09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5080 í B-deild Alþingistíðinda. (4360)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson vildi halda þessu til haga með ljósu blettina. Það eru sennilega G-blettirnir, G-lánin sem hann á þar við (Gripið fram í.) Annars var nú að lifna yfir þessu hjá hæstv. félmrh. Hann var að tala í sig þó nokkurn hita. Þetta var farið að minna á ræðuhöld hv. þm. Halldórs Blöndals þegar hann talaði hér um hið ofurmannlega átak ríkisstj. í húsnæðismálum og hældist mikið um í þessum ræðustól og taldi það aldeilis með ólíkindum hversu vel þessi ríkisstj. hefði tekið á þessum málaflokki og þetta átak mundi lengi í minnum haft. En ég hygg að marktækustu dómararnir um það hverjir hafa staðið sig öðrum betur í húsnæðismálum séu fólkið í landinu, það séu húsbyggjendurnir, og ég held að þeir hafi svarað hæstv. félmrh. undanfarnar vikur, t. d. með viðbrögðum sínum við stofnun samtaka áhugafólks um úrbætur í húsnæðismálum. Ég held að það sé sá dómari sem við eigum að taka mark á í þessum efnum, hæstv. félmrh., og ekki vera að þylja upp einhverjar dauðar tölur, óverðbættar að auki.

Ég hef svo sem aldrei haldið því fram að sá flokkur sem ég er í, Alþb., sé einhver engilhreinn flokkur í þessum efnum og hafi gert allt sem hann hefði átt að gera. Gjarnan hefði ég viljað sjá hann taka myndarlegar til hendinni, ekki neita ég því, en hann gerði þó ýmislegt gott. T. d. efldi hann Byggingarsjóð verkamanna og verkamannabústaðakerfið. Það var athyglisvert að hæstv. félmrh. kaus að lesa engar tölur í þeim efnum. Hann fjallaði einungis um aðra hlið málanna áðan.

Annars verð ég að segja eins og er, herra forseti, að ég vorkenndi hæstv. félmrh. í upphafi þessa fundar. Hann var svo óskaplega einmana. Hann var eini hæstv. ráðh. hérna í þinginu. Og ég vil að það komi fram og verði skráð í þingtíðindi að hér var fram haldið fundi og hann stóð nokkra stund og það var enginn þm.hæstv. ráðh. Sjálfstfl. í salnum, enda var hæstv. félmrh. hálfumboðslaus og hann greip til þess hvað eftir annað að tala um sína persónulegu skoðun og sinn persónulega áhuga í þessu og hinu málinu þegar hann þorði ekki að taka svo stórt upp í sig að um stefnu hæstv. ríkisstj. væri að ræða. Þá var vissara að tala um persónulegar skoðanir og persónulegan áhuga. Það er nefnilega þannig, við höfum reynsluna fyrir því, að hér þurfa að vera ákveðnir lykilmenn úr Sjálfstfl. í salnum til þess að umræðan um húsnæðismál sé marktæk. Það er hvað eftir annað búið að gera hæstv. félmrh. afturreka með hluti sem hann vill gera eða segist ætla að gera í húsnæðismálum af ákveðnum hv. þm. Sjálfstfl., t. a. m. hv. þm. Halldóri Blöndal sem ég hef oft kallað varahúsnæðismálaráðherra ríkisstj. Og ég tel það mjög slæmt, herra forseti, að við skulum þurfa að halda þessari umr. áfram án þess að t. d. þessi hv. þm., sem einnig er formaður félmn. þessarar virðulegu deildar . . . (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) Nú, ég biðst forláts, forseti, en hann hefur a. m. k. verið talsmaður síns flokks hér í húsnæðismálum, svo mikið er víst. Einnig hefði verið ánægjulegt að hafa hér hv. 1. þm. Suðurl. því að hann hefur stundum látið sig vaxtamál nokkru varða. Það hefði verið ákaflega fróðlegt að vita hvort hann er alveg sammála hæstv. félmrh. um stefnu ríkisstj. í vaxtamálum. En nóg um það.

