09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5087 í B-deild Alþingistíðinda. (4364)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson) (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni þegar hlé var á gert að ég hafði hugsað mér að vitna í Tómas Helgason prófessor og með leyfi forseta vildi ég mega lesa upp blaðagrein sem hann skrifaði í Morgunblaðið 20. febrúar 1985. Ég mundi þá hefja lesturinn, með leyfi forseta, á fyrirsögninni „Útreikningar forsrh.“:

„Í Morgunblaðinu 8. febr. s. l. skýrði forsrh. frá því að hann hefði beðið Þjóðhagsstofnun að athuga hvaða tekjur mætti ætla að ríkissjóður geti haft af sölu á sterku öll, ef Alþingi heimilar slíkt. Þjóðhagsstofnun gaf sér þær forsendur að hver íbúi 15 ára og eldri mundi drekka 40 lítra eða nálægt 120 flöskum af sterku öll á ári og gæfi það ríkissjóði 915 millj. kr. í tekjur. Þjóðhagsstofnun gerði ráð fyrir að einhver samdráttur yrði í sölu áfengra drykkja og jafnframt að sala á sterku öll kæmi að einhverju leyti í stað ólöglegrar sölu. Þannig taldi stofnunin ekki ógætilegt að ætla að tekjuauki ríkissjóðs af sölu á sterku öll yrði 600–800 millj. kr. á ári. Þetta þýðir að 25–35 lítrar af öll kæmu fram sem skráð neysluaukning eða aukning á heildarneyslu vínanda, 1.2–1.6 lítrar á mann á ári. Mundi þá skráð heildarneysla áfengis hér á landi verða meiri en í Noregi. Hin óskráða neysla mundi væntanlega haldast lítið breytt eftir sem áður því að ekki hefur komið neitt fram í umræðum eða frumvörpum sem bendir til að draga eigi úr innflutningi bruggefna eða innflutningi ferða- og farmanna á tollfrjálsu áfengi.

Tvískinnungur. Menn tala fjálglega um áfengisvandamál, nauðsyn á meðferð, fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu og stefnumótun. Jafnframt virðist næstum því kerfisbundið unnið að því að brjóta niður þá áfengisstefnu sem hér hefur ríkt um langt skeið og miðar að því að draga úr áfengisneyslu svo sem kostur er. Hefur Ísland verið forgönguland á því sviði og er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nú að leggja til við aðildarlönd sín að upp verði tekin ýmis af þeim stefnumiðum sem verið hafa í íslenskri áfengislöggjöf í marga áratugi, svo sem að banna auglýsingar á áfengi og gera áfengi eins óaðgengilegt og kostur er með háu verði og fáum útsölustöðum.

Hámarki hefur tvískinnungshátturinn náð á síðustu árum þegar Alþingi samþykkir að skipa skuli stóra nefnd til þess að móta áfengisstefnu, en um leið lætur ríkisvaldið óátalin skýlaus brot á áfengislögum eins og tollfrjálsan innflutning ferðamanna á áfengu öli. Í takt við þennan tvískinnungshátt eru síðan hundsaðar fyrstu tillögur nefndarinnar sem sett var eftir samþykkt þáltill. Meðal þeirra tillagna sem sú nefnd lagði fyrir ríkisstj. á fyrri hluta síðasta árs var tillaga um að áfengisútsölum og vínveitingastöðum verði ekki fjölgað næstu tvö árin. Í stað þess að fara eftir þessum tillögum hafa þær gersamlega verið sniðgengnar og vínveitingastöðum verið fjölgað sí og æ og komið upp krám í stíl erlendra bjórkráa. Á þessum krám hefur það boð verið látið út ganga að seldur væri bjór og jafnvel auglýstur sem slíkur í flugáætlun sem Flugleiðir hafa gefið út á ensku. Eftir að athygli ríkissaksóknara hafði verið vakin á þessu fyrirbæri er farið að tala um bjórlíki, því að ríkissaksóknari komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að sterkur bjór yrði aðeins búinn til með bruggun þar sem gerjun væri látin stoppa við tiltekið hámark, en ekki með því að bæta sterku áfengi út í óáfengt öl þar sem gerjun hefði verið látin stöðvast við lægra mark. Er þetta vægast sagt furðuleg túlkun á anda áfengislaga og sýnir enn tvískinnungshátt okkar gagnvart áfengismálastefnunni.

En þó tekur steininn úr þegar nota á þessi lögbrot, sem að framan eru nefnd, ásamt innflutningi bruggefna sem rök fyrir því að lögleiða skuli sölu áfengs öls á Íslandi. Eru þessi rök álíka haldlítil og væri ef menn héldu að afnema ætti hámarkshraða vegna þess að fjöldi manna bryti daglega gildandi reglur um hámarkshraða. En slíkt dettur sem betur fer fáum í hug.

