13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5145 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Markmið þessa frv. er þríþætt. Í fyrsta lagi að afnema heimild til að veita bankastjórum tollaívilnanir með beinum greiðslum frá bönkunum vegna bílakaupa. Í öðru lagi að afturkalla þær ívilnanir sem samþykktar hafa verið. Í þriðja lagi að koma nýrri skipan á kjarasamningamál bankastjóra. Það er einkum þessi seinasti þáttur málsins sem hér hefur orðið að umræðuefni.

Þegar við veltum því fyrir okkur hvernig á að ganga frá kjarasamningamálum bankastjóra getur komið þrennt til greina. Í fyrsta lagi að stjórn bankans semji við þá eins og nú er. Í öðru lagi að þeim sé ætlaður verkfallsréttur og þeir gangi í BSRB og heyi sína baráttu þar, fari þá væntanlega í verkfall þegar svo vill horfa og geri síðan samninga á grundvelli niðurstaðna verkfalls. Þriðja leiðin er sú að Kjaradómur fjalli um málið.

Ég bendi á það að þegar um er að ræða stofnanir sem sambærilegar eru við bankana, æðstu stofnanir eða stóra vinnustaði ríkisins, er hvergi það skipulag ríkjandi að stjórn viðkomandi stofnunar eigi að hafa með samningamál að gera. Það er mesti misskilningur, sem hér kom fram hjá hv. þm. Stefáni Benediktssyni, að það sé eitthvert sjálfgefið og sjálfsagt viðfangsefni bankaráða að hafa með kjaramál bankastjóra að gera. Bankaráðin hafa að sjálfsögðu fjöldamörg önnur viðfangsefni sem máli skipta. Þau eru stefnumarkandi aðili í störfum bankanna og hafa eftirlit með störfum þeirra og allri starfsemi. Miðað við það hvernig háttar til á öðrum stöðum í ríkiskerfinu er fullkomlega óeðlilegt að bankaráðin hafi nokkuð með kjarasamningamál að gera.

Ég spyr: Telja menn virkilega eðlilegt að útvarpsráð semji um launakjör útvarpsstjóra ellegar að stjórn Sementsverksmiðju ríkisins semji um launakjör forstjóra Sementsverksmiðjunnar? Auðvitað er það fjarstæða. Þetta er óeðlilegt fyrirkomulag og ég gæti nefnt býsna mörg dæmi úr ríkiskerfinu sem sýna hversu fráleitt það væri. Frsm. fyrir frv. benti einmitt á að ekki væri það sérlega viðkunnanlegt ef skólanefndirnar ættu að semja við skólastjórana um kaup þeirra og kjör. Það má nefna mörg dæmi af þessu tagi.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé hópur manna sem flokkist undir stjórnendur æðstu stofnana ríkisins, hæstaréttardómarar, ráðuneytisstjórar, forstjórar stærstu ríkisstofnana. Þessir menn eru í þess háttar störfum að það er fullkomlega eðlilegt, hvort sem maður telur sig til verkalýðsflokks, atvinnurekendaflokks eða til kvennalista, að hafa þá skoðun að þessir menn eigi ekki að hafa verkfallsrétt. Þeir eru ekki í störfum af því tagi að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það skipulag sem verið hefur á þessum málum, að Kjaradómur dæmi um kjör þessara manna, dæmi t. d. um kjör hæstaréttardómara, sé eðlilegt og sjálfsagt. Enda hefur þetta verið svona um mjög langt skeið og hefur ekki nokkrum manni dottið í hug að hæstaréttardómarar eða alþm. eigi að fara í verkfall. Þetta er alveg sambærilegt.

