09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5067 í B-deild Alþingistíðinda. (4357)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Bragi Michaelsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hér inn í þingið skuli vera komið mál til að ræða um málefni þeirra einstaklinga sem hafa á undanförnum árum verið að festa kaup á fasteignum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., rakti það áðan í ræðu að hér ætti að flagga í hálfa stöng þegar rætt væri um lánamál til fasteigna. Ég hygg að húsbyggjendur í landinu hafi flaggað nokkuð lengur eða allt frá því að hv. 3. þm. Reykv. var félmrh. því að það var einmitt í hans tíð sem lán til almennra húsbyggjenda fóru hvað mest lækkandi.

Á árunum 1980–1982 hraðversnaði ástand hjá þeim sem fengu lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og voru í byggingarframkvæmdum. Á þeim tíma má ætla að þegar fjármagnskostnaður hafi verið dreginn frá húsnæðisláni ef tekið var framkvæmdalán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, þá hafi sá kostnaður ekki notast nema fyrir um 15% af byggingarkostnaði þriggja herbergja íbúðar. Eins og mál hafa nú þróast og m. a. verðbólga minnkað er nýting á lánsfé orðin betri. Þar sem lán hafa hækkað hygg ég að þetta hafi verið komið fast að 30% á s. l. ári þó að fjármagnskostnaður væri dreginn frá. Það hefur því ýmislegt gerst til bóta fyrir húsbyggjendur á þessum tíma þó að mörgu sé enn ábótavant.

Ég vil víkja hér aðeins að 4. gr. þessa frv. og þá sérstaklega því atriði að hér stendur, með leyfi forseta: „Greiðslumark af fullverðtryggðum lánum, sem tekin voru fyrir 1. mars 1982, er gjaldfallin afborgun og gildandi vextir á verðlagi 1. mars 1982.“

Ég hygg að í nefnd þurfi að skoða það atriði betur þegar um er að ræða F-lán sem ekki hafa notið fullnaðarverðtryggingar og eru tryggð t. d. með hluta af byggingarvísitölu. Ef þau hvíla á eldri húseignum og um er að ræða að tekin hafi verið 2–3 G-lán frá þeim tíma á eignina getur greiðslumark af þessum lánum samanlagt orðið nokkuð mikið. Það þarf því að láta ákvæði laganna einnig ná til lána sem tekin eru þó að ekki séu að fullu verðtryggð og eru tekin hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég held að þetta ákvæði þyrfti að skoða vegna þess að aðili, sem kynni kannske að vera kominn með þrjú lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á sömu eignina, þyrfti að fá heimild til að fresta afborgun þó að ekki væri um fullnaðarverðtryggt lán að ræða hjá stofnuninni.

Við vitum að hér á fasteignamarkaðinum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafa húseignir gengið kaupum og sölum. Ég hef dæmi um það að allt að fimm lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins hvíli á sömu eign. Þá getur hluti af þessum lánum verið tryggður að hluta til með byggingarvísitölu en ekki að fullu verðtryggður og þá er ástæða til að ákvæði laganna nái einnig til þeirra lána þannig að sá aðili, sem á rétt á að fá frest eða greiðslujöfnuð skv. frv. þegar það verður orðið að lögum, geti fengið af hvaða láni sem hann óskar eftir og hvílir hjá veðdeildinni einnig á eign hans.

Ég tek undir það að skoða þarf það alvarlega líka hvaða áhrif þetta hefur á fjármagn til Húsnæðisstofnunar ríkisins og að leita þurfi allra leiða til þess að ekki dragi úr fjármagni stofnunarinnar. Ég hygg líka að í öðrum frumvörpum og lögum um húsnæðismál sem hv. Alþingi kemur til með að fjalla um á næstunni, þurfi að skoða það alvarlega hvort ekki eigi að setja heimildir inn í lög um það að greiða megi húsnæðislán út með öðrum hætti en gert er, þó að um sé að ræða í annað eða þriðja skipti, því að enn sem komið er hafa þó aðilar rétt á því að fá lán oftar en einu sinni hjá stofnuninni þó að að því sé stefnt að fækka þeim sem fá margsinnis lán. Oft getur verið um að ræða mikla erfiðleika hjá þessum fjölskyldum, breytta hagi, t. d. að hjúskaparslit verða. Þá getur komið til að aðilar þurfi á aðstoð Húsnæðisstofnunar ríkisins að halda þó að þeir hafi áður fengið lán hjá stofnuninni og slík heimildarákvæði þurfi að vera í nýjum lögum um stofnunina þegar þar að kemur. Eins þyrfti að vera heimild, en ekki eins algild regla og nú er, að aðeins þeir aðilar sem fá í fyrsta skipti lán geti fengið lán greitt í tveimur hlutum, t. d. ef um veikindi er að ræða, fötlun eða önnur atriði sem sérstaklega er ástæða til af hálfu Húsnæðisstofnunar ríkisins að taka tillit til.

Ég vil benda á þessi atriði við þetta tækifæri þó að það eigi kannske ekki beinlínis við ákvæði þess frv. sem hér er verið að ræða um.

Ég óska eftir því að sú nefnd, sem fjallar um þetta, skoði sérstaklega atriði 4. gr. frv.