09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5025 í B-deild Alþingistíðinda. (4300)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykv. fór hér nokkrum orðum um þetta frv. og er hér með brtt. um að fella burtu 10. gr. frv. sem hann sagði reyndar í lok ræðu sinnar að mundi þýða að þá væri frv. lítils virði. Ég tek undir það að með því að sú grein sé felld í burtu þá er frv. einskis virði.

Hv. þm. sagði að þetta frv. og fyrst og fremst þessi grein stæði fyrir eðlilegri þróun viðskipta. Hann sagði reyndar að sú stefna, sem hann væri að boða, væri „lögmál frumskógarins“, hún hefði verið nefnd því nafni. Ég gat ekki tekið eftir öðru en að raunverulega væri hann að boða það hér í þessum ræðustól í gær í sambandi við það mál sem hann nefndi einnig í ræðu sinni nú, um Sölustofnun lagmetis. Hann bar saman ágæti þess starfs sem hann hefði verið í áður en hann settist hér inn á Alþingi. Þar væri nú munurinn, þar væri hin rétta framkvæmd á viðskiptum á milli manna. Hann hafði verið arkitekt og þar væri hin rétta fyrirmynd í sambandi við viðskipti manna á milli. Hann nefndi það reyndar í sinni ræðu að þar gætu menn samið og hefðu samið. En því miður hef ég aldrei orðið var við það að við þann aðila væri hægt að semja. Öll mín viðskipti við þá ágætu stofnun hafa verið sú að það hefur verið auglýstur taxti og þegar maður hefur spurt um hver reikningurinn væri þá er svarað: Ja, hann er skv. taxta og þennan taxta skulum við greiða. Sem sagt, það sem verið er að boða hér með því að fella niður 10. gr. frv. eða gera þetta frv. ómerkt, það er það að annar aðili geti lagt fram taxta og við þennan taxta skulu menn búa.

Vitaskuld mundi ekkert ske annað ef lögin um Verðlagsráð sjávarútvegsins í einhverri líkri mynd og þau eru hér væru felld úr gildi eða þessi 10. gr. en að annar aðilinn — og þá fiskkaupandinn — mundi leggja fram taxta. Við það verður ekki búið í íslensku þjóðfélagi. Það er kannske hægt að búa við það að smáhópar eins og arkitektar og verkfræðingar geri það en það er alls ekki hægt að búa við það að heil atvinnugrein og heil atvinnustétt eins og sjómenn búa við það að þeim sé skammtaðar tekjur á þann máta að annar aðilinn og þá kaupandinn geti auglýst sinn eigin taxta.