09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5026 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim fóstbræðrum, hv. 3. þm. Vesturl. og 4. þm. Vesturl., kærlega fyrir þeirra innlegg inn í þessa umr., sérstaklega vegna þess að það hefur kannske á ýmsan hátt verið meira upplýsandi en þau fátæklegu orð sem ég viðhafði áðan, hlaupandi hér inn úr símaklefanum.

Ef við tökum það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði, þar sem hann sá ástæðu eins og ég að draga upp ákveðna mynd af hliðstæðum í okkar þjóðfélagi, þá sást honum mjög illilega yfir það í sínum málflutningi sem akkúrat rökstyður með mjög einföldum hætti það sem ég hef hér fram að færa. Ef honum ekki semur við sinn arkitekt þarf hann ekkert að hlíta því að skipta við þann mann, hann getur farið eitthvað annað, og hann veit nákvæmlega jafn vel og ég, ef hann hefur nokkra nasasjón af þessum efnum, að hann getur fengið afskaplega mismunandi verð á þeirri þjónustu sem hann leitar að í þeim efnum. Ef hann ekki veit það veit hann heldur ekkert hvað hann er að tala um. Það er þetta sem ég er að segja, þegar búið er að ákveða verðið með þeim hætti sem hér er gert í dag þýðir afskaplega lítið fyrir þig að leita eitthvað annað nema þá að vera að gera eitthvað sem kallast lagabrot.

Hv. 3. þm. Vesturl. og fóstbróðir hans, 4. þm. Vesturl., könnuðust bara alls ekkert við það að það væri neitt samhengi á milli fiskverðsákvörðunar og gengisfellinga. Það skyldi þó ekki vera að þeir hafi bara alltaf gleymt að lesa blöðin í janúar, febrúar og í september, í kringum þessi tímabil þegar verið er að slást um fiskverðið. Ég ætla að vona að þeir hafi báðir bara verið að grínast því að auðvitað vita þeir jafn vel og ég hvert samhengið er milli fiskverðsákvörðunar og gengisfellingar hér á landi. (VI: Er það oddamanni að kenna?) Ég er ekkert að níðast hér á persónu oddamannsins, ég er að níðast hér á hlutverki oddamannsins í kerfinu því að hann situr þarna og hann tekur ákvarðanir sem fara saman við ákvörðun ríkisstj. og ríkisvalds og þar er fiskverðið ákveðið með því að slaka út á öðru borðinu og kippa í á hinu. Það er beint samhengi á milli gengisfellinga og fiskverðsákvarðana. Þetta hafa verið reglubundnar hríðir í íslensku þjóðlífi undanfarin 10–15 ár a. m. k. Menn þekkja þetta, þetta kemur bara rétt eins og krían á vorin, þegar fiskverð er ákveðið þá er farið að krukka í gengið. Og þegar búið er að krukka í gengið þá er venjulega krukkað í launin á eftir. Þetta hangir allt saman saman.

Ef menn halda því fram að þetta séu góð vinnubrögð, hverju kenna þeir þá um árangursleysinu? Hvað er þá að? Eða er ekkert að? Er þetta allt saman bara gott og blessað? Býr fólk í þessu landi bara við dægileg laun og hefur það afskaplega gott? Eða ætla menn að neita því að það sé eitthvert samhengi á milli fiskverðsákvarðana, gengisskráningar og launa fólks? Ætla menn raunverulega að halda því fram að það sé um aldur og ævi ekki tilraunarinnar virði að reyna eitthvað annað? Hefur 4. þm. Vesturl. t. d. gersamlega sætt sig við það um aldur og ævi að svona sé farið að hlutunum? Hefur hann gersamlega sætt sig við það um aldur og ævi að menn eigi aldrei að geta fengið meira verð fyrir sinn fisk eða minna verð eftir því hvernig á stendur hjá þeim viðskiptaaðila sem um er að ræða?

Ég hélt að það væri orðið eitthvað að hlustunum í mér hér áðan þegar hv. 3. þm. Vesturl. stóð hér í stól og kyrjaði sinn framsóknarsöng. Hvað eiga menn að gera, spurði hann, þegar þeir veiða einhvern fisk sem enginn vill vinna? Hvað á maður að gera sem er að framleiða vöru sem enginn vill kaupa? (Gripið fram í.) Hvað gerir maður sem er að framleiða skó sem enginn vill kaupa? Hann hættir að framleiða þá, hann biður ekki ríkið um að ákveða verðið á þeim og neyðir menn til að kaupa þá. Ef þú ert að veiða einhvern fisk sem enginn maður vill vinna þá annaðhvort veiðir þú ekki eða veiðir einhvern annan fisk. Ég hlusta ekki á eitthvert kjaftæði um það að ég viti ekki um hvað ég er hér að tala. (Gripið fram í.)

Ég held og ég vona enn þá að menn komist einhvern tíma að því að fara að tala um þessi mál út frá spurningunni sem ég lagði fram áðan: Erum við að gera hér þá hluti sem við teljum að nái árangri? Hafa þeir skilað árangri? Erum við sáttir við þá og ætlum við að hafa þá svona um aldur og ævi eða er breytinga þörf og þá hvaða?

Hv. 4. þm. Vesturl. var mér hjartanlega sammála um það að ef maður kippti 10. gr. úr þessu frv. væri það eins og að taka tappann úr fótbolta, þá er ekki lengur um neitt að spila. Það er þess vegna sem ég stend að þeirri brtt. að 10. gr. verði felld úr þessum lögum því þar með eru þessi lög og það kerfi numið úr gildi sem komið hefur verið upp til þess annars vegar að standa að fiskverðsákvörðun, hins vegar að standa þar með í fyrsta lagi að kjörum þess fólks sem starfar í sjávarútveginum og síðan að kjörum allra þeirra sem þeim störfum tengjast. Þessi brtt. er sett fram einfaldlega til þess að reyna að breyta til og sjá hvort ekki er hægt að ná betri árangri með því — eins og ég sagði áðan og hv. 3. þm. Vesturl. fannst svo gersamlega út í hött — að menn reyni að semja um þessi mál eftir öðrum leiðum.