09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5031 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. mjög. Ég hef það oft áður staðið í þessum ræðustól og tíundað þetta sama mál. En ég vil aðeins taka fram að hér er verið að ræða um að aðilar semji án afskipta ríkisvaldsins. Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á að í þeirri nefnd, sem samdi þetta frv. sem hér um ræðir var lagt til að oddamaður yrði sviptur sínu atkvæði, að hann yrði sem sagt ekki með atkvæðisrétt. Það væri strax spor í áttina því að með því móti væri ríkið ekki að greiða atkvæði í samningum um fiskverð. Þetta vil ég minna hv. þm. á. Þetta kom fram í grg. sem fylgdi fyrstu drögum að þessu frv.

Hér er rætt um að verið sé að rugla fram og til baka. Ég er ekki viss um hver er að rugla. Ég tel hv. þm. hafa verið að rugla fram og til baka. Hann telur að við séum að ráðast á sjómenn, útvegsmenn og verkafólk. Það háttar nú svo til að þrátt fyrir ákvörðun um fiskverð kemur ríkisvaldið og setur lög sem skerða rétt sjómanna. Þetta á ekkert skylt við ákvörðun í Verðlagsráði. Ég vildi aðeins koma þessum atriðum að. Ég ætla ekki að fara að tíunda hér hvað skrifað er um í blöðunum. Við getum gert það utan ræðustóls.