09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5100 í B-deild Alþingistíðinda. (4368)

86. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Einn af nm. þeirrar n. sem fjallaði um frv. sem hér er til umr., en flm. þess eru hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, Ellert B. Schram, Guðmundur Einarsson, Guðrún Helgadóttir og Friðrik Sophusson, lét þau orð falla að n. sem um þetta hefði fjallað hefði aðeins verið sammála um eitt, að þetta frv. væri þannig úr garði gert að það væri ekki hægt að notast við það. Þetta er kannske eitt af mörgu sem er merkilegt um það mál sem hér er til umr. Ég vil ekki kveða svo fast að orði að segja að það hafi verið svo vitlaust að ekki hafi verið hægt að notast við það, en þm. sem var í þessari n. sagði að það væri ekki nothæft. Það var eina sem menn voru sammála um.

Hv. þm. Pálmi Jónsson, sem talaði fyrir meiri hl. n., sem lagði til að samþykkja skyldi frv. eftir að búið var að semja nýtt frv., sagði að það ástand sem væri í áfengismálum væri engum til sóma. Heldur hv. þm. að afstaða meiri hl. n. verði honum til sóma? Ég efast um það.

Það vill svo til að ég hef haft afskipti með öðrum af unglingum, ungu fólki sem hefur orðið áfenginu að bráð og sem hefur lent út í það að fara í þau svokölluðu eiturlyf. Ég hef átt þess kost að ræða við sumt af þessu fólki og það er sama sagan alls staðar: Við byrjuðum á áfengi.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að það væri yfirdrepsskapur sem kæmi fram í máli þeirra sem mér skildist að ekki væru á sama máli og meiri hl. nefndarinnar. Er það virkilega að meira að segja þm. séu svo blindir að þeir geri sér ekki ljóst hvernig er stefna í þessum málum? Er það tilfellið? Þeir ættu að skyggnast á bak við tjaldið í þá eymd og það volæði sem margir hafa því miður lent í vegna áfengis, vegna eiturlyfja.

Það er fleira sem er nokkuð athyglisvert í sambandi við afstöðu meiri hl. n. Ég var þar ekki, en það kom fram hjá einum nm. að allir þeir læknar, sem nefndin talaði við, hefðu verið á einu máli um það að þetta væri óheillaspor ef það spor yrði stigið að leyfa hér áfengan bjór. Ég held að það fari ekkert á milli mála. A. m. k. vil ég spyrja þá nm. sem hér eru hvort þeir viti dæmi þess hjá nokkurri þjóð, sem hefur leyft áfengt öl, að það hafi ekki orðíð til þess að aukist hafi neysla á áfengum drykkjum þegar allt er reiknað saman, þegar bjórinn bætist við það sem fyrir er. Ég hef reynt að kynna mér þessi mál o ég er hér með stóran bunka máli mínu til sönnunar. Ég veit ekki um neina þjóð. Það er mikill ábyrgðarhluti að samþykkja slíkt frv. ef menn standa í þeirri trú, ef þeir eru ekki blindir í þessum málum, að verða til þess að áfengisneysla aukist í okkar landi.

Læknadeild háskólans í Hamborg lét t. d. rannsaka áfengismagn í blóði 103 manna sem lentu í vinnuslysum við höfnina á árunum 1976–1983. Hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að 82.5% voru með í blóði sínu meira en 11/2% áfengis, aðeins 5.8% af þessu fólki voru með minna en 0.5% áfengis í sínu blóði. Þjóðverjar eru sem kunnugt er einhverjir mestu bjórdrykkjumenn í Evrópu. Hvað segir þetta okkur? Halda menn virkilega að ef bjórinn flæðir hér yfir verði ekki neysla á honum á vinnustöðum eins og er í öðrum löndum í Evrópu?

