13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5176 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

86. mál, áfengislög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþingi verður stundum að gera fleira en gott þykir og svo er nú í þetta sinn. Mér finnst satt að segja margt, raunar flest brýnna en að setja lög um bruggun og sölu áfengs öls þegar almennt launafólk á í vök að verjast gegn vondri stjórn. En þetta er nú á dagskrá, því fæ ég ekki breytt og má kannske segja eins og forðum: Hér stend ég og get ekki annað.

Skömmu eftir alþingiskosningarnar 1983 var hringt til mín frá félmrn. og ég beðin að sjá til þess að Kvennalistinn skipaði fulltrúa í nefnd sem marka ætti opinbera stefnu í áfengismálum þjóðarinnar. Við eftirgrennslan kom í ljós að skipun þessarar nefndar var í samræmi við þáltill. sem hafði verið samþykkt á Alþingi tveimur árum áður, vorið 1981, og mér var sagt að nefndinni væru ætluð þrjú ár til að ljúka verkefni sínu. Mitt fyrsta viðbragð var undrun og áhyggja hve langan tíma hafði tekið og ætti að taka að framfylgja vilja Alþingis og hefur mér nú lærst ýmislegt í þessum efnum síðan. En mér fannst þetta verkefni mundi vera þarft og áhugavert og þarf ekki að rekja fyrir hv. alþm. hvernig því hefur síðan miðað. Það gerði m. a. hv. síðasti ræðumaður hér áðan.

Í framhaldi af þessu kom á óvart þegar fram komu þegar á fyrsta þingi eftir skipun þessarar sérstöku nefndar tvö mál varðandi bruggun og sölu áfengs öls hér á landi. Ég hélt í barnaskap mínum að slíkar tillögur heyrðu undir mótun opinberrar stefnu í áfengismálum þjóðarinnar og væru þar af leiðandi í verkahring nefndarinnar sem skipuð var í samræmi við vilja Alþingis. Sýnir það nú enn hversu mikið ég átti ólært. Af þessum tveimur málum leist mér þó betur á tillöguna um þjóðaratkvæði þrátt fyrir afkáralega greinargerð sem fylgdi þeirri tillögu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að miklu meira ætti að gera af því að bera mál beint undir atkvæði þjóðarinnar og þá sérstaklega mál sem þjóðin vill sérstaklega fjalla um beint og segja skoðun á milliliðalaust, mál sem alltaf hljóta eðlis síns vegna að vera óháð flokkspólitík og svo er að mínu viti um áfengislöggjöfina.

Ég varð þess rækilega vör á s. l. vetri að fólk var mjög fylgjandi tillögu um þjóðaratkvæði og jafnvel margir þeirra sem eru í rauninni andvígir bjór, fólk sem átti það þó á hættu að bjórinn fengi meirihlutafylgi ef dæma má af skoðanakönnunum. Það merkilega er að nú upp á síðkastið hafa verið að berast ályktanir eða áskoranir um þjóðaratkvæði í þessu máli.

Gallinn á tillögunni, sem fram kom í fyrra, var að gert var ráð fyrir allsherjaratkvæðagreiðslu samhliða almennum kosningum. Var þá augljóst að bjórinn yrði allt of ráðandi í allri umræðu fyrir kosningarnar á kostnað annarra jafnmerkra og merