13.05.1985
Efri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5126 í B-deild Alþingistíðinda. (4382)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Það vildi nú svo til að ég gerði athugasemd við þetta við 1. umr. málsins og taldi að hér þyrfti að ganga betur frá málum þó að niðurstaðan yrði að menn létu þetta standa þannig. Ég benti á að stúdentspróf annars vegar og tveggja ára nám í fjölbraut hins vegar gæti verið ósambærilegt. Ég féllst hins vegar á það í n. að vissulega væri stúdentspróf eitt út af fyrir sig ekki fullgilt til inntöku í þennan skóla, t. d. af verslunar- eða viðskiptabraut, náttúrufræðibraut eða einhverju slíku þar sem ekkert hefði verið komið inn á þessi svið.

Því gæti tveggja ára nám í framhaldsskóla á fjölbraut, sem væri alveg sérstaklega á uppeldis- og heilbrigðissviðinu, verið jafngilt. Þannig skildi ég þetta að með hliðstæðu námi sé átt við tveggja ára framhaldsnám í fjölbrautaskóla eða menntaskóla á þeirri braut sem snertir þetta svið sérstaklega, uppeldissvið eða heilbrigðissviðið. Þess vegna held ég að þrátt fyrir athugasemdir af þessu tagi sé þetta út af fyrir sig í lagi. Ég hefði gjarnan viljað sjá þarna, eins og ég tók fram við 1. umr., annað orðalag. Við getum gjarnan athugað það milli 2. og 3. umr. hvort við ættum að breyta þarna til. Ég skal verða við því og veit að formaðurinn í n. mun verða við þeim tilmælum að skoða það örlítið nánar og setja þá inn í frv. nákvæmlega það sem segir í athugasemdum. En þá hygg ég að einhverjir muni gera athugasemdir við það ekki hvað síður.