09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5024 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð vegna orða hv. 8. þm. Reykv. áðan um Verðlagsráðið. Þó að hann væri kominn út í kirkjusóknir líka þá er það kannske annað mál. Hann og hv. 8. landsk. þm. leggja til að felld verði niður úr þessum lögum 10. gr. Þetta er ákaflega háleit hugsjón, má segja. Við getum rætt það ítarlega — en það verður ekki gert núna — hvort á að leggja niður Verðlagsráð eða ekki. Það er sérstakur kapítuli.

En hv. þm. fór með ýmsar staðhæfingar sem alls ekki geta staðist. Hann sagði t. d. að vegna þessarar greinar og ákvörðunar oddamanns leiddi þetta til gengisfellinga, upptöku gengishagnaðar og alls konar leikfimi, eins og hann orðaði það, á þessum sviðum. Ég veit ekki hvaða rök þarna liggja bak við. Hv. þm. er alltaf að bera okkar litla markað hér á Íslandi saman við þá stóru fiskmarkaði sem eru erlendis. Þar ganga málin. Við sjáum það á sölu íslenskra skipa á erlendum mörkuðum sem eru að selja á alls konar verðum, kannske frá 20 kr. upp í 50 kr. kílóið. Þetta held ég að sé ekki fyrir hendi hér á Íslandi enn þá nema þá í mjög litlum mæli á sérstökum tegundum. Ég teldi vera í þessu ákaflega mikið óöryggi fyrir alla aðila, útgerð, fiskvinnslu og það fólk sem þar vinnur.

Hlutverk oddamanns í þessum efnum er að leita sátta í þessum málum, á milli aðila sem eru að deila. Útgerðarmenn og sjómenn vilja fá sitt verð, vinnslan telur sig ekki geta borgað nema þetta. Þá þarf einhvern til þess að skera þarna úr. Hv. þm. gæti kannske bent mér á aðra leið en þessa. Frjáls markaður, segir hann. Auðvitað á ég ekki að vera að mótmæla frjálsum markaði, sjálfstæðismaðurinn sjálfur, en ég get nú gert það við viss tækifæri fyrir það. Allt frjálsræði á sér viss takmörk, það skulum við gera okkur fullkomlega ljóst.

En segjum svo að við förum hér niður á bryggju. Ég hef nægan fisk þessa vikuna, skip er að koma inn með fullfermi af einhverjum fiski sem vinnslan kærir sig ekki um að vinna og hefði engan áhuga fyrir því — það er misjafnt hvað gengur að vinna þetta — hvað skeður þá? Hvað fær sjómaður út úr þeirri veiðiferð, t. d. karfatúrar hér á sumrin sem fæstir hafa viljað líta við? Hvað hefur verkamaðurinn mikið út úr þeirri vinnslu? Er þetta til hagsbóta? Hefur BJ hugsað þetta í botn hvað þeir eru að biðja um, hvað þeir eru að fara? Þetta er sýndartillaga, segi ég, meðan við búum við þetta kerfi. Ég vil fá röksemd, fyrir því hvað þeir meina, hvað þeir vilja fá í staðinn. Ég veit að svarið sem ég fæ: Þið eigið bara að semja um þetta sjálfir, fiskseljendur og fiskkaupendur, þetta kemur ríkinu ekkert við.

Þetta er hugsjón sem er ekki í sjónmáli nema að raska öllu því kerfi sem við búum við. Það má alltaf lagfæra eitthvað en ég mótmæli því eindregið að þetta hafi verið til þess að hér verði sífellt fellt gengi og upptaka gengismunar og alls konar leikfimi í kringum þetta. Þessi maður, sem er oddamaður í Verðlagsráði, hefur reynt eftir föngum að leita þeirra leiða sem stuðluðu að því að við gætum fengið frið á vinnumarkaðinum í þessum efnum en ekki til að setja á stofn neinar leikfimiaðgerðir í þessum efnum. Þess vegna mótmæli ég þessum framkomnu hugmyndum í ræðu hv. þm. um þessi mál.