrúum rækju- og hörpudiskframleiðenda vegna þeirra eindregnu óska og viðtala sem við höfum átt við þá aðila. Nál. er á þskj. 877 og hljóðar þannig:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á fundum sínum. Nefndinni barst erindi frá Félagi rækju- og hörpudisksframleiðenda sem fer þess mjög eindregið á leit að fulltrúar félagsins fái sæti í Verðlagsráði þegar fjallað er um verðlagningu á rækju og hörpudiski, en ekki er gert ráð fyrir því í frv. Nefndin ræddi þessi mál mjög ítarlega og fékk á sinn fund Bolla Bollason deildarstjóra hjá Þjóðhagsstofnun, en hann var ritari þeirrar nefndar er samdi frumvarpsdrögin.

Nefndin féllst á skoðanir Félags rækju- og hörpudisksframleiðenda og ber því fram á sérstöku þskj. brtt. við frv. og mælir að öðru leyti með samþykkt þess.“

Öll n. er sammála um þetta nál., en hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir skrifar undir það með fyrirvara. Hún er samþykk afgreiðslu á þessum lið, en hún mun þá kveða sér hljóðs um annað ef það er í þessu efni. Þessi breyting okkar á rætur að rekja til þess að rækju- og hörpudiskframleiðendur hafa með sér sérstakt félag og þegar málið var til umr. í Nd. höfðu þeir af misskilningi ekki komið sínum sjónarmiðum þar að eins og þeir hefðu ætlað sér svo að þetta komst ekki í hendur Alþingis fyrr en málið var komið til Ed. og við fengum bréf þar um frá þessum aðilum. Aðalröksemd þeirra fyrir þessu kemur fram í bréfi frá þeim þar sem segir, með leyfi forseta:

„Félag rækju- og hörpudisksframleiðenda er eini aðilinn sem er ótvíræður fulltrúi allra framleiðenda í þessum greinum. Aðild að félaginu eiga nú 37 vinnslustöðvar. Nokkrar þessara vinnslustöðva eru innan sölusamtaka SH og SÍS en utan greindra sölusamtaka eru framleiðendur með um 60–70% rækjuframleiðslunnar og 80–90% hörpudiskframleiðslunnar í landinu.“

Þarna kemur því greinilega fram að þeir telji sig eiga fullt erindi þegar rætt er um þessi mál í Verðlagsráðinu. Þeir fengu 1983, með sérstakri reglugerð sem þá var sett, tvo fulltrúa inn í ráðið þegar fjallað var um þessi mál en þeir eru teknir út aftur í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru lögð fram. Nefndin telur sig ekki geta annað en mælt með því að þeir verði þarna áfram og mælir því með því að breyting verði gerð á sérstöku þskj. nr. 878. Þetta verða þá tvær breytingar sem n. leggur til að gerðar verði. Það er í fyrsta lagi að B-liður í 1. gr., 1. mgr. orðist svo að þar bætast inn í tveir fulltrúar tilnefndir af Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda. Í öðru lagi að við 3. gr. á eftir 1. málsgr. komi ný málsgr. svo hljóðandi:

„Þegar ákveða skal verð á rækju og hörpudiski skal Verðlagsráð skipað fjórum fulltrúum fiskseljenda skv. 1. gr. og fjórum fulltrúum fiskkaupenda, þannig: tveir frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, einn frá sjávarafurðadeild SÍS og einn frá Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna.“

Ef þessu yrði ekki breytt á annan veg yrðu í verðlagningunni á rækju og hörpudiski einn fulltrúi frá sjávarafurðadeild SÍS, tveir fulltrúar frá SH og einn fulltrúi frá SÍF eða Sambandi ísl. fiskframleiðenda. Okkur finnst því eðlilegt og í því ákveðið réttlæti gagnvart þeim sem óska þarna eftir aðild og eiga allt sitt undir því sem þarna er gert, að það sé ekki fulltrúi frá saltfiskframleiðendum sem fjalli um það mál. Má þá fella niður annan fulltrúa frá SH þannig að þá kemst jafnvægi á ráðið aftur. Þetta eru rökin fyrir því að við leggjum til þessa breytingu.