13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5164 í B-deild Alþingistíðinda. (4463)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umræður. Ég vil taka það strax fram að ég hef enga löngun til, og væntanlega enginn, að hafa af einum eða neinum í sambandi við það mál sem hér er til umr. Það er helst til mikil einföldun hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vestf., eins og hann leggur málið fyrir. Það var ekki gert ráð fyrir að mismuna neinum launþega í landinu á sínum tíma þegar lögin um póstgírókerfið voru sett. Þau voru sett til þess að vernda verkafólkið í landinu og tryggja því greiðslu orlofsfjár, en allir vita sem til þekkja að það gekk upp og niður á sínum tíma og fólk fékk stundum ekki greitt og hafði ekkert öryggi í þeim málum. Eftir að þessi lög voru sett á sínum tíma, að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar væntanlega, var öllum tryggð greiðsla á orlofsfé. Til þess voru þessi lög sett og þau hafa gert sitt gagn í gegnum tíðina hvað sem um þetta mál að öðru leyti má segja.

En það sem ég vildi aðallega vekja athygli þd. á er það að í fyrsta lagi hefur þetta mál fengið þinglega meðferð hér. Á fund þingnefnda, félmn. Ed. og Nd., hafa komið ýmsir aðilar og ég veit ekki til þess að komið hafi neinar brtt. frá launþegahreyfingunni í sambandi við frv. sjálft hér inn á Alþingi. Ég veit ekki til þess. Og ég vil líka vekja athygli á því vegna ummæla hv. 3. þm. Vestf. að þessi nefnd sem sett var á fót á sínum tíma af aðilum vinnumarkaðarins er enn til, hún er í starfi. Og það er einmitt þessi nefnd sem ekki hefur viljað enn taka ákvörðun um að leggja póstgírókerfið niður, þ. e. leysa það upp þannig að öll launþegafélög í landinu hefðu leyfi til þess að ávaxta sitt fjármagn eins og þeim sýndist. Þetta er stór ákvörðun. Það er ekkert áhugamál mitt sem félmrh. að viðhalda póstgírókerfinu ef menn vilja breyta þessu. Ég tel að það sé mikilvægast að aðilar vinnumarkaðarins hafi forustu um það sjálfir. Þeir hafa ekki enn viljað stíga það skref. Launþegahreyfingin hefur ekki gert beina kröfu til þess þrátt fyrir þau bréf sem hv. þm. las hér áðan.

Mér finnst ástæða til að vitna hér í bréf formanns nefndarinnar sem er hæstaréttarlögmaður og fær á þessu sviði og viðurkenndur af verkalýðshreyfingunni sem varðmaður réttinda verkafólks í landinu. Þetta bréf sendi hann mér sem félmrh. vegna brtt. hv. 3. þm. Vestf. og til þess að stytta umr. ætla ég, með leyfi forseta, að lesa þetta bréf. Það segir allt sem segja þarf og þá geta þm. tekið ákvörðun um það hvernig þeir vilja meðhöndla málið.

„Efnið er brtt. hv. þm. Karvels Pálmasonar o. fl. við frv. til laga um ríkisábyrgð á launum.

Samkvæmt lagafrv. hljóðar b-liður 4. gr. þannig: „Ábyrgð ríkissjóðs tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur í búið samkvæmt 84. gr. laga nr. 3/1878, sbr. 1. gr. laga nr. 23/1979, sbr. þó 9. gr.:

b. kröfu um orlofsfé sem fallið hefur til vegna launa hans síðustu tólf starfsmánuði hjá vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem orlofsfjárkröfu fylgir forgangsréttur í búið.“

Um þennan lið er sérstaklega fjallað í grg. með frv. en þar segir:

„Samkvæmt b-lið 4. gr. nær ríkisábyrgð til orlofsfjárkrafna sem tilkomnar eru vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda. Starfsmánuðir þessir þurfa að falla innan þeirra tímamarka að forgangsréttur fylgi kröfunni samkvæmt lögum nr. 3/1878. Tekið skal fram að með frv. er ráðgert að einungis launþegi sjálfur geti gert kröfur samkvæmt því. Hafi launþegi fengið greidda orlofskröfu á hendur vinnuveitanda hjá Póstgíróstofunni, án þess að vinnuveitandi hafi staðið skil á fénu til hennar með stoð í reglugerðum nr. 150/1972 og nr. 202/1979, á Póstgíróstofan ekki tilkall til greiðslu úr ríkissjóði“, en verður að sjálfsögðu að greiða launþeganum. „Ákvæði þetta nær því aðeins til þeirra tilvika er önnur tilhögun orlofsgreiðslna hefur verið ákveðin með kjarasamningi eða á viðlíka hátt og launþegi fer sjálfur með fyrirsvar fyrir kröfu sinni.“

Fram komin brtt. er um að við b-liðinn bætist: „ríkisábyrgðin er óháð því hver fer með kröfuna“. Hugsanlegt er að skilja tillöguna þannig að ríkisábyrgðin sé óháð því hver fari með kröfuna, skilyrði sé einungis að launþeginn sé eigandi hennar. Sé þetta ætlun tillögumanna felst í tillögunni engin breyting á frv. og tillagan er því óþörf. Líklegra þykir mér, „segir lögmaðurinn,“ að ætlan tillögumánna sé önnur, þ. e. sú að orlofsfjárkrafa verði tryggð með ríkisábyrgð óháð því hver sé eigandi hennar. Sé þetta ætlunin er ljóst að um meiri háttar breytingu er að ræða. Þá hlyti Póstgíróstofan, bankar, eða aðrir, sem kynnu að hafa eignast orlofsfjárkröfu launþega fyrir framsal eða innlausn, ríkisábyrgð á kröfunni. Sú var einmitt ekki ætlunin samkvæmt frv. Samkvæmt því áttu launþegarnir einir að njóta ríkisábyrgðarinnar en ekki innheimtuaðilar orlofsfjár.

Ég vil að lokum benda á eftirfarandi atriði sem útiloka aða mínu mati það að samþykkja brtt. óbreytta:

1. Upphaf og endir b-liðar 4. gr. frv. eftir fram komna brtt. stangast á. Í upphafinu er talað um kröfu launþega en í lokin skiptir eignarréttur að kröfunni ekki máli.

2. Mér þykir erfitt að samrýma brtt. ákvæði 10. gr. frv. Þar segir að við framsal kröfu glatist tiltekin réttindi. Í brtt. er þessu öfugt farið.

3. Með brtt. er dregið úr gildi skilgreiningar 3. gr. á því hvað teljist vinnulaun og njóti þar af leiðandi verndar laganna.“

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla neitt meira um þetta mál. Ég tel mjög mikilvægt að þessi sérstaka nefnd. sem skipuð er fulltrúum vinnumarkaðarins, þ. e. launþega og atvinnurekenda, komi sér saman um það hvort á að gera svo róttækar breytingar sem hér er fjallað um. Mér finnst það skipta meginmáli því að til þessa hefur að flestra mati póstgírókerfið verndað launþega. Það er þess vegna óþarft í þessum þætti að ætla sérstaklega að fara að setja ríkisábyrgð á hvern sem er sem hefur með vörslu eða innheimtu orlofsfjár að gera. Þess vegna vil ég mæla gegn þessari brtt. En ég er jafnopinn fyrir því að greiða fyrir því að sem fyrst verði tekin sameiginleg ákvörðun aðila vinnumarkaðarins um stefnuna í þessu máli. Hún þarf að vera til því að enginn ætlast til þess að póstgírókerfið verði einhver sérstök stofnun ef aðilar vilja ekki treysta á að hún skili því sem til er ætlast. Síður en svo. En ef það verður niðurstaðan að aðilar vilji ekki lengur treysta þessu kerfi, þá er best að það komi í tillögu frá þeim sjálfum. Þeir eru enn starfandi að því máli en hafa ekki treyst sér til enn að taka þá ákvörðun.