31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þau frv. sem nú eins og á síðasta þingi eru til umr. á sama tíma, enda um sama efni, bæði vegna þess að ég gerði ítarlega grein fyrir mínum viðhorfum í ræðu á síðasta löggjafarþingi og enn fremur vegna hins, að hæstv. menntmrh. hefur fyrr í þessari umr. gert grein fyrir sjónarmiðum Sjálfstfl. til þessara mála. Því til viðbótar vil ég nefna að þetta mál fer til hv. félmn. þessarar deildar og þar á ég sæti og hef þess vegna tækifæri til að fjalla um málið þar.

Ég vil byrja á því að þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir að lesa upp umsögn Jafnréttisráðs sem send var mér og félmn. Það er reyndar siður þegar svona mál eru til meðferðar í þinginu að mál komist fyrst til nefndar áður en þau eru send til umsagnar og um umsagnir sé fjallað samtímis, en það er út af fyrir sig ekkert athugavert við það þó að hv. 3. þm. Reykv. hafi tekið sér það bessaleyfi að lesa þessa umsögn upp. Hann hefur að sjálfsögðu meiri ástæðu en flestir aðrir hv. þm. til þess að fara að ráðum Jafnréttisráðs þó ekki væri nema vegna þess eins að hann er einn af örfáum embættismönnum íslensku þjóðarinnar sem hefur hlotið opinberlega ávítur Jafnréttisráðs á sínum tíma vegna stöðuveitingar. Það tekur nokkur ár að klóra þær ávítur af sér og gerist helst, að áliti hv. þm., með því að tala sig frá slíkum vandamálum. Er það án efa skýringin á því hvers vegna hv. þm. flytur svo ógnarlangar ræður um þessi mál þing eftir þing. Væri nær að hann, þegar hann hefur tækifæri til að sýna í verki hvernig hann vilji fylgja hugmyndum sínum eftir, færi þá að ráðum Jafnréttisráðs. Þetta segi ég vegna þess að eins og ég sagði áðan held ég að það nagi nokkuð samvisku hv. þm. að hafa lent í þeim óförum, þegar hann var ráðh. á sínum tíma, að hafa orðið fyrir barðinu á Jafnréttisráði.

Í ræðu minni í fyrra svaraði ég ýmsu því sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli. Ég minntist þar á það m.a. hve sjaldan það er í íslenskum lögum að refsiábyrgðarreglur séu með þeim hætti eins og kemur fram í þmfrv. þar sem um öfuga sönnunarbyrði er að ræða. Ég benti á að slíkt gerist auðvitað ekki í íslenskum lögum nema þegar um meiri háttar refsimál er að ræða. Ég fæ ekki skilið að slíkt eigi við í lögum eins og þessum.

Ég minnti á það enn fremur í þeirri ræðu að þegar hv. 2. landsk. þm. flutti frv. á sínum tíma og hv. 10. þm. Reykv. brtt. við það lagafrv., sem fjallaði um jákvæða mismunun sem stundum er nefnd svo eða tímabundin forréttindi, þá tóku ýmis félagasamtök, sem fengu þessi mál til meðferðar, neikvæða afstöðu til þessa atriðis. Vil ég nefna t.d. Kvenfélagasamband Íslands, en í umsögn þess kom fram að þeir sem svöruðu fyrir sambandsins hönd töldu þetta vera niðurlægjandi fyrir konur. Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samband ísl. sveitarfélaga höfðu sömu viðhorf til þessa atriðis og sendu inn neikvæða umsögn. Hins vegar er það rétt að menn hafa talið að launakannanir og kannanir á kjörum kvenna séu góð aðferð til þess að fá umræður um jafnréttismál og tek ég undir það, en rifja það jafnframt upp að þegar hv. 2. landsk. þm. flutti á sínum tíma till. um könnun á launakjörum karla og kvenna greiddi þáv. félmrh. Svavar Gestsson atkv. gegn þeirri till. — ásamt fleirum að sjálfsögðu — þannig að það er nú ekki allt sem sýnist þegar menn koma hér nú og þykjast hafa höndlað allan sannleikann í þessu máli.

