09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5030 í B-deild Alþingistíðinda. (4307)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það verður nú að vera meira en ein setning þó að örstutt athugasemd sé, þegar menn viðhalda þeim vinnubrögðum að koma hér svo seint inn í umr. að maður er búinn að tala sig dauðan þegar þeir loksins finna sig tilknúna að standa upp og verja kerfið.

Hér talaði fulltrúi Alþfl., hér talaði fulltrúi þeirra sem semja fyrir verkalýðinn og lýsti yfir ánægju sinni með þetta fyrirkomulag og afleiðingar þess og lýsti yfir miklum áhyggjum sínum yfir því hvernig færi ef menn þyrftu að semja við sjálfa sig. Það var það sem hann átti einna erfiðast með að skilja og er það kannske skiljanlegt með tilliti til þess að hann talar núna hér úr þessum ræðustól a. m. k. gersamlega þvert á yfirlýsta stefnu formanns þess flokks sem hann er fulltrúi hér fyrir. En hann lýsti því yfir í blöðunum bæði í gær og í dag að hann og fyrst og fremst hann væri forvígismaður þeirrar stefnu að semja um kaup og kjör í smáum einingum. Hann væri forvígismaður vinnustöðvasamninga og þar af leiðandi þess að menn semdu sín á milli í sem smæstum einingum.

Það er sorglegt, virðulegi forseti, að hlusta á það að menn skuli vera komnir hér svo langt að þeir eru búnir að gleyma því að hægt sé að semja öðruvísi en undir verndarvæng ríkisins. Ég hirði ekki um að svara atriðum eins og um lögmál frumskógarins og þar fram eftir götunum sem menn eru hér að snúa út úr.