09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5048 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

182. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru um ráðstafanir í sjávarútvegi. Í 1. gr. frv. er fjallað um tímabundnar greiðslur Aflatryggingasjóðs sem þegar hafa verið ákveðnar með lögum hér frá Alþingi og er því ákvæðið í reynd orðið óþarft. Í 2. gr. er fjallað um skuldbreytingarlán sem nú hefur verið flutt í frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Og 3. gr. fjallar um niðurfellingu á stimpilgjaldi sem einnig er í því frv. sem hefur verið tekið til meðhöndlunar í Ed. og afgreitt þaðan. Það má því segja að efni þessa frv. hafi verið afgreitt að hluta til með lögum og að hluta til rýmkun fyrir annað frv. um sama efni.

Ég legg til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. en fyrr á þessum fundi var máli Fiskveiðasjóðs Íslands vísað til þeirrar nefndar.