13.05.1985
Efri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5128 í B-deild Alþingistíðinda. (4386)

384. mál, varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. og er samþykkur því enda er þetta frv. beint til komið út frá þáltill. sem hér var samþykkt á Alþingi á sínum tíma og ég var fyrsti flm. að.

Ekki skal ég í neinu tefja þetta mál eða vera meinsmaður neins þess sem þar stendur þó að ákaflega fari fyrir brjóstið á mér það orð sem þessir orðhögu menn hafa fundið fyrir samheiti og kallast „ofanflóð“ sem varð nú reyndar hér í munni ráðh. á dögunum „ofanfljóð“. Hins vegar dáðist ég að því hvað hv. frsm. fór af mikilli snilld með þetta orð og fipaðist hvergi. Það getur því vel verið að þetta geti orðið munntamt mönnum og menn fari yfirleitt að tala um „ofanflóð“ í þessu tilfelli en nefni þetta ekki sínum réttu nöfnum, sem sagt „snjóflóð“ og „skriðuföll“ sem ég hefði talið heppilegra og betra. Þá hefði bara verið ákveðin nefnd og ákveðinn sjóður án þessa fáránlega orðskrípis sem þarna hefur verið fundið upp.

Hins vegar heyrði ég það á meiri hl. nm. að þeim þótti þetta býsna „skondið“ orð og skemmtilegt og vildu gera það fyrir ráðh. að halda þessu nafni. Úr því að svo er ætla ég ekki að fara að gera sérstaka brtt. um það. En orðið þykir mér leitt og leiðinlegt og má mikið vera ef það á ekki eftir að valda einhverjum misskilningi.