09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5043 í B-deild Alþingistíðinda. (4339)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nýju frv. til l. um Þjóðskjalasafn Íslands. Þetta mál hefur hlotið einróma samþykki hv. Ed. og er því núna hér til 1. umr.

Mál þetta hefur hlotið mjög mikinn undirbúning, er mér óhætt að segja. Á síðasta ári lágu fyrir í menntmrn. tvö fullbúin frv. um Þjóðskjalasafn. Til þess að unnt væri að flytja málið varð því að vinna eitt frv. upp úr þessum gögnum og það hefur verið gert. Hin fyrri frv. voru undirbúin af nefndum sem þáv. menntmrh. hafði sett. Annað af nefnd sem sett var 1980 og hitt af nefnd sem sett var nokkru síðar.

Yfirferð þessara frv. og samning hins nýja frv. var fyrst og fremst í höndum starfsmanna menntmrn., ekki síst Kristjönu Kristinsdóttur skjalfræðings, sem vann um tíma í menntmrn., og Runólfs Þórarinssonar. Árangur þessa starfs liggur fyrir hér í frv., en sem fskj. eru birt álit hinna fyrri nefnda.

Þetta frv. felur í sér nokkrar meginbreytingar sem leiða af nýju fyrirkomulagi og hið nýja fyrirkomulag er aftur afleiðing af nýrri tækni og stóraukinni skjalaframleiðslu sem fylgir í kjölfar þessarar nýju tækni. Nýmælin eru fyrst og fremst fólgin í því að nú verður sérstök stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns þjóðskjalaverði til ráðuneytis. Í annan stað er eftirlitshlutverk falið Þjóðskjalasafni þannig að það annist eftirlit með skjalasöfnum þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir skv. væntanlegum lögum ef frv. verður samþykkt. Þjóðskjalasafn á að láta í té ráðgjöf, veita leiðbeiningar um skjalavörslu og tölvuskráningu skjala og stefnu um ónýtingu skjala og grisjun þeirra skjala sem ekki er talin ástæða til að varðveita til frambúðar. Einnig er ætlast til að Þjóðskjalasafn gangist fyrir fræðslu um skjalavörslu fyrir fólk sem á að annast vörslu skjala í opinberum stofnunum með námskeiðum og leiðbeiningarritum.

Það er svo að okkar land er e. t. v. nokkuð orðið á eftir ýmsum öðrum löndum á okkar menningarsvæði um skjalakerfi, um kerfi til vistunar skjala. Það þýðir aftur á móti að svo mikið getur safnast fyrir af ónauðsynlegum skjölum að við lendum hreinlega í vandræðum með geymslurými og einnig um aðgang að þeim skjölum sem máli skipta og það verður æ vandasamara að skilja hismið frá kjarnanum. Vegna þess vanda sem mönnum er á höndum um að ákveða hvaða skjöl verði talin skipta máli þegar frá líður og hver ekki hafa menn horfið að því að gera ráð fyrir því að sett verði á laggirnar stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns sem skipuð verði til fjögurra ára í senn.

Gert er ráð fyrir því skv. breytingum sem Ed. gerði á frv. að við safnið skuli starfa skjalfræðingar eða sagnfræðingar með skjalfræðimenntun en ekki einungis, eins og var í upphaflega frv., að heimili verði að ráða fólk með slíka þekkingu. Það gildir sem sagt um þá breytingu, eins og raunar allar þær breytingar sem hv. Ed. gerði á frv., að um það voru menn sammála að þær væru allar til bóta. Ég tek undir þá skoðun og hygg því að skynsamlegt sé að leggja á það áherslu að frv. fái afgreiðslu í þessari hv. deild í því formi sem hv. Ed. gekk frá því.

Ég hafði, þegar ég mælti fyrir þessu frv. í Ed., gengið út frá því að þm. þyrftu allrúman tíma til að kynna sér þau viðamiklu gögn sem frv. fylgdu, en niðurstaða Ed. varð sú að loknum lestri þessara gagna að málið væri svo brýnt og svo sjálfsagt að því bæri að fylgja fram til þess að það hlyti lokaafgreiðslu nú á þinginu. Menntmn. Ed. kallaði til sérfróða aðila um þetta efni og voru þeir ásamt nefndinni allir á einu máli.

Ég vil í sambandi við þetta, þó að það sé ekki beinlínis hluti þessa frv., vekja athygli á því að báðar nefndirnar sem unnu upphaflegu frv. lögðu áherslu á það í nál. sínum að fyrr en síðar yrði að hyggja að framtíðarhúsnæði Þjóðskjalasafns, nútímahúsnæði sem gerði ráð fyrir þeim búnaði sem vera þyrfti til þess að auðvelt sé að varðveita skjöl. Þær gengu m. a. s. svo langt í ábendingum sínum að bent var á sérstaka skjalaskápa sem hentuðu einstaklega vel til að varðveita skjölin í hinu nýja húsnæði. Það má vel vera að unnt sé að koma þeim skápum við í Landsbókasafnshúsinu, ekki skal ég um það segja, en gott er að hafa fyrirhyggju í þessu efni. En því nefni ég þetta að ég hlýt að minna á það í þessu sambandi hve brýnt er að auka húsnæði Þjóðskjalasafns. Það atriði er aftur á móti hluti af máli sem við minnumst stundum á, en það er bygging þjóðarbókhlöðu. Það hefur verið gert ráð fyrir því og var gert ráð fyrir því þegar á sjöunda áratugnum að Þjóðskjalasafn fengi allt húsnæði Landsbókasafnshússins þegar bygging þjóðarbókhlöðu væri fullbúin og á þeim tíma gerðu menn ráð fyrir því að það yrði fyrr en raun virðist vera á. Nú hafa menn komist á þá skoðun að það muni vera hentara þegar þar að kemur að byggja húsnæði sem er sérstaklega til þessara nota ætlað og enn hentugra en hin fagra bygging Landsbókasafnsins við Hverfisgötu. Þetta mál má segja að sé nokkuð annað en frv. sjálft, en óneitanlega verður þetta ofarlega í huga þegar um þetta mál er fjallað.

Ég vil, herra forseti, leggja það til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar deildar.