Það hefur komið í ljós að eftir því sem menn neyta meira áfengis er meiri hætta á ýmsum sjúkdómum, t. d. skorpulifur. Menn geta kannske sloppið ef áfengið sem þeir innbyrða er ekki mjög mikið en hættan eykst í réttu hlutfalli við neysluna. Það hefur lengi verið vitað að drykkja veldur skorpulifur og ýmsum öðrum sjúkdómum, t. d. öndunarsjúkdómum o. fl.

Það var nokkuð merkileg ræða sem formaður nefndarinnar flutti hér, hv. þm. Gunnar Schram. Hann sagði margt sem ég ætla ekki að fara mjög mikið út í, en í sjálfu sér var öll hans ræða á þann veg að það var eins og hann væri að undirbúa skýringu á því hvers vegna hann væri á móti ölinu eða bjórnum. Miðað við hans mál hélt ég að þrátt fyrir að lagaprófessorinn skrifaði undir hjá meiri hl. með fyrirvara hlyti það að koma að honum hefði snúist hugur. Þannig var hans ræða.

Það kom fram í hans ræðu að hann hefði komið með þá till. í nefndinni að þar sem hefði verið skipuð af ríkisstj. nefnd til að marka áfengisstefnu í landinu, eins og síðasti ræðumaður ræddi um líka, væri eðlilegt að vísa þessu frv. til ríkisstj. og bíða eftir niðurstöðu þessarar nefndar. Það liggur hér fyrir í skjölum þm. bráðabirgðaálit sem er frá 1983 frá þessari nefnd og menn eru illa læsir ef þeir fá út úr þeirri skýrslu að þessi nefnd, en formaður hennar er ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn., læknirinn Páll Sigurðsson, telji að lausnin á þessum vanda liggi í því að auka áfengisneyslu eða gera mönnum auðveldara fyrir að ná í áfengi. Enda væri það skrýtið ef það hefði komið einmitt frá þessum mönnum sem þekkja nokkuð mikið inn á þessi mál því að það er alveg þveröfugt við það sem allir segja sem fylgjast með þróun þessara mála í okkar nágrannalöndum. En það er engu líkara en meiri hl. nefndarinnar hafi verið undir einhvers konar áhrifum — ég veit ekki hvort það hefur verið af því að þeir hafi fengið áfengan bjór, en af einhvers konar áhrifum, því að eftir því sem mér er tjáð voru allir þeir, sem var kallað til og höfðu mesta þekkingu á þessum málum, andvígir þessu frv.

Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði í sinni framsöguræðu um hve illt ástand væri í áfengismálum hér. Eftir því sem sagan segir okkur hafa menn þvegið hendur sínar annað slagið síðustu 2000 árin. Hann sagði að það væri svo slæmt ástandið að það gæti ekki versnað þó að bjórinn bættist við. Það er a. m. k. andstætt þeirri reynslu sem annars staðar er.

Ég varð afskaplega hissa á því þegar formaður nefndarinnar flutti sína ræðu um daginn sem var í sjálfu sér mjög góð. Þar sem þetta er nú lögfræðiprófessor var allur hans málflutningur, eins og ég sagði áðan, á þann veg að ekki var hægt að ætla annað en að niðurstaðan hlyti að verða sú að hann mundi greiða atkvæði á móti þessu frv. Vegna þess að hann er ekki hér staddur ætla ég ekki að fara meira út í hans ræðu hér. En ef hann verður við síðar í þessari umr. mun ég gera hana að umtalsefni.

Ég hef hér fyrir framan mig nokkur minnisatriði í sambandi við þessi mál sem ég veit að allshn. hv. deildar fékk til lestrar. Hafi þeir ekki lesið það yfir, sem ætla mætti a. m. k. af niðurstöðu meiri hl. nefndarinnar, ætla ég að lesa þessa minnispunkta hér upp. Þar segir:

„1. Undanfarin misseri hefur mjög gætt áróðurs þeirra sem ábata hafa af áfengissölu fyrir auknu frjálsræði í dreifingu áfengis og aukinni neyslu.

