09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5046 í B-deild Alþingistíðinda. (4343)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég veit að hæstv. forseti þessarar deildar kann því ekkert illa að rætt sé um þjóðarbókhlöðu. Ég veit að hann fylgdi því máli eftir af talsverðum áhuga í síðustu ríkisstj. sem reyndar hafði þetta hús í sínum stjórnarsáttmála sem ég hygg að sé nokkuð óvenjulegt en var nauðsynlegt.

Ég var ekki að tala um að Alþingi ætti að víkja sér undan neinni skyldu. Ég bið hæstv. menntmrh. að misskilja mig ekki þannig. Ég átti einfaldlega við það að við reyndum að finna leiðir til þess að lögbinda með einhverjum hætti öðrum en í fjárlögum og lánsfjárlögum fjárstreymi til þjóðarbókhlöðunnar. Alþingi hefur þessa skyldu, ríkisstj. hefur þessa skyldu. Alþingi hefur sem almennt fjárveitingarvald vikið sér undan því að bera þessa skyldu eins og því er í rauninni skylt að gera. Það er þess vegna sem ég bað þm. um að hugleiða hvort ekki væri unnt að finna aðra leið um að taka myndarlega á þannig að við gætum hér innan allt of langs tíma eignast þjóðarbókhlöðu sem er sómi að. Ég tel að meðan þessi bygging stendur þarna hálfköruð sé það blettur á okkur. Við tökum við miklum verðmætum af annarri kynslóð sem við ákveðum að geyma sem best. Meðan við höfum ekki búið sæmilega um þessi verðmæti höfum við ekki staðið okkur sem skyldi. Við eyðum gífurlegum fjármunum í alls konar neyslu og eyðslu frá degi til dags í þessu þjóðfélagi þrátt fyrir þröngan efnahag á mjög mörgum heimilum. Það er ömurlegt að hugsa til þess að á sama tíma og hér rísa alls konar hallir yfir glingur og glys, sem er misjafnlega gagnlegt, skuli það gerast að þessi þýðingarmikla bygging, þjóðarbókhlaðan, standi svo að segja óhreyfð.