Það er jafnframt athyglisvert hve langt hv. 3. þm. Reykv. seilist þegar hann leitar að rökum fyrir jákvæðri mismunun. Hann bendir á það að þetta sé sams konar fyrirbrigði og eigi sér stað m.a. í kosningalögum og stjórnarskrá þar sem um mismunandi kosningarrétt sé að ræða á milli landshluta. Ég vil spyrja hv. þm. Geir Gunnarsson, flokksbróður formanns Alþb., hv. 3. þm. Reykv., hvort það sé rétt að Alþb. líti á mismunandi kosningarrétt í Reykjaneskjördæmi til að mynda og Vestfjarðakjördæmi sem jákvæða mismunun og tímabundin forréttindi sem Alþb. hafi tekið afstöðu til með sama hætti og hv. 3. þm. Reykv. virðist gera þegar hann horfir á jákvæða mismunun í því lagafrv. sem hann hefur flutt hér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Er það virkilega rétt að hv. þm. Geir Gunnarsson, fulltrúi Alþb. í Reykjaneskjördæmi, þar sem menn hafa miklu minni kosningarrétt en þeir sem búa annars staðar á landinu, sé sömu skoðunar og formaður Alþb. um að þetta séu tímabundin forréttindi, jákvæð mismunun, sem sé sjálfsögð? Getur það verið? Ég spyr. Þetta eru rökin sem okkur er boðið upp á í þessum umr. (Gripið fram í: Forréttindi hinna sem eru úti á landi?) Það er einmitt það sem átt er við, hvort það séu tímabundin forréttindi og hvort hv. 5. þm. Reykn. — (Gripið fram í.) Hv. þm. Svavar Gestsson lýsir þessum málum og lýsir því sem rökum í málinu að þetta sé sams konar afstaða og tekin sé í kosningalögunum. Þá er ég að spyrja að því hvort það sé virkilega byggt á nákvæmlega sömu viðhorfum. Hv. þm. Svavar Gestsson fær orðið hér á eftir, hefur þegar beðið um það. og ég hlakka til þess að heyra hann skýra þetta nánar út, sem hann ugglaust gerir í þeirri ræðu sem hann á eftir að flytja.

Aðalatriði málsins er að meginmarkmiðið er að við náum hér fram lögum sem gera gagn. Ég tel ýmislegt í lagafrv. og reyndar lagafrumvörpum sem hafa komið fram vera til lítils gagns. Ég tel t.d. hættulegt eins og segir í 1. gr. lagafrv., að tilgangurinn sé að koma á jafnrétti á öllum sviðum. Þetta nefndi ég jafnframt í fyrra vegna þess að þetta er öðruvísi í lögum annarra landa, þar á meðal annarra Norðurlandaþjóða. Þar er undanskilið einkalífið. Í norsku lögunum er það t.a.m. greinilega undanskilið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að hv. Alþingi geri of mikið af því að reyra niður siðferðisafstöðu manna. Það er nefnilega sumt í þessu þjóðfélagi þess eðlis að við getum ugglaust náð meiri árangri ef við komum okkur saman um að vinna að því án þess að setja lög til þess að þvinga fólk til að gera það. Og það er ugglaust rétt, sem hv. 2. landsk. þm. sagði í ræðu áðan, að þau lög sem nú gilda hafa ekki náð tilgangi sínum í öllum atriðum. Ég held að ástæðan sé sú að þar er reynt með ýmsum hætti að ná fram með lagaþvingunum atriðum sem í raun og veru eru siðferðisatriði og hver og einn verður að gera upp með sjálfum sér. Þá er betra að nota áróður, kannanir og berjast fyrir málefnum og málstað með öðrum hætti en reyra þau í lög því að ef of mikið er gert af því að setja í lög slík atriði fer enginn að lögum og menn missa álit á lögunum og óhlýðnast þeim. Þetta á ekki eingöngu við um frv. um jafnréttismál, heldur um mörg önnur frv. og fjallar auðvitað um það um hvað lög eiga að snúast á hverjum tíma. Aðalatriðið er að markmið okkar allra er það sama. Ég efast ekkert um það í sjálfu sér að við hv. 3. þm. Reykv. erum sammála um að við viljum meira jafnrétti karla og kvenna en er nú. Okkar ágreiningur felst í því hvort það eigi að þvinga það fram með annars konar mismunun en nú gildir í lögum til þess að ná fram jafnrétti. Ég er trúaður á aðrar aðferðir og vil ekki beita lagaþvingunum til þess að ná þessu markmiði fram. Þar skilur á milli okkar skoðana um leiðir þótt markmiðið kunni að vera það sama.

Ég vonast til, herra forseti, að okkur auðnist að afgreiða þau lagafrv. sem hér hafa verið lögð fram og verða til umr. í félmrn. þannig að sett verði ný jafnréttislög á næsta ári, en á því ári lýkur svokölluðum kvennaáratug og ég held að það fari vel á því að þá verði sett ný lög um þetta efni.