2. Á sama tíma og talið er rétt og skylt að lögbjóða notkun bílbelta af öryggisástæðum og takmarka tóbaksreykingar af heilsufarslegum ástæðum láta æ fleiri sefjast af andróðri hagsmunaafla gegn takmörkun þar sem vímuefnið áfengi á í hlut.“ — Það verður kannske næsta skref hér á Alþingi, ef þetta verður samþykkt, að bera fram svipuð rök, að það þýði ekkert að vera að berjast á móti þessum vímuefnum vegna þess að þau berist það mikið til landsins og það verði alveg það næsta. Það er alveg í samræmi við annan málflutning þessara manna. Og ég er alveg hissa á því að þeir skuli ekki koma líka með hér á Alþingi frv. um það að það sé frjálst að aka á vegum úti eins og hver og einn vill vegna þess að það sé svo mikið brotið, menn keyra langt fram yfir það sem leyft er. Það er jafnrökrétt og hin vitleysan.

„3. Þó látast a. m. k. þrefalt fleiri af völdum áfengisneyslu en af umferðarslysum.

4. Aðeins fjórðungur þeirra sem látast vegna drykkju eru úr hópi þeirra sem teljast ofdrykkjumenn. Samt er sífellt reynt að kenna þeim um allt tjón sem áfengi veldur.

5. Áfengisvarnaráði, sem reynir að gæta skyldu sinnar sem hlutlaus ríkisstofnun, hefur ekki tekist að finna neitt land í heiminum þar sem neysla áfengs öls hefur orðið að draga úr drykkju og tjóni af hennar völdum.

6. Þó að kaupgeta færi þverrandi á árinu 1984 og áfengisútsölur væru þá um tíma lokaðar vegna verkfalls opinberra starfsmanna dró ekki úr drykkju. Þvert á móti óx heildarneysla vínanda á hvert mannsbarn. Líkleg orsök er fjölgun vínveitingahúsa.

7. Marktækar kannanir á viðhorfum til áfengismála eru vandasamar og ekki á færi annarra en hlutlausra kunnáttumanna að beita vísindalegum aðferðum af ítrustu nákvæmni. Barnalegt er að gera ráð fyrir því að í könnun komi fram óvefengjanleg sannindi um raunverulega afstöðu þjóðarinnar í áfengismálum.

8. Um 70% barna í 7. bekk grunnskóla í Reykjavík neyta ekki áfengis. Hlutfallið kann að vera svipað í grunnskólum annars staðar. Hætt er við að hlutfallið yrði óhagstæðara ef áfengt öl yrði lögleitt.

9. Í þeim nágrannalöndum vorum þar sem bjórdrykkja er mikil, svo sem í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Írlandi, er neysla annarra vímuefna en áfengis mjög mikið og vaxandi vandamál.

10. Það er lögmál vímuefnamisnotkunar að vímuefnaneytandinn byrjar yfirleitt á veikum vímuefnum en fer yfir í sterkara og hann byrjar á smáskömmtum og fer yfir í stærri skammta. Áfengur bjór inniheldur vímuefnið vínanda og áhrif þess er jafnskaðleg fyrir flesta vefi líkamans, hvort heldur það kemur inn í hann blandað miklu eða litlu vatni.

11. Prófessor Sigurður Líndal álítur að innflutningur áfengs öls sé ólöglegur. Lögfræðingarnir Finnur Torfi Stefánsson og Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri komust að sömu niðurstöðu er þeir rannsökuðu lögmæti innflutnings áfengs öls að tilhlutan fyrrv. dómsmrh.

12. Fjölgun vínveitingahúsa er ekki náttúrulögmál. Ráðh. veitir leyfin og hefur heimild til að afturkalla þau eða takmarka, bæði hvað snertir veitingatíma og hvaða tegundir má veita. Borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórnir og sýslunefndir geta synjað ráðh. um heimildir til að gefa út vínveitingaleyfi.

13. Gera má ráð fyrir miðað við erlendar rannsóknir að kostnaður hins opinbera vegna áfengisneyslu sé a. m. k. þrefaldar tekjurnar og er ekki nema hluti kostnaðar vegna meðferðar og endurhæfingar drykkjusjúkra.

14. Þótt menn greini á um vægi margra orsakaþátta áfengissýki dylst samt engum sem það vill sjá að þar er hlutur áfengisins ótvíræðastur og stærstur. Skiptir litlu máli litur þess, ilman eða bragð ef magnið er nægilegt.“

„Fleiri Danir drekka sig í hel eftir því sem neyslan eykst. Drykkja er orðin þjóðarfár í Danmörku. Helmingur sjúklinga á sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn og Norður-Sjálandi er þangað kominn vegna drykkju. Dauðsföllum af völdum skorpulifur fjölgar með óhugnanlegum hraða. Svo segir í viðtali við Politiken 13. sept. s. l.

„Augljóst er að fórnarlömbin verða mörg þúsund á ári hverju á næstunni. Ekki er óalgengt að fólk innan þrítugs sé lagt inn á spítala vegna skorpulifrar þó að menn fái þann kvilla yfirleitt ekki nema þeir hafi drukkið ósleitilega allt upp í 15 ár. Áfengisneysla Dana hefur á 20 árum aukist úr sex lítrum af hreinum vínanda á mann í tólf lítra og nú er drykkjan talin eðlilegt fyrirbæri víðar og við fleiri tækifæri en áður var. Áfengi er eitur sem hefur áhrif á hverja frumu líkamans, ekki aðeins lifrina, og því margfaldast tjónið, sem það veldur, fljótt ef drykkjan er veruleg. Við höfum,“ segir læknirinn að lokum, „varað fólk við árum saman en ekki verið tekin alvarlega. En hér er um hættu að ræða og nú höfum við sannanir, þ. e. lík á borðinu.“

Þannig væri hægt að halda áfram lestrinum en ég sé nú að farið er að fækka í salnum og ég sé það að nefndarmenn sem stóðu að meiri hl. eru horfnir. Ég er ekkert hissa á því að þeir þoli ekki að sitja undir þessum lestri en ég hef hér meira að lesa. En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort umr. verði lokið í kvöld. Ég mundi hafa hug á því að lesa hér upp meira ef fleiri væru hér í salnum. (Forseti: Þessari umr. verður frestað kl. 11.) Ég mun þá lesa hér upp staðreyndir um áfengt öl. En ég hafði ætlað mér, herra forseti, að lesa hér mjög merkilega ræðu sem var flutt í Alþingi Íslendinga árið 1932 af Vilmundi Jónssyni landlækni. Talið er að þessi ræða hafi orðið til þess á því þingi að ekki varð neitt úr því að leyft væri að brugga áfengan bjór á landinu. Það væri a. m. k. gott fyrir hv. 1. flm. þessa frv., núv. formann Alþfl., að heyra þá ræðu en hann hefur forðað sér hér út.

„Sala milliöls var leyfð í Svíþjóð 1965. Þeir sem fengu því til leiðar komið héldu því fram að ölneysla drægi úr neyslu sterkra drykkja. Reynslan varð þrefóldun. Unglinga- og barnadrykkja jókst gífurlega og sænska þingið bannaði framleiðslu og sölu milliöls frá 1. júlí 1977.

2. Á fyrsta árinu eftir milliölsbannið minnkaði áfengisneysla Svía um 10% miðað við hreinan vínanda. Neysla öls, allra tegunda, minnkaði um 24% miðað við áfengismagn.

3. Á milliölsáratugnum í Svíþjóð jókst áfengisneysla um 39.5%. Á sama árabili jókst neysla á Íslandi um 26.1%.