Nauðsyn heilsuverndar.

Í nútímaheilsugæslu er megináhersla lögð á heilsuvernd og aðgerðir til að koma í veg fyrir sjúkdóma og ótímabæran dauða. Í þeim anda hafa nú tekið gildi lög um tóbaksvarnir á Íslandi sem þykja um margt til fyrirmyndar og flestir telja til stórra framfara nema tóbaksframleiðendur. Hallast hér ekki á hvað varðar andmælendur slíkra heilsuverndaraðgerða að þar standi oft á bak við þeir sem fjárhagslegra hagsmuna eigi að gæta og má í því sambandi minna á með hverjum hætti hefur verið unnið gegn áfengislöggjöf landsins sem með réttu mætti kalla áfengisvarnarlöggjöf. Verði dregið úr ákvæðum gildandi laga, sem miða að því að hamla gegn mikilli áfengisneyslu, mun það auka á ýmsa vanheilsu í sjálfu sér, en einnig mun það draga úr áhrifum tóbaksvarnalaga vegna þess hve mikil fylgni er á milli áfengis- og tóbaksneyslu.

Bjórmenn hafa m. a. hampað þeirri röksemd að bjórdrykkja sé ekki eins skaðleg og neysla sterkra drykkja. Væru þeir sjálfum sér samkvæmir hefði mátt búast við að jafnframt því sem þeir hvettu til framleiðslu og sölu á sterku öli legðu þeir til auknar hömlur eða jafnvel bann við sölu og framleiðslu á brenndum drykkjum. En því hefur ekki enn verið hreyft í umræðunni um bjórinn. Það er að vísu rétt því meira þynnt sem áfengið er og því hægar sem þess er neytt, þeim mun hægari verða skyndiáhrifin, en heildarskaðsemin ræðst af því áfengismagni sem drukkið er, óháð tegundum og blöndun. Í lok síðasta árs kom út bók á vegum menntmrn. og Háskóla Íslands um lyfjafræði miðtaugakerfisins eftir prófessor Þorkel Jóhannesson. Þar segir m. a. „að skaðsemi alkóhóls á líffæri stendur í beinu hlutfalli við skammta eða magn þess“, og er vafasamt hvort önnur efni í löglegu áfengi skipta nú nokkru máli fyrir verkun alkóhóls eða skaðsemi þess“.

Í þeim löndum þar sem bjórdrykkja er mest verða flestir alkóhólistar af bjórdrykkju. Í Bandaríkjunum er talið að 25–30% alkóhólista hafi orðið alkóhólistar eingöngu af bjórdrykkju. Enn fremur má draga athygli að því að tíðni drykkjusýki er svipuð í Noregi og hér á landi, þrátt fyrir að helmingur áfengisdrykkjunnar þar sé í formi bjórs. En ýmis önnur vandamál, sem eru samfara meiri áfengisneyslu, eins og dauði af skorpulifur, eru algengari í Noregi en hér á landi, enda áfengisneysla meiri í Noregi sem nemur þeirri viðbót sem vænta má hér á landi ef útreikningar Þjóðhagsstofnunar standast. Tíðni drykkjusturlunar (delirium tremens) hefur vaxið hér á landi með vaxandi áfengisneyslu. Enn fremur haldast í hendur fjöldi þeirra sem teknir eru vegna ölvunar við akstur og meðalneyslu áfengis á mann í landinu. Einnig eru tengsl á milli slysatíðni, sérstaklega alvarlegra slysa, og áfengisneyslu. Loks má minna á að dánartíðni áfengissjúkra karla er miklu meiri en annarra og vex því alvarlegri sem sjúkdómur þeirra er, þ. e. því meira áfengi sem þeir drekka. Að öllu þessu samanlögðu má sjá að mikið er í húfi að halda áfengisneyslu í lágmarki.

Lokaorð.

Í fyrrnefndu riti segir prófessor Þorkell Jóhannesson enn fremur: „Áfengur bjór er jafnskaðlegur (eða gagnlegur) og aðrar áfengistegundir. Ef lögleiða á drykkju áfengs bjórs hér verður það einungis gert vitsmunalega með því að hefta flæði annars áfengis þannig að „heildarflæði“ aukist ekki. Þetta er meginatriði sem stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir þeir sem móta vilja skoðanir fólksins í landinu skyldu síst gleyma.“