Hér kom upp þm., sem nú mun vera hv. 1. þm. Reykn., og vitnaði í hlutfallstölur um það hversu lánin hefðu nú farið langt niður í tíð síðustu ríkisstj., eins og það væri það sem mestu máli skipti í þessum efnum. og nefndi síðan til sögunnar að nýbyggingalán frá Húsnæðisstofnun ríkisins væru nú allt að 30% af kostnaðarverði staðalíbúðar. Þar er reyndar ekki miklu logið til. herra forseti, ef eingöngu er talað um þá sem eru að byggja í fyrsta sinn og fá þar af leiðandi lánið greitt út í tveimur áföngum. Þá getur lánsupphæðin verið upp undir 30%. Hún var í janúar 29.1%. En þetta er líka eini lánatlokkurinn sem talsmenn hæstv. ríkisstj. nefna nú um stundir, þ. e. F-lánin til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn með þeim greiðslumáta sem þar er við hafður. Þeir kjósa að þegja samviskusamlega yfir því hve mikið er nú veitt í G-lán til þeirra sem eru að kaupa húsnæði. Það var nefnilega þannig að um miðjan janúar fékk tveggja til fjögurra manna fjölskylda, sem var að kaupa íbúð, lánaðar 290 þús. kr. ef um fyrstu kaup var að ræða, en kostnaðarverð staðalíbúðar af staðli 2 var þá 2 millj. 623 þús. Þetta gera rétt 11%, þ. e. þegar láninu er úthlutað. Þannig má reikna með að raunverulegt raungildi lánsins þegar við því er tekið sé komið niður fyrir 10% vegna þess að það er gífurlegur dráttur á þessum lánum eins og allir vita. (JBH: Sama hluttali var í ársbyrjun 1983.) Og þetta eru ekki lánsupphæðir til að hrósa sér mikið af. Ef slík fjölskylda er að skipta um íbúð og hún hefur átt eins herbergis kompu fyrir og nú eru kannske komin tvö börn í fjölskylduna svo að þarna er fjögurra manna fjölskylda að stækka við sig og ætlar að kaupa sér íbúð, hvað haldið þið að hún fái lánað þá? Hún fær 115 þús. kr. Það er ekkert annað sem hæstv. félmrh. lánar henni út úr Húsnæðisstofnun en 115 þús. kr. og íbúðin kostar kannske 2.5 til 3 millj. Þessum tölum er ekki mikið hampað þegar talsmenn ríkisstj. ræða þessi húsnæðismál hér, hvort sem það er 1. þm. Reykn. eða einhverjir aðrir.

Ég var að bera frammistöðu ríkisstj. saman við þau kosningaloforð, þær yfirlýsingar sem núverandi stjórnarflokkar höfðu uppi fyrir kosningarnar og ég hygg að það megi ekkert síður bera þetta tvennt saman en bera frammistöðu ríkisstj. saman við fyrri ríkisstj. Ég held að rétt sé þá að fara aðeins yfir það hverju þessir ágætu flokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar.

Þannig var það að Sjálfstfl. gaf út plagg sem hét „Eign fyrir alla. Átak í húsnæðismálum.“ Þar segir í 1. gr. að þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð fái 80% lán með betri kjörum en aðrir. Hæstv. félmrh. las upp tölur yfir þær ógnarlegu fjárhæðir sem nú rynnu til byggingarsjóðanna. Hvað mundi það kosta, hæstv. félmrh., að standa við þetta loforð og eiga menn að gefa svona loforð ef þeir hafa hvorki minnsta möguleika né minnstu tilburði uppi til að standa við þau?

En víkjum aðeins að Framsfl. Ég hef grun um að hæstv. félmrh. sé einmitt í Framsfl. Hann ber þá kannske einhverja ábyrgð á kosningastefnuskrá Framsfl. fyrir alþingiskosningarnar í apríl árið 1983. Lítum nánar á það. Þetta plagg hét „Festa, sókn, framtíð“, ef ég man rétt. Þar segir ósköp stutt og laggott. herra forseti: „Húsnæðislán nemi 80% af byggingarkostnaði og verði til 42ja ára.“ Engar undanþágur. Það er ekkert verið að röfla um þá sem eru að byggja í fyrsta sinn, kaupa notað eða eitthvað svoleiðis. Húsnæðislán nemi 80% og verði til 42ja ára. Þetta var kosningaloforð Framsfl. við síðustu alþingiskosningar.

Ég held að hæstv. félmrh. ætti að fara sér hægt í samanburðarfræðunum nema þá að hann taki allan samanburðinn og m. a. hvernig honum gengur að standa við sín eigin loforð.

Það kom þó upp úr hæstv. félmrh. hér, og ber að fagna því. að hann teldi ótækt að standa að því að samþykkja þetta frv. og gera það að lögum nema fyrir því yrði séð að nýtt fjármagn kæmi til að standa undir þeim útgjaldaauka sem af setningu laganna mundi leiða. Þá er oss enn félaga vant, herra forseti, þar sem er hæstv. fjmrh. Nú hefði verið gaman að hér væri í salnum hæstv. fjmrh. til að við fengjum það staðfest hjá honum að hann væri sammála hæstv. félmrh. og hann væri tilbúinn með budduna. að taka hana upp og reiða það fram sem hér þarf til að koma. Það hefur nefnilega líka komið fyrir að frómar óskir hæstv. félmrh. hafa ekki náð fram að ganga vegna þess að það hefur enginn viljað borga. Hæstv. fjmrh. hefur verið fastheldinn á aurana. En við hljótum að taka þessa frómu viljayfirlýsingu hæstv. félmrh. gilda og fagna henni.

