09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5036 í B-deild Alþingistíðinda. (4330)

47. mál, barnalög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að harma þá afgreiðslu á þessu máli sem meiri hl. allshn. leggur hér fyrir deildina jafnframt því sem ég þakka till. minni hl., sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Guðmundur Einarsson skipa, um afgreiðslu málsins og þann skilning sem fram kemur hjá þeim á mikilvægi þessa máls.

Ég skil satt að segja ekki afstöðu meiri hl. í þessu máli, enda er engan haldbæran rökstuðning að finna sem skýrir andstöðu hans við þetta frv. Enda er varla hægt að segja að þeir hafi góðan málstað að verja sem í raun leggja til að Alþingi Íslendinga leggi blessun sína yfir óréttlæti og mismunun í aðstöðu einstæðra foreldra og barna þeirra, þ. á m. til menntunar.

Það eru vissulega léttvæg rök í þessu máli að hopa í það skjól að þar sem almannatryggingalöggjöfin sé í endurskoðun þá beri að vísa málinu til ríkisstj., löggjöf sem búin er að vera í endurskoðun í fjölda ára án þess að nokkuð komi út úr því. Það er í raun óþolandi að hvenær sem reynt er að koma fram réttarbótum, hvort heldur er á lífeyrisréttindakerfinu í eða almannatryggingalöggjöfinni, þá sé Alþingi Íslendinga meinað að taka afstöðu til mála af því að stjórnskipaðar nefndir séu að fjalla um málin, nefndir sem setið hafa á rökstólum í fjölda ára eins og lífeyrisréttindanefndin, eða frá 1977, og a. m. k. tvær eða þrjár stjórnskipaðar nefndir á undanförnum tíu árum til að endurskoða almannatryggingalöggjöfina. Þeim mun eymdarlegri er þessi afstaða meiri hl. að hér er ekki verið að leggja til breytingu á almannatryggingalöggjöfinni. Tryggingastofnun ríkisins hefði ekki með framkvæmdina að gera skv. ákvæðum frv. að öðru leyti en því að vera greiðsluaðili.

Skv. ákvæðum 17. og 19. gr. barnalaganna er um heimildarákvæði að ræða og er það valdsmaður sem úrskurðar um framlengingu á framfærsluskyldu til 20 ára aldurs vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns, svo og framfærslu vegna sérstakra útgjalda skv. 19. gr. Svo yrði einnig að því er ákvæði þessa frv. varðar nema Tryggingastofnun ríkisins yrði greiðsluaðili í þeim tilfellum að meðlagsskyldur aðili er ekki lengur á lífi, eða af öðrum ástæðum reynist ókleift að inna greiðslurnar af hendi skv. úrskurði valdsmanns auk þess sem leiðbeiningar um fjárhæðir í slíkum tilfellum eru settar af dómsmrh. Ég tel það því hreinan fyrirslátt hjá meiri hl. n. að koma sér hjá að taka afstöðu til þessa máls með vísan málsins til ríkisstj. þar sem almannatryggingalöggjöfin sé í endurskoðun. Ég minni á að Alþingi hefur með samþykkt barnalaganna frá 1981 ákveðið heimild til að framlengja framfærsluskyldu meðlagsskylds aðila til 20 ára aldurs ef um er að ræða menntun eða starfsþjálfun barns. Þar var um nýmæli að ræða sem og það ákvæði að framlengja framfærsluskylduna almennt til 18 ára aldurs.