Ekki verður að óreyndu öðru trúað en meiri hluti alþm. muni nú sem fyrr bera vit og gæfu til að fyrirbyggja aukningu þeirra sjúkdóma og vandamála sem af aukinni heildaráfengisneyslu leiðir. Þess má því vænta að þeir felli frv. til laga sem stuðla að aukinni neyslu, eins og frv. um afnám banns við framleiðslu og sölu áfengs öls mun gera. Sú stundarfróun sem björnum fylgdi, hvort heldur sem væri í skammvinnri vímu eða lítillega auknum tekjum ríkissjóðs, yrði skammgóður vermir sem framtíðin yrði að gjalda margföldu verði. Það yrðu óskemmtileg eftirmæli ársins sem tóbaksvarnalög tóku gildi að þá hefði verið samþykkt að stuðla að aukinni áfengisneyslu og þar með að eyðileggja hinn heilsufarslega ávinning af tóbaksvarnalögunum.“

Tómas Helgason, dr. med., er prófessor í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands og forstöðumaður geðdeildar Landspítalans.

Það skyldi þó ekki vera að hv. 5. þm. Reykv. væri að skrifa út víxla þessa dagana sem hann ætlar íslenskri þjóð að greiða seinna með sinni stefnu í áfengislögum? Það skyldi þó ekki vera að hann væri að velta yfir á framtíðina skuldum vegna aðgerðanna? Eða er það tilfellið að við eigum ekkert að hlusta á það hvað menn eins og prófessor Tómas Helgason hafa að segja um þessi mál? Ég tel að það hljóti að fylgja því ærin ábyrgð að hlusta ekki. En því miður virðist mér svo sem að gálgahúmor og billeg röksemdafærsla sé það sem alþm. vilja almennt nota í þessu máli.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. komst m. a. að þeirri niðurstöðu að það sem Íslendingar ætluðu að fara að gera í áfengismálum — að innleiða bjórinn — væri svo sérstætt að það væri enginn möguleiki að notast við reynslu frá öðrum þjóðum, við yrðum að prófa þetta sjálfir. Það er nú svo. Það hefur verið kannað með eitt og annað hvaða áhrif það hefur á Íslendinga þó að það hafi ekki verið framkvæmd formleg könnun. Til dæmis var það vitað úti í Bandaríkjunum að rafstraumur er ákaflega skaðlegur. Ég hef ekki orðið var við annað en þessi fágæti þjóðflokkur hér norður í höfum brygðist nákvæmlega eins við því að fá í sig rafmagn og þeir í Bandaríkjunum. Ég hef ekki orðið var við annað. Það er með þennan blessaðan tréspíritus, sem hefur gert menn blinda, dularfull staðreynd að hann verkar nákvæmlega eins á Íslendinga og menn hjá öðrum þjóðum. En það er athyglisvert að þegar kemur að bjórnum dugar engin erlend reynsla. Þá er þessi þjóð svo sérstæð að það verður að framkvæma á henni tilraunir í tvö ár. Mér finnst það skaði að hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur ekki séð sér fært að vera við þessa umr., jafnítarlega ræðu og hann flutti um þetta mál og jafnvel undirbúinn sem hann virtist vera þegar hann talaði fyrir málinu.

Ég tel að einn þáttur þessa máls sé þó enn óræddur, bæði í því sem ég las eftir Tómas Helgason prófessor og eins minntist hv. 1. þm. Norðurl. v. ekki á það einu einasta orði, en það er vandamál nágrannaþjóðanna, hvað drykkjuskapur manna á þeim tíma sem þeir stunda sína vinnu er tengdur bjórnum. Íslendingar vinna mörg störf sem eru hættuleg og heimta nákvæmni. Með því að innleiða bjórinn er allt útlit fyrir að við innleiðum það einnig að drykkjuskapur á vinnustöðum, sem er mjög fátíður á Íslandi í dag, verði svipaður og á hinum Norðurlöndunum. Það mun þýða mikla slysatíðni við ýmis störf. Og hinn langi vinnudagur á Íslandi mun e. t. v. gera Íslendinga síður færa um að þola það í ofanálag að hafa neytt áfengis í vinnunni.

Mér finnst að það sé dálitið hlálegt að sá fjölmiðill þjóðarinnar sem allir Íslendingar eiga að eiga jafnan aðgang að, útvarpið og sjónvarpið, birtir aðeins eina mynd þegar minnst er á bjórinn: Það eru kátir menn og glaðir að drekka úr bjórkollunum. Það er ekki verið að sýna menn illa á sig komna á leiðinni heim til sín. Það er ekki verið að segja frá mönnum sem hafa þurft að fara í afvötnun. Það er ekki verið að segja frá slysum sem orðið hafa í umferðinni vegna þess að menn hafa neytt áfengis. Nei. Það er aðeins glansmyndin sem sýnd er. Og ég verð að segja eins og er að ég verð dálitið hissa á fréttastofu útvarpsins þegar verið var að kynna svokallað bjórsamlag sem væri nýtt fyrirtæki eða ný starfsemi hér á landi. Stundum hvarflar það nefnilega að mönnum, þegar menn sjá svona auglýsingar, hvort það sem hefur verið nánast óþekkt í íslensku þjóðlífi til þessa, að opinberir starfsmenn þægju mútur, eigi sér e. t. v. stað.

Eitt er það sem hlýtur að verða umhugsunarefni þegar kemur að atkvgr. hér í þinginu um þetta mál, hvort það sé eðlilegt, ef alþm. eiga beinna hagsmuna að gæta fjárhagslega vegna umboðslauna sem þeir þiggja vegna áfengisneyslu hér í landinu, að þeir greiði atkv. í svona máli. Það hlýtur að vera spurning hvort ekki væri eðlilegra að þeir sætu hjá.

Ég veit að ég er farinn að tala af meiri festu um þetta mál en menn hafa yfirleitt átt von á, en það getur verið að mönnum sé ekki ljóst að alls staðar þar sem sala fer fram á áfengi og tóbaki hafa söluaðilar þessara vörutegunda reynt með ýmsu móti að hafa áhrif á æðstu starfsmenn í viðkomandi ríkjum og borið á þá fé til að breyta löggjöf eða koma í veg fyrir að löggjöf væri samþykki. Þetta vita heilbrigðisyfirvöld Bandaríkjanna og hafa af þeirri ástæðu alveg miskunnarlaust úthrópað það lið sem þeir kalla þar áfengisauðmagnið.

Ég tel að það sé athyglisvert að í umr. um bjórinn, sem hér fer fram, eru flm. víðs fjarri. Þeir eru víðs fjarri. Yfirleitt er það nú þannig að mönnum er mikil alvara að koma málum áfram í þinginu og þá dvelja þeir undir umr., taka niður vitlaus rök andstæðinganna og búa sig undir það að standa upp og leiðrétta það sem missagt hefur verið. Einhverra hluta vegna telja þeir nú aftur á móti að það vinnist best með því að vera fjarverandi. Það skyldi þó ekki vera að einhver af þessum flm. hefði búið sig undir það að þiggja umboðslaun fyrir áfengt öl ef það verður selt hér á landi? Það skyldi þó ekki vera að búið væri að ganga frá samningum um slíka hluti? Það er ákaflega bagalegt að þeir séu ekki hér í salnum því að það gæti farið svo að það sæist á mönnum hvort aðdróttanir væru réttar eða rangar. Þar sætu ekki sterkari karakterar en svo.

Ég hef ekki hugsað mér, herra forseti, að eyða löngum tíma í ræðuhöld um þessi mál. Ég vil aftur á móti geta þess að mér hafa borist bréf frá félagasamtökum, ýmsum aðilum sem fengist hafa við uppeldismál, þar sem þessir aðilar leggjast eindregið gegn því að slakað verði á í áfengisvarnalöggjöf Íslendinga. Ég vil þakka þessi bréf. Þau hafa verið mér viss stuðningur til að standa fastur fyrir í þessum efnum. Og ég er sannfærður um það að stór hópur þeirra sem staðið hafa að þeirri samþykkt eru aðilar sem neyta áfengis, en gera sér jafnframt grein fyrir því að aukin neysla verður íslenskri þjóð ekki til farsældar.

Ég vil svo geta þess, í framhaldi af varnaðarorðum þeim sem prófessor Tómas Helgason lét falla, að ef áætlanir Þjóðhagsstofnunar um aukninguna eru réttar þýðir þetta að við förum upp fyrir Noreg í áfengisneyslu. Hvenær hefur það gerst að Íslendingar yrðu minni neyslumenn en aðrir? Er það varðandi bíla, er það varðandi sjónvörp eða á hvaða sviði er það? Ég tel að allar líkur bendi til þess að þær áætlanir sem hér eru settar fram af Þjóðhagsstofnun séu of lágar. Það var og álit sumra aðila sem komu á fund nefndarinnar og voru talsmenn þess að sala yrði leyfð á öli. Þeir töldu þessar áætlanir ekki nægilega háar. Ef svo færi að Þjóðhagsstofnun hefði nú vanreiknað dæmið hækka nú víxlarnir, sem formaður Alþfl. er að velta yfir á framtíðina, í heilsukostnaði Íslendinga.

En það má vel vera að það séu önnur fjárhagsleg atriði sem vegi meira í þessu dæmi. Það má vel vera að það sé búið að ganga þannig frá málum að ýmsir aðilar hafi meiri persónulegan ávinning af því að þetta verði leyft en það tjón sem þjóðin verður fyrir og það má vel vera að þeir hagsmunir séu taldir ríkari. En ég skora á þá menn, sem unnið hafa á sviði íþróttamála í þessu landi, að gera sér grein fyrir því að þetta verður íslenskri æsku til bölvunar.