Það var aðeins minnst á skyldusparnað og hæstv. félmrh. mótmælti því harðlega að þessu væri beint gegn skólanemum og öðrum slíkum, sem eiga að binda inni sitt sparifé undanþágulaust, og er það breyting frá því sem áður var. Nú er það alveg rétt hjá hæstv. félmrh. að skyldusparnaðurinn kostar peninga. þ. e. það fer meira fjármagn út úr þessu kerfi núna hjá Húsnæðisstofnun en kemur inn og það er visst vandamál í sjálfu sér. Þar af leiðandi er áhugi Húsnæðisstofnunar, þ. e. stjórnar þeirrar stofnunar, ósköp skiljanlegur að knýja fram breytingar. Frá sjónarmiði húsnæðismálastjórnar séð er það ástæðulaust og reyndar ætti það að vera frá allra sjónarhóli séð ástæðulaust að viðhalda sparnaðarkerfi sem kostar peninga. Ekki barasta er það neikvætt fyrir stofnunina að hún missi út meira fé en kemur inn, heldur kostar rekstur kerfisins milljóna tugi króna. Hér er um heilmikið kerfi að ræða hvar bundnir eru 1–2 milljarðar kr. eða jafnvel meira. Það er auðvitað ósköp afkáralegt að viðhalda slíku kerfi þegar það skilar engum peningum inn í veltu Húsnæðisstofnunar, en kostar heilmikið í rekstri.

Auðvitað þarf að gera breytingar og knýja fram lagfæringu á þessu. Þá eru tvær leiðir færar eða þrjár. Ein er sú að kaupa sig út úr þessu kerfi, búa við það um nokkurt árabil að það sé neikvætt og fjármagna þá rekstur Húsnæðisstofnunar hvað þetta varðar með einhverju öðru móti. Sú leið sem félmrh. hefur stungið upp á að fara í ríkisstj. er að afnema allar undanþágur, m. a. til skólanema, og binda þannig inni ár frá ári á næstu árum meira fé en ella mundi gerast. Þetta er ein leið til að rétta við sjóðstöðuna, en mjög slæm leið að mínu mati eins og ástatt er.

Ég nefni sem dæmi fyrsta árs nema í lánshæfu námi hjá Lánasjóði ísl. námsmanna sem var beitt á bankakerfið, eins og allir vita, hæstv. menntmrh. rak út á gaddinn og beitti á bankakerfið í haust með misjöfnum árangri. Þetta fólk mundi missa sitt sparifé. Það mundi bindast inni í Húsnæðisstofnun. Ég er alls ekki viss um að það sé heppileg ráðstöfun og reyndar alveg viss um að það er það ekki.

Ég held að þess vegna eigi að leita annarra leiða til að lagfæra þetta kerfi. Það sem eðlilegast væri að gera, að mínu mati, er að gera þennan skyldusparnað ungs fólks að hagstæðasta sparnaðarkosti sem völ væri á í þjóðfélaginu, ég tel það líka réttlætismál að hann sé það, en viðhalda undanþágum að verulegu leyti engu að síður. Hér er hvort sem er ekki um að ræða nema eins og pínulítið krækiber í öllum þeim mikla fjárhagsvanda sem húsnæðiskerfið er í. (JBH: Það er milljarður þarna inni.) Hv. þm., það er ekki milljarður sem kerfið kostar á hverju ári. Það eru einn til tveir milljarðar bundnir í kerfinu, en rekstrarkostnaðurinn er miklu minni og það tapast ekki svo mikið fé út úr því á hverju ári. Þannig sér mjög lítið á þó að tekna yrði aflað með öðru móti til að standa undir neikvæðum rekstri skyldusparnaðarkerfisins um eitthvert árabil á meðan menn eru að vinna sig út úr því. Það er alveg hreint hverfandi í öllum þeim vanda sem fyrir er í húsnæðiskerfinu.

En sem sagt, herra forseti, meginkjarni þessa máls er sá að ríkisstj. fer eins og ketti sem gefinn er heitur grautur í skál. Hún hoppar í kringum diskinn og tekur hvergi á rótum vandans, þeim vanda að það þarf að afla tekna inn í húsnæðiskerfið. Það vita allir að þessi stjórn hefur hvorki kjark, vit né vilja til þess að leggja skatt á alikálfa sína. Þvert á móti léttir hún sköttum af mörgum þeim sem best hafa það í þjóðfélaginu og hefur enga tilburði uppi til að ná peningum, hvorki af þeim né öðrum, inn í þetta kerfi. En vandi húsnæðismálanna á Íslandi verður aldrei leystur nema menn komi sér saman um að afla tekna sem renni sem framlög til byggingarsjóðanna til að bæta fjárhag þeirra þannig að þeir geti orðið í framtíðinni fjárhagslega sjálfstæðir og færir um að standa undir því hlutverki sem þeim er ætlað. Það er mergurinn málsins, herra forseti. Hvorki þetta frv. né annað það kák sem hæstv. ríkisstj. hefur uppi haft í húsnæðismálunum grípur á þeim vanda að nokkru leyti.