09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5048 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

182. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vel að hér hefur verið mælt fyrir stjfrv. sem lagt var fram í hv. Nd. 27. nóvember s. l. og ég vakti athygli á fyrir allnokkru síðan að hefði horfið út af dagskrá 6. febrúar. Hæstv. sjútvrh. hefur greint frá því hér að efni frv. og þeirra brbl. sem út voru gefin 30. júlí 1984 hafi verið tekið inn í önnur frv., annars vegar frv. varðandi Aflatryggingasjóð, sem orðið er að lögum, varðandi þær greiðsluheimildir sem frv. gerði ráð fyrir og hins vegar frv. til laga um Fiskveiðasjóð sem hér er á dagskrá þessa fundar í dag.

Ég ætla ekki að gera athugasemd við þessa málsmeðferð, en mér finnst eðlilegt að þetta liggi skýrt fyrir og því skynsamlegt að fyrir þessu máli hefur verið hér mælt. Á sínum tíma hugðist ég undir þessum dagskrárlið taka til umræðu ýmis þau vandamál sem við blasa í okkar sjávarútvegi. Ég ætla ekki að gera það nú. Það voru sérstaklega verðlagningarmálin á olíu sem voru mér þar ofarlega í huga, en þau snerta einmitt efni þessa frv. Um þau efni urðu talsverðar umr. hér í Sþ. fyrir stuttu af tilefni tillöguflutnings til þál. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson og fleiri Alþfl.-menn hafa borið fram um frjálsan innflutning á olíu. Þar var til andsvara hæstv. viðskrh. og bar fram ýmsar upplýsingar varðandi verðlag á olíu í nágrannalöndum okkar, upplýsingar sem komu okkur sumum a. m. k., sem á hlýddum, nokkuð á óvart, þar sem ráðh, staðhæfði að verð á gasolíu væri nánast hið sama í grannlöndum eins og Bretlandi, Danmörku og Vestur-Þýskalandi og jafnvel hærra í vissum tilvikum. En menn hafa haft fyrir sér staðhæfingar og reyndar fulla vitneskju um það að íslenskir aðilar, sem sigla með fisk og hafa aðstöðu til að kaupa olíu í erlendum höfnum, fái hana á langtum lægra, allt að þriðjungi lægra verði en er hérlendis.

Eftir að hafa heyrt athugasemdir um þetta og nýjustu tölur, sem ég aflaði mér frá Landsambandi ísl. útvegsmanna, lofaði hæstv. viðskrh. að þingdeildin og alþm. fengju upplýsingar um stöðu þessara mála eins og viðskrn. telur hana vera í reynd. Ég vona að ekki verði langur dráttur á því að það verði upplýst af hálfu réttra stjórnvalda hver sé í rauninni verðmunurinn á olíum. Í ljósi þess er eðlilegt að ræða frekar þennan mjög svo gilda þátt í sambandi við útgerðarkostnað. Ég ætla ekki að öðru leyti að fjölyrða um málefni sjávarútvegsins hér og nú, en vissulega væri full ástæða til að einstakir þættir væru þar ræddir og tilefni er til þess undir ýmsum málum sem snerta málefni sjávarútvegsins hér og koma síðar á dagskrá.