Það væri auðvitað hægt að vera með svo almenna skoðun í þessu að segja: Það eiga allir að hafa verkfallsrétt. Bankastjórar eiga að hafa hann, þeir eiga bara að vera í BSRB, alþm. eiga að vera það og þeir eiga bara að vera í BSRB. Auðvitað er hægt að hafa svona skoðun. En þetta er ekki að mínum dómi eðlileg skoðun og ég er viss um að hv. þm. Sigríður Dúna, sem hér talaði áðan, er alls ekki þessarar skoðunar. (StB: Mega alþm. ekki fara í verkfall?) Þeir geta ekki farið í verkfall skv. núgildandi lögum. Ég er sannfærður um að Stefán Benediktsson meinar það ekki í fullri alvöru að þeir eigi að fá verkfallsrétt. (SDK: En það er ekki sama samningsréttur og verkfallsréttur.) Nei, það er ekki sama samningsréttur og verkfallsréttur. það er rétt. En ég minni á það, að alþm. hafa heldur ekki samningsrétt að þessu leyti. Ráðherrar hafa ekki samningsrétt að þessu leyti um kjör sín. Þeir sem eru undir Kjaradómi beint með sín kjör, eins og samþykki var í frv. sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir vitnaði til hérna rétt áðan, hafa ekki samningsrétt í þessari venjulegu merkingu orðsins. Ég held að við getum verið sammála um það að bankastjórar, sem hefur verið talið að eigi að hafa einhver hæstu laun sem greidd eru hér og eru látnir miða launakjör sín við núverandi aðstæður við kjör ráðh. hvort sem nokkrum finnst það nú eðlilegt eða ekki — sjálfum finnst mér það ekki eðlilegt — (Gripið fram í: Hæstaréttardómara.) Já, kannske fara menn hér með réttara mál sem leiðrétta mig. Ég hafði alltaf heyrt það svo að viðmiðunin væri kjör ráðh. En það má vera að þeir, sem grípa hér fram í fyrir mér og leiðrétta mig, hafi farið með réttara mál, að þar sé í reynd fremur miðað við kjör hæstaréttardómara. En ég hafði heyrt hitt að það væri miðað við kjör ráðh. En hvort heldur sem er er greinilegt að þeir eru hvað kjör snertir, og hafa verið um mjög langt skeið, nákvæmlega eins á vegi staddir og t. d. hæstaréttardómarar, ráðuneytisstjórar og aðrir þeir sem hefur verið talið skv. öðrum lögum eðlilegt að fengju sérmeðhöndlun í kerfinu.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir var að gera því skóna áðan að við þm. Alþb. værum stöðugt að kúvenda í þessu máli. Ég kannast ekkert við það, ég veit ekki betur en við flm. þessarar till. höfum fylgt einni og sömu stefnunni í þessu máli. Við vorum þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að bæta inn í hóp þeirra, sem Kjaradómur hefur ákveðið laun fyrir, nokkrum mönnum sem eru forstöðumenn allra stærstu ríkisstofnananna. Það voru lögreglustjórinn í Reykjavík, ef ég man rétt, forstjóri ríkisspítalanna, forstjóri Vegagerðar ríkisins og nokkrir aðrir slíkir menn sem eru í þess háttar störfum að talið var eðlilegt að þeir hefðu ekki verkfallsrétt og samningsrétt heldur ákvæði Kjaradómur laun þeirra með hliðstæðum hætti og hann ákveður laun alþm. án þess að þeir séu þar samningsaðilar. Því er það fullkomlega í rökréttu framhaldi af stefnu okkar í því máli hér á dögunum að við flytjum nú frv. um það að kjör bankastjóra falli undir sömu reglu og þarna var ákveðin.

Hv. þm. var að reyna að gera sér mat úr því að í Nd. munu stjórnarandstæðingar hafa tekið eitthvað öðruvísi afstöðu til þessa máls en hér í Ed. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það. Ég hygg að hvorki í Alþfl. né Alþb. hafi það verið neitt sérstaklega rætt en ég held að það sjónarmið, sem fram kom þar, hafi verið það að það ættu einfaldlega allir, hver og einn einasti aðili, að vera í kjarasamningahópnum, þ. e. annaðhvort í BSRB eða BHM og ætti að ákveða laun þeirra þar. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En það mundi þá þýða að við tækjum væntanlega alþm. alla, ráðh. alla, ráðuneytisstjórana alla, hæstaréttardómarana alla og meðhöndluðum þá á nákvæmlega sama hátt.

Meðan sú skipan er, sem verið hefur lengi, að við tökum þessa sérstöku hópa og látum Kjaradóm dæma sérstaklega í þeirra málum verður það að teljast fullkomlega rökrétt og eðlilegt að bankastjórar bætist í þann hóp. Þetta er fyrst og fremst spurning um samræmingu. Ég veit að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir getur verið sammála mér um það að það er áreiðanlega í bestu samræmi hvað við annað úr því að skipulag þessara mála er á þann veg sem það er, að bankastjórar falli inn í þann hóp.

Ef hún vill að bankastjórar gangi í BSRB og fái verkfallsrétt o. s. frv. hlýtur hún að telja að við þm. eigum að fara sömu leiðina. Væntanlega flytur hún þá frv. um það því að öðruvísi er ekki nokkur leið að fá nokkurn botn í hennar afstöðu til málsins.