10.05.1985
Neðri deild: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5119 í B-deild Alþingistíðinda. (4375)

403. mál, meðferð opinberra mála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála.

Þann 8. febr. s. l. skipaði dómsmrh. nefnd til að gera tillögur um hraðari og skilvirkari meðferð skatta- og efnahagsbrota í dómskerfinu. Í nefndinni áttu sæti: Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, formaður, Þórður Björnsson ríkissaksóknari, Gunnlaugur Briem yfirsakadómari, Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri og Garðar Valdimarsson skattrannsóknastjóri. Ritari nefndarinnar var Þorsteinn A. Jónsson deildarstjóri. Var nefndinni gert að hraða störfum og skila áliti eigi síðar en 1. mars s. l.

Í fréttatilkynningu sem gefin var út 8. febrúar segir m. a.

„Að undanförnu hefur að tilhlutan dómsmrh. farið fram athugun á ferli skattsvika og efnahagsbrota í dómskerfinu allt frá því að kæra kemur fram um meint brot og þar til endanlegur dómur fellur. Ljóst er að mál af þessu tagi hafa í ýmsum tilvikum dregist meira en góðu hófi gegnir og liggja til þess ýmsar orsakir. Mál þessi eru mörg mjög flókin og umfangsmikil og reynir mjög á sérþekkingu, m. a. á skatta- og bókhaldslögum, við rannsókn, meðferð þeirra og úrlausn.

Fjöldi kæru- og sakamála af öllu tagi hefur farið vaxandi undanfarin ár og mikið vinnuálag er á þeim embættum sem um málin fjalla. Að mati dómsmrh. ber brýna nauðsyn til að meðferð skatta- og efnahagsbrota í dómskerfinu verði hraðað svo sem kostur er.“

Starf nefndarinnar mótaðist af þeim skamma tíma sem hún hafði til stefnu og takmarkaði hún því tillögur sínar um hraðari meðferð mála við breytingar sem unnt er að láta þegar koma til framkvæmda. Nefndin ákvað að þeir nm. sem vinna beint við meðferð skatta- og efnahagsbrota settu á blað tillögur sínar og bárust nefndinni umsagnir þessara aðila sem hún tók síðan til ítarlegrar athugunar.

Helstu atriðin sem fram komu í umræðum nefndarinnar voru:

1. Nýlega lét Guðmundur Skaftason af starfi sem ráðunautur Rannsóknarlögreglu ríkisins í skatta- og efnahagsbrotum. Nauðsynlegt er að Rannsóknarlögregla ríkisins hafi aðgang að sérfróðum manni á þessu sviði og hugsanlega geti hann einnig starfað í þágu ríkissaksóknara.

2. Fá mál vegna skattabrota ganga til dómstóla. Þeim hefur þó fjölgað að undanförnu. Flest eru afgreidd af ríkisskattanefnd. Í dag eru óafgreidd 10–12 skattamál á ýmsum stigum í dómskerfinu. Á árinu 1984 voru fimm mál send dómskerfinu vegna brota á skattalögum. Skattrannsóknastjóri telur ekki ólíklegt að á næstunni verði sú tala svipuð. Einnig hefur stórum efnahagsbrotum fjölgað og bendir ekkert til að á því verði breyting.

3. Eðlilegt er að hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins verði sérstök deild sem fjalli um skatta- og efnahagsbrot.

4. Nm. telja ekki æskilegt að stofna sérdeildir við embætti ríkissaksóknara og sakadóm Reykjavíkur. Að láta skatta- og efnahagsbrot fá forgang sé stjórnunaratriði viðkomandi yfirmanna. Ef fjölgað verði um einn lögfræðing hjá embætti ríkissaksóknara og einn dómara við sakadóm Reykjavíkur vegna þessara mála verði hægt að fela sérstökum starfsmanni ríkissaksóknara að sinna þessum málum sem forgangsverkefni og fylgja þeim eftir hjá dómstólum með munnlegum flutningi þeirra. Þá væri einnig hægt að koma því þannig fyrir að skatta- og efnahagsbrot verði falin sérstökum dómurum þannig að þeir öðlist meiri æfingu og reynslu í meðferð slíkra mála en verið hefur.

5. Nm. telja að það verði til að flýta málum ef einungis verði til kvaddur einn meðdómari í stað tveggja eins og nú er lögskylt ef þeir eru til kvaddir.

6. Nm. vænta þess að það verði til að flýta og bæta meðferð stórra og umfangsmikilla skatta- og efnahagsbrota ef þau verði dæmd í Reykjavík.

Í framhaldi af þessum niðurstöðum gerði nefndin eftirfarandi tillögur:

1. Að ráðinn verði einn lögfræðingur til embættis ríkissaksóknara og að einn saksóknari þar hafi það sem forgangsverkefni að annast ætluð skatta- og efnahagsbrot og hafa á hendi sókn í stærri málum fyrir sakadómi.

2. Að dómurum við sakadóm Reykjavíkur verði fjölgað um tvo vegna skatta- og efnahagsbrota og að lögð verði áhersla á að dómarar þeir sem falin er meðferð mála út af ætluðum skatta- og efnahagsbrotum hafi eða öðlist æfingu og reynslu í slíkum málum.

3. Að hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins verði stofnuð sérstök deild sem rannsaki skatta- og efnahagsbrot. Að ráðnir verði fjórir rannsóknarlögreglumenn til Rannsóknarlögreglu ríkisins vegna þessara mála. þar af tveir lögreglufulltrúar.

4. Að lagt verði fyrir Alþingi frv. sem nefndin samdi um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem felur í sér: A. Að meðdómandi geti verið einn. B. Að umfangsmikil og vandasöm mál vegna skatta- og efnahagsbrota verði að jafnaði rekin fyrir sakadómi Reykjavíkur.

5. Að nú þegar verði ráðinn sérfróður maður í skatta- og efnahagsbrotum er starfi sem ráðunautur í þágu Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara.

Ríkisstj. hefur fallist á þessar tillögur nefndarinnar að því leyti sem þær eru framkvæmdaratriði og er nú verið að vinna að framgangi þeirra. Í samræmi við þessar till. flutti ég frv. það sem hér er til umr. og hv. Ed. hefur þegar afgreitt.

Ég vænti þess að hv. Nd. muni einnig fallast á að afgreiða málið nú á þessu þingi og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.