Eins og hv. þm. vita er það Tryggingastofnun ríkisins sem greiðir framfærslueyri til 18 ára aldurs til einstæðra foreldra og barna þeirra ef ekki er til neins meðlagsskylds aðila að leita. Löggjafinn hefur með samþykkt barnalaganna viðurkennt og heimilað viðbótarframfærslueyri til einstæðra foreldra sem leitað geta til meðlagsskylds aðila í sérstökum tilfellum svo sem vegna menntunar barna til 20 ára aldurs. Með því hefur löggjafinn viðurkennt þörfina á viðbótarframfærslu til einstæðra foreldra í sérstökum tilfellum. En löggjafinn hefur einungis gengið hálfa leiðina í þessu efni, þ. e. heimilað með lögum viðbótarframfærslueyri til hluta einstæðra foreldra, en skilur eftir þann hóp einstæðra foreldra sem ekki getur leitað til meðlagsskylds aðila. Löggjafavaldið er hér að mismuna börnum einstæðra foreldra og skapa þeim mismunandi aðstöðu og möguleika til menntunar. Hver eru rökin fyrir slíkri mismunun? Eru rökin þau að t. a. m. einstæð móðir með fjögur börn, sem ekki getur leitað til meðlagsskylds aðila með viðbótarframfærslueyri vegna menntunar barna sinna, sé í minni þörf fyrir aðstoð en einstæð móðir með tvö börn sem skv. ákvörðun Alþingis getur fengið slíka fyrirgreiðslu af því að hún getur leitað til meðlagsskylds aðila? Þetta er auðvitað aldeilis fráleitt og Alþingi Íslendinga er ekki stætt á að standa að slíkri mismunun. Ég veit að það eru margir einstæðir foreldrar sem bíða úrslita þessa máls hér á hv. Alþingi.

Fyrir nokkrum dögum talaði við mig einstæð móðir með þrjú börn, tvö í menntaskóla, sem þessi einstæða móðir segir að hætta verði við það nám sem hugur þeirra stendur til vegna þungrar framfærslubyrði þessarar einstæðu móður. En það var einmitt ákvæði þess frv., sem meiri hl. vill nú vísa til ríkisstj., sem gæti hjálpað þessari einstæðu móður og börnum hennar. Þessi afstaða meiri hl. veitir því þessari einstæðu móður enga lausn. En í afstöðu meiri hl. felst að skipta einstæðum foreldrum upp í tvo hópa og viðurkenna viðbótarframfærsluþörf annars, vegna menntunar barna þeirra, en ekki hins, sem allt eins getur búið við erfiðar aðstæður, ef ekki verri aðstæður.

Herra forseti. Málið í hnotskurn er að skv. ákvörðun Alþingis greiðir Tryggingastofnunin nú framfærslueyri með börnum einstæðra foreldra til 18 ára aldurs. Alþingi hefur viðurkennt þessa þörf og nauðsyn á viðbótarframfærslueyri til hluta einstæðra foreldra og barna þeirra. Þar með er rökrétt framhald að Alþingi tryggi einnig sambærilegan rétt þeirra sem ekki geta leitað til meðlagsskylds aðila og sem Tryggingastofnun ríkisins hefur nú skyldu við vegna framfærslu barna þeirra til 18 ára aldurs.

Ég tel, herra forseti, að meiri hl. allshn. þurfi að skýra betur sín sjónarmið og rökstyðja hvers vegna hann leggur til að Alþingi staðfesti slíka mismunun og óréttlæti. Ég vil minna á að í bréfi Félags einstæðra foreldra í febrúarmánuði 1984 til forsrh. er það sett fram sem ein megintillaga Félags einstæðra foreldra að þetta misrétti verði leiðrétt. Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að vitna í bréf formanns Félags einstæðra foreldra, sem ritað er formanni allshn. Alþingis og ljósrit sent formönnum þingflokkanna og dagsett er 15. apríl 1984, sem sent er í tilefni af afgreiðslu þessa frv. frá hv. allshn. Það hefur hv. þm. Guðrún Helgadóttir þegar gert. En þar kemur fram að stjórn Félags einstæðra foreldra telur það fráleita afgreiðslu að senda málið til ríkisstj. og skora á þm. að samþykkja þetta frv.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti, en vænti þess að hv. alþm. hafni þeirri tillögu meiri hl. að vísa málinu til ríkisstj. og samþykki þess í stað þetta frv. sem tryggir að börn sem aðeins eiga annað foreldra á lífi hafi sömu möguleika og börn annarra einstæðra foreldra og einstæðum foreldrum verði ekki mismunað að því er varðar þann rétt og stuðning sem 17. og 19. gr. barnalaganna veita einstæðum foreldrum.