09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5039 í B-deild Alþingistíðinda. (4332)

47. mál, barnalög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég er nú engu nær varðandi afstöðu meiri hl. í þessu máli eftir ræðu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar. Hv. þm. heldur því réttilega fram að barnalögin hafi verið sett til þess að halda fram rétti barnsins. En ég spyr hv. þm.: Er það hans skoðun og hans sjónarmið að rétti barnsins sé haldið fram með þeim hætti sem fram kemur í nál. meiri hl.? Ég get ekki séð það. Ég fæ ekki séð annað en þarna sé verið að mismuna börnum en ekki halda fram rétti þeirra. Hv. þm. talaði hér um að um algjör undantekningarákvæði væri að ræða eða undantekningartilfelli. Ef þarna er um fá tilfelli að ræða er það gott og vel og rökstyður þá enn þá frekar að ástæða er til að samþykkja þetta frv. vegna þess að varla yrði þá mikill kostnaður samfara því. En ég vildi láta það koma hér fram, herra forseti, að það er ekki verið að halda fram rétti barnsins með því að afgreiða málið með þeim hætti sem meiri hl. leggur til.