13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5147 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er líklega rétt af mér að koma hér upp þegar tveir af flm. þessa frv. eru búnir að tala og ræða út frá þeim sjónarhóli sem hér hefur verið fjallað um. Auk þess er hér um að ræða einn af bankaráðsmönnum sem er að afsala sér þessu mikla og eftirsótta valdi sem hefur verið talað um hér, að fá að semja um kaup og kjör bankastjóra. Ég held að rétt sé að menn geri sér grein fyrir því að það mál, sem hér um ræðir, þ. e. bílafríðindin, hefur ekki verið á samningaborðum bankaráðsmanna og bankastjóra á liðnum árum. Þessum málum hefur sem sagt verið stjórnað, eins og menn þekkja og eiga að vita, eftir reglugerð sem sett var á árinu 1970 og þótti þá til stórbóta. Þáv. fjmrh. fékk mikið lof fyrir það að hafa breytt fyrirkomulagi því sem áður var hjá bönkunum og fært þessi fríðindi í þennan farveg. Hæstv. þáv. fjmrh. var Magnús heitinn Jónsson og það vænir hann væntanlega enginn um það að hann hafi verið með það í huga að auka spillingu og auka á siðleysi í landinu með reglugerðarsetningu þessari, ég efa það.

Þessi reglugerðarsetning var gerð í nánu samráði við þáv. hæstv. viðskrh. Gylfa Þ. Gíslason. Þessir tveir aðilar áttu heiðurinn eða skömmina — hvort sem menn vilja kalla það í dag í öllum hávaðanum sem í kringum þetta mál er — af þeirri reglugerð sem eftir hefur verið farið varðandi þessi hlunnindi margumtöluðu öll þessi ár.

Það er svo alveg rétt að þegar menn sjá þessi hlunnindi nú eftir hálfan annan áratug í því ljósi, að beinharðar tölur eru lagðar á borðið, engin viðbót, ekkert nýtt, heldur aðeins að fólki er sýnt það í beinhörðum tölum sem það á að hafa vitað allan tímann því að umr. um þessa breytingu fór ekkert hávaðalaust fram á sínum tíma. Breytingin fólst í því að í stað þess að bankarnir ættu bílana og rækju þá kæmi niðurfelling aðflutningsgjaldanna af bílunum. Hún fór ekkert hávaðalaust fram í þjóðfélaginu. Menn vissu alveg af henni. Menn hafa vitað þetta allan tímann. Hins vegar hrukku menn við þegar þeir sáu í beinhörðum tölum hversu mikil þessi fríðindi voru. Ég gerði það líka sem bankaráðsmaður. Við í bankaráði Búnaðarbankans leituðum leiða til að finna einhvern farveg út úr þessu máli og ég veit að í bankaráði Útvegsbankans var sömuleiðis leitað allra leiða til þess að finna einhverja aðra útgönguleið í þessu efni.

Bankaráð Búnaðarbankans fór út í það að fara í gamla farið fyrir 1970, þ. e. að bankinn ætti bílana. Ætli það verði ekki niðurstaðan þegar upp verður staðið og ég er ekkert viss um að þegar menn fara að skoða málin í rólegheitum þyki mönnum það öllu geðfelldari kostur þegar á allt er litið.

En um Kjaradóm get ég vitanlega verið sammála mínum meðflm. Ég er það kannske einfaldlega vegna þess að á sínum tíma var ég mjög efins um það á hvern hátt ætti að skipa kjaramálum okkar þm. sem lengi höfðu verið í þeim farvegi að þingfararkaupsnefnd hér ákvað laun þm. eins og það var svo smekklega orðað: Þessi stétt gat samið um laun sín sjálf og ein. Þá var látið undan þeim þrýstingi sem þá var varðandi kjaraákvarðanir hér inni á þingi og málinu vísað til Kjaradóms.

Ég játa það hins vegar að reynslan af umfjöllun Kjaradóms um kjör þm. hefur verið þm. býsna hagstæð miðað við umfjöllun þingfararkaupsnefndar. Mér kemur heldur ekki til hugar að segja það hér að þó að við vísum þessu í þennan farveg muni laun bankastjóra lækka. Mér dettur ekki í hug að halda því fram en ég held að eins og umr. hefur verið um þessi mál öll sé það einlægast að sá aðili, sem á að vera hlutlægastur í þessum efnum, fjalli um þetta og kveði upp sinn dóm, m. a. yfir þeim mönnum sem harðast hafa verið dæmdir nú upp á síðkastið, þ. e. bankaráðsmönnum ríkisbankanna, og það komi þá nokkuð í ljós eftir þann kjaradóm hvað menn hafa gengið langt í þessum efnum í bankaráðunum. Ég vil a. m. k. sannarlega fá þann samanburð og styð m. a. þess vegna þetta frv. Ég vil sannarlega fá samanburð þessara hlutlausu aðila Kjaradóms annars vegar um laun og kjör bankastjóra í ýmsum greinum miðað við það sem bankaráðin hafa ákveðið.

Ég er ekki að tala hér til neinnar afsökunar eða afbötunar á því sem framkvæmt var í því bankaráði sem ég sit í. Ég er hins vegar að vekja athygli manna enn einu sinni á því sem ég fagna að var gert af hálfu talsmanna BJ í umr. um þessi mál á sínum tíma vegna þess að þar gátu talsmenn þeirra leikið visst fríspil og tekið þátt í þeim ódæma óhróðri sem þá var dembt yfir bankaráðsmenn varðandi siðleysi, spillingu og annað því um líkt. Ég fagna einmitt þeim málflutningi sem þar kom fram og var kjarni málsins og sannleikur málsins, að það hafði ekkert nýtt gerst, að það var ekki á þann veg að bankaráðin væru að veita bankastjórunum launaauka sem þeir ekki áður hefðu haft.

En talið þið við manninn á götunni eftir umfjöllun bæði alþm. og fjölmiðla um þetta mál. Þá munuð þið finna að yfirgnæfandi meiri hluti trúir því að bankaráðin hafi verið að veita bankastjórunum nú splunkuný fríðindi, rétt þeim 450 þús. til viðbótar við það sem þeir áður höfðu. Umfjöllunin hefur öll verið á þann veg. Hér var einungis verið að umreikna þessi fríðindi sem hafa gilt miklu lengur en frá 1970 en í þessari mynd frá 1970 og allir hafa vitað um allan tímann að giltu um þessa aðila, þeir hafa einungis verið að umreikna það í beinharða peninga.

Ég fagnaði því einnig þegar svo greindur og gegn maður sem Skjöldur vinur minn Eiríksson skrifaði í Þjóðviljann og þakkaði bankaráðsmönnum fyrir að hafa upplýst þjóðina um það hvað þessi hlunnindi hefðu þýtt öll þessi ár. Síðan hafa menn komið hér upp í ræðustól í Alþingi og í fjölmiðlum með heilagsandasvip og sagt að hér hafi menn verið að framkvæma stórkostlega tilfærslu á kjörum bankastjóra og bætt við þá alveg aukalega á þessum tímum kjaraskerðingar þessum krónum.

Hér er mikið ósamræmi í málflutningi sem ekki er hægt annað en að mótmæla. Ég get ekki annað samvisku minnar vegna en mótmælt því harðlega hvernig um þetta mál hefur verið fjallað og reynt að gera það tortryggilegt með öllum hætti. Kannske einmitt þess vegna, vegna þess að menn eru þá lausir við þetta í eitt skipti fyrir öll með því að vísa þessu til hlutlauss aðila sem á að hafa yfirsýn yfir þetta svið allt, gerðist ég flm. að þessu frv. án þess að hafa hina minnstu sektarkennd af því að hafa sýnt fólki fram á hvað þetta var í peningum.

Hitt er svo annað mál að við bankaráðsmenn hefðum kannske átt að huga að því að við hefðum ekki átt að framkvæma þá reglugerð sem okkur var sagt að framkvæma af hálfu rn. 1970 og alla tíð síðan. Það er allt annar hlutur. Það er atriði sem við skulum ekki ræða hér á þessum vettvangi nú en ég er reiðubúinn til umr. um hvenær sem er vegna þess-og þá kem ég inn á það sem hv. þm. Sigríður Dúna kom hér inn á áðan — að þá eigum við ekki að taka hér út eitthvert afmarkað svið, einhverja afmarkaða stétt, heldur eigum við að taka sviðið allt, fríðindasviðið allt, hlunnindasviðið allt, hvar sem það finnst í þjóðfélaginu, þannig að við höfum kjaramyndina í þjóðfélaginu sem réttasta, allt sé í beinum greiðslum þannig að myndin, sem við höfum af kjaramálum þjóðfélagsins í heild, sé sem sönnust og skýrust á hverjum tíma en sé ekki falin meira og minna. Ég er ekki talsmaður þess að þannig sé að farið.