09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5087 í B-deild Alþingistíðinda. (4362)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það liggur nú við að það séu eldglæringar í stólnum eftir síðustu ræðu. En ég ætla aðeins að hafa nokkur orð um þetta mál hér í 1. umr. áður en það fer til fjh.- og viðskn. hv. deildar, en þar á ég áheyrnaraðild.

Það er vel að loksins skuli örla á einhverri viðleitni til að leysa vanda húsbyggjenda og íbúðakaupenda því að lengi hafa menn beðið og mikið hefur verið knúið á. Því veldur það gífurlegum vonbrigðum hversu skammt þessar aðgerðir ná, sem boðið er nú upp á, og hve langt er frá því að þarna sé sýnd tilraun til þess að taka myndarlega á málunum. Þau lán sem eru verst viðureignar fyrir flesta eru ekki húsnæðismálastjórnarlánin, heldur miklu fremur bankalán og lán frá öðrum lánastofnunum. Það er gersamlega óviðunandi ef ekki verður tekið á vanda húsbyggjenda með samræmdum aðgerðum.

Sá hópur sem einna verst er staddur hefur tekið frumkvæði til að kynna vanda sinn fyrir alþm. allra flokka og samtaka sem sitja hér á þingi og þá auðvitað líka ráðherrum. Sá vandi er til orðinn fyrst og fremst vegna aðgerða stjórnvalda og bankastofnana og má með sanni segja að fullyrðingar og loforð þeirra hafi leitt fólk út í þennan vanda, svo ekki sé minnst á þann mismun sem er milli þeirra sem byggðu fyrir tíu árum og þeirra sem byggja nú. Þetta þarf að leiðrétta. En það eru ekki bara þeir sem vilja byggja eða kaupa sem eru í vanda staddir. Þeir sem geta hvorugt eða vilja hvorugt, en leigja húsnæði, þeir eru jafnilla staddir ef ekki ver staddir.

Það er gjörsamlega óviðunandi að horfa upp á þetta dæmalausa aðgerðarleysi þeirrar ríkisstj. sem nú situr í þessum efnum. Það er óhugsandi og óverjandi að taka ekki á rótum þessa vanda. Það að hafa þak yfir höfuðið heyrir til mannréttinda og það þarf að tryggja með félagslegum aðgerðum en ekki að etja fólki út á óvæginn lánamarkað sem hefur hagnað einan að markmiði. Hér á þingi hafa komið fram margar tillögur til úrbóta sem vel má nýta til lausnar húsnæðisvandanum, m. a. till. frá þm. Kvennalista um að breyta viðmiðunargrunni verðtryggðra langtímalána. Þessi ríkisstj. verður að leysa þennan vanda því að hún er annars einfaldlega fallin.