4. Félagsmálaráðherra Svía segir m. a. um það mál: „Ég er eindregið þeirrar skoðunar að á nýliðnu tíu ára tímabili milliöls í Svíþjóð hafi grunnur verið lagður að drykkjusýki sem brátt muni valda miklum vanda.“

5. Gunnar Ågren í Stokkhólmi, doktor í félagslækningum, segir nýlega í blaðaviðtali að hörmulegar afleiðingar barna- og unglingadrykkjunnar á milliölsáratugnum séu nú að koma í ljós. Afleiðingar öldrykkjunnar, segir dr. Gunnar, eru einkum heilaskemmdir. Þær gerast nú miklu tíðari meðal fólks á þrítugsaldri en verið hefur, einkum þó meðal þeirra sem komnir eru undir þrítugt. Einkennin eru minnisleysi og ýmsar taugatruflanir. Liframein, skorpulifur, flogaveiki koma nú oftar fyrir í þessum aldursflokkum en fyrr. Svíar sjá þó fram á betri tíð að áliti dr. Gunnars seinna en áður var og munu þessar hörmungar væntanlega ganga yfir á álíka mörgum árum og milliölsdrykkjan stóð. Dr. Gunnar telur að til að draga svo úr tjóni að um muni af völdum drykkju þurfi að koma til auknar hömlur á dreifingu þessa vímuefnis og jafnvel skráning áfengiskaupa á nafn.

6. Í Finnlandi var sala áfengs öls gefin frjáls 1968. Þá var áfengisneysla Finna minni en annarra norrænna þjóða að Íslendingum undanskildum. Eftir að sala áfengs öls hófst hefur keyrt um þverbak í drykkju þar í landi. Nú drekka Danir einir Norðurlandaþjóða meira áfengi en Finnar. Margir telja drykkjuvenjum Finna svipa að ýmsu leyti til drykkjusiða Íslendinga.

7. Á tímabilinu frá 1969–1974 jókst áfengisneysla Finna um 52.4%. Á sama tíma jókst neysla hérlendis um 35% og þótti mörgum nóg.

8. Þegar sala áfengs öls hafði verið leyfð í rúm tvö ár í Finnlandi hafði ofbeldisglæpum og árásum fjölgað um 51% og hinum alvarlegustu þeirra glæpa, morðum, um 61.1%.

9. Danir eru mestir bjórdrykkjumenn meðal norrænna þjóða. Þar eykst og neysla sterkra drykkja jafnt og þétt. Þeir drekka allt að þrisvar sinnum meira en Íslendingar. Þar er öldrykkjan ekki einungis vandamál á fjölmörgum vinnustöðum heldur einnig í skólum. Ofneysla bjórs er algeng meðal barna þar í landi og ofdrykkja skólabarna stórfellt vandamál. Meðalaldur við upphaf áfengisneyslu mun u. þ. b. fjórum árum lægri en hérlendis. Í helmingi sjúkrahúsa í Kaupmannahöfn og á Norður-Sjálandi er fólk sem þangað er komið vegna drykkju.“ — Ég hélt reyndar að menn vissu að það væru nógu margir á sjúkrahúsum hér vegna drykkju þó ætti ekki að bæta þar enn við.

„10. Skv. nýrri könnun 1983, sem Samband amtráða í Danmörku hefur gengist fyrir, kemur í ljós að meðalaldur neytenda kannabisefna hefur farið hækkandi undanfarin ár eða úr 18–19 árum 1970 í 25–26 ár nú. Við hefur tekið meðal unglinga misnotkun á áfengu öli og pillum og virðist slík ofneysla nú nánast faraldur og að ýmsu leyti jafnvel erfiðari viðfangs en kannabisneysla.

11. Við rannsókn, sem gerð var 1983 og danskur geðlæknir stóð fyrir, kom í ljós að danskir unglingar drekka nú meira en nokkru sinni fyrr. Ekki er óvanalegt að 14–15 ára börn drekki heila brennivínsflösku á dag, oft ásamt sterkum taugalyfjum. Niðurstaðan veldur sérfræðingum þungum áhyggjum. Þeir gera af þessum sökum ráð fyrir að 10% úr hverjum aldursflokki muni verða fyrir alvarlegum heilaskemmdum.

12. 1966–1982 jókst áfengisneysla Íslendinga um 34.7% en Dana“ — hvað haldið þið að það sé? „98%, Finna“ — ölsala frjáls 1969 — „um hvorki meira né minna en 146.2%.“— Ætli hv. nm. hafi nokkuð haft fyrir því að lesa þessa skýrslu? (Gripið fram í.)

„13. Vestur-Þjóðverjar ásamt Tékkum neyta meira bjórs en aðrar þjóðir í Evrópu. Þar jókst heildarneysla áfengis á árunum 1950–1967 um 196%. Á sama tíma jókst neysla hérlendis um 70% og þótti nú flestum nóg.

14. Þýska blaðið,„ — ég get nú varla lesið þetta — „sem vart verður vænt um bindindisáróður, helgar nýlega drykkjusýki unglinga forsíðu og verulegan hluta eins tölublaðs. Háskólarnir í Hamborg og Frankfurt rannsökuðu fyrir nokkrum árum áfengisneyslu ökumanna og ölvun við akstur í Þýskalandi. Rannsóknin leiddi í ljós að aðalskaðvaldurinn er bjórinn en um helming allra óhappa á vegunum mátti rekja til hans. Ef við bætast þau tilfelli þar sem bjór var drukkinn með víni og sterkari drykkjum hækkaði hlutfallið í 75%.

16. Í Belgíu eru yfir 70% alls áfengis sem neytt er sterkt öl. Þar eru u. þ. b. 95% allra drykkjusjúklinga öldrykkjumenn, menn sem drekka ekki aðra áfenga drykki en öl.“ — Hvað segir þetta okkur?

„17. Formaður samtaka æskulýðsheimilaforstjóra í Stokkhólmi segir: Öldrykkja er mesta og alvarlegasta vandamál æskulýðsheimilanna. Auðveldara hefur verið að fást við vandamál af völdum ólöglegra fíkniefna.

18. Vitað er að unglingar og börn hefja áfengisneyslu oft og tíðum með öldrykkju. Hún veldur m. a. því hversu margir unglingar og jafnvel börn þjást af drykkjusýki í ölneyslulöndum.

19. Aðgát sú, sem sjálfsögð þykir gagnvart sterkara áfengi, nær síður til ölsins. Það hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér aukna hættu á áfengisneyslu unglinga og jafnvel barna. Sú hefur orðið raunin á í löndum sem leyfa bruggun og sölu á áfengu öli. Þar um má t. d. vitna til reynslu Þuríðar Jónsdóttur félagsráðgjafa úr starfi hennar í Halifax í Kanada. Í Halifax leitaði yngra fólk hjálpar en hér vegna vímugjafaneyslu árum saman. Þar var um tvær tegundir að ræða, áfengt öl og hass.

20. Félmrh. Breta gerði í ræðu á árinu 1977 harða hríð að drykkjusiðum þar í landi að bjórkrám. Kvað hann krárnar oft sveipaðar rómantískum ljóma fyrir sjónum þeirra sem lítt þekktu til. Hann benti á að á s. l. 20 árum hefði ölneysla aukist um 50%. Neysla sterkra drykkja hefði hins vegar þrefaldast á sama tíma og neysla léttra vína fjórfaldast. Á sama tíma og neysla sterkra drykkja eykst um 54% á Íslandi eykst hún um 300%, eða tæplega sex sinnum meira en hér, í Englandi og búa þeir þó síður en svo við skort á bjórkrám eða áfengu öli.“ — Hvað segir þetta okkur? (Forseti: Klukkan er nú ellefu og það var ætlun forseta að nú lyki fundinum. Ef hv. þm. hefur ekki lokið ræðu sinni —) Ég hef ekki lokið ræðu minni. (Forseti: Þá tekur hann upp þráðinn á næsta fundi eða næst þegar þetta mál verður tekið fyrir.) Það er sjálfsagt. [Frh.]