09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5047 í B-deild Alþingistíðinda. (4346)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.

Mál þetta er frá því á s. l. sumri að ákveðið var að efna til skuldbreytingar á lausaskuldum í sjávarútvegi og ákveðið að taka að láni 500 millj. kr. til að greiða fyrir slíkri skuldbreytingu. Skv. frv. þessu er gert ráð fyrir því að Fiskveiðasjóði Íslands sé heimilt að kaupa skuldabréf þessi af viðskiptabönkum og sparisjóðum fyrir allt að 500 millj. kr. og fjallar frv. þetta um það. Nú þegar hefur verið notað af þessu fé 410 millj. kr. og virðist ljóst að þær 500 millj., sem hér eru ætlaðar til að fullnægja þeim fyrirheitum sem voru lögð fram varðandi þetta mál, munu nægja. Það er gert ráð fyrir að það sem eftir stendur af þessu fjármagni verði notað til að skuldbreyta bankaskuldum og er nú verið að vinna að því þannig að mál þetta er komið á lokastig. Þá er einnig gert ráð fyrir því í 2. gr. að skuldabréf þessi verði undanþegin, það kemur fram í 1. gr., stimpilgjaldi.

Ég vænti þess að hv. sjútvn. reyni að flýta afgreiðslu þessa máls sem mest, en mál þetta hefur hlotið afgreiðslu í Ed.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.

Herra forseti. Ég vildi einnig vekja athygli á því að á dagskránni er einnig staðfesting brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum frá því á s. l. sumri. Frv. það fjallar um sömu mál. Ég vildi leyfa mér að leggja til að það frv. yrði einnig tekið fyrir og því vísað samhliða þessu frv. til sjútvn.