13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5151 í B-deild Alþingistíðinda. (4429)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er áliðið dags og komið fram yfir venjulegan fundartíma og ég skal því stytta mál mitt eftir bestu getu. Ég kem hér fyrst og fremst vegna málflutnings hv. þm. Ragnars Arnalds sem mér þótti allundarlegur. Mér heyrðist hv. þm. — (Gripið fram í: Málflutningurinn, ekki maðurinn.) Já, málflutningurinn, vitaskuld. Hv. þm. sagði ýmislegt, en m. a. sagði hann, ef ég heyrði rétt, að það væri sama hvort menn teldu sig til atvinnurekendaflokks, til verkalýðsflokks eða jafnvel Kvennalista, held ég að hann hafi orðað það, menn hlytu að geta verið sammála um það að það væri eðlileg skipan mála að æðstu embættismenn ríkisins tækju sín laun skv. ákvörðunum Kjaradóms, að um þá gilti önnur skipan en um almenna opinbera starfsmenn.

Mér þótti nú heldur týra við þessi ummæli því að af þeim var helst að ráða að hv. þm. væri í öllum þremur tegundum af flokkum úr því að hann treysti sér til að staðhæfa að það væri sama hvers lags flokki maður tilheyrði, menn hlytu að telja þetta vera eðlilegt. Það eru fyrir mér fréttir ef hv. þm. er kominn í Kvennalistann en — (Gripið fram í: Ég er það ekki.) Nei, þá er það ekki vafaatriði og þá getum við væntanlega líka verið sammála um það að hver flokkur, hvort sem hann er atvinnurekendaflokkur, verkalýðsflokkur eða Kvennalisti, hljóti sjálfur að segja hvað honum finnst eðlilegt eða ekki eðlilegt í einstökum málum. Til þess að ekki fari á milli mála hvar fulltrúi Kvennalistans, sá sem hér stendur, er sammála og ekki sammála því frv. sem hér er til umr. þá vil ég ítreka að ég er sammála flm. um efnisatriði 2. gr. frv. og ég er sammála þeim um að bankaráð séu ekki rétti aðilinn til að taka ákvarðanir um kaup og kjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra. En þar með erum við komin að mörkum þess sem við getum verið sammála um í þessu máli.

Bæði hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Jón Kristjánsson töldu að með þessu væri ég að leggja til að þeir aðilar sem þarna um ræðir svo og þeir aðilar, sem 277. mál síðasta þings fjallaði um, en þeir eru býsna margir, gengju í BSRB og hefðu þannig verkfallsrétt. Ég vil benda á að samningsréttur og verkfallsréttur er ekki sami hluturinn og að fjöldi opinberra starfsmanna hefur ekki verkfallsrétt. Skemmst er að minnast þess, sem öllum hv. þm. ætti að vera í fersku minni, að BHM-menn hafa ekki verkfallsrétt þótt þeir semji við ríkið um kaup sín og kjör.

Ég hef hér lagt til að þeir aðilar, sem þetta frv. tekur til, hafi samningsrétt. Ég hef ekki lagt til að þeir hafi verkfallsrétt. Eins og ég sagði áðan finnst mér eðlilegt að ef samningar ganga ekki sé þeirra málum vísað til Kjaradóms en fyrr ekki og þá ásamt málum annarra opinberra starfsmanna sem svipað er háttað fyrir.

Menn hafa einnig blandað alþm. inn í þetta mál og talið að með málflutningi mínum væri ég að leggja til að alþm. gengju í BSRB eða halda því fram jafnvel að þeir væru opinberir starfsmenn. Að mínu viti hafa alþm. og ráðherrar reyndar líka sérstöðu. Það vill svo til að fyrir fáeinum dögum þurfti ég að fylla út eyðublað um landvistarleyfi í öðru landi. Þar var m. a. spurt um atvinnurekanda, hver sé atvinnurekandi viðkomandi. Ég spurði hér fáeina hv. þm., m. a. af tilviljun 1. flm. þessa frv., hverjir mundu teljast atvinnurekendur okkar hér á Alþingi. Svörin sem ég fékk voru vitaskuld þau að það er Alþingi sjálft. Alþingi hefur í þessum efnum algera sérstöðu. Að mínu viti eru alþm. ekki opinberir starfsmenn á sama máta og þeir aðilar sem um er að ræða í þessu frv. Mér finnst því fullkomlega eðlilegt að laun þeirra séu ákveðin af Kjaradómi því að mér finnst ekki eðlilegt að alþm. ákveði sín laun sjálfir.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Helga Seljan að hvað varðaði hlunnindi og þær ákvarðanir, sem teknar voru ekki fyrir alilöngu síðan um 450 þús. kr. greiðslu í bílastyrk til bankastjóra, væru þar út af fyrir sig engar nýjar greiðslur á ferðinni. Þetta er sjónarmið sem ég tel satt og rétt vera og fellst fullkomlega á og vil gera það hér. Ég þakka það sem fram kom í máli hans um það, sem ég legg mikla áherslu á, að þessi hlunnindi og fríðindi verði öll sömul tekin til skoðunar. Ég vildi sjá þau öll brott numin þannig að launamyndin geti legið fyrir skýr og klár hverju sinni, hvernig launum er í raun og veru háttað hér á landi. Það kemur ekki síst inn á mismuninn á launakjörum karla og kvenna því að eins og við hv. alþm. fengum upplýsingar um á síðasta þingi er fjöldi karla, sem þiggur slík hlunnindi, margfaldur á við fjölda kvenna. Þetta er ein leið til þess að dylja það kynbundna launamisrétti sem viðgengst hér á landi.

Hv. þm. Ragnar Arnalds sór af sér, ef ég skildi hann rétt, allar kúvendingar Alþb. í þessu máli og tek ég fullkomlega undir það með honum að það er ekkert sem bendir til þess að nokkrar kúvendingar hafi átt sér stað hjá hv. þm. Alþb. hér í þessari hv. deild. En ég vil benda honum á það að undir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. í Nd. skrifar f. h. Alþb. hv. þm. Svavar Gestsson. Ég hlýt þá að álykta að Alþb. sé klofið í þessum málum, að formaðurinn sé þá í broddi fylkingar fyrir því broti sem í Nd. er en Alþb.-menn hafi aðra skoðun hér í þessari hv. deild.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri en ítreka það að Kvennalistinn er þeirrar skoðunar að launakjör allra opinberra starfsmanna beri að skoðast í samhengi og að semja beri um þau í innbyrðis samhengi.