09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5097 í B-deild Alþingistíðinda. (4366)

86. mál, áfengislög

Forseti (Ingvar Gíslason):

Orð hv. 5. þm. Vestf. hafa verið gerð hér að sérstöku umræðuefni. Forseti vill segja það fyrir sitt leyti að hann synjar ekki fyrir það að hv. 5. þm. Vestf. hafi vikið þannig að flm. þessa frv. að þeir telji að sér sveigt. Hins vegar getur forseti ekki skýrt orð hv. 5. þm. Vestf. eða hvað hann á við. Það verður hv. 5. þm. Vestf. að gera sjálfur. Hann mun að sjálfsögðu fá tækifæri til að skýra orð sín nánar í umr. og hið sama gildir auðvitað um þá sem telja að sér sveigt, að þeir hafa tækifæri til þess að svara fyrir sig. En málfrelsi þm. er ákaflega víðtækt, eins og 49. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir þar sem segir að „meðan Alþingi stendur yfir má ekki taka neinn alþm. fastan fyrir skuldir án samþykkis þeirrar deildar er hann situr í né heldur setja hann í varðhald eða höfða mál á móti honum nema hann sé staðinn að glæp. Enginn alþm. verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema þd., sem í hlut á, leyfi.“ (Gripið fram í: En nauðungaruppboð?) Það er ekki minnst á nauðungaruppboð þarna, en það má kannske túlka það nánar í sambandi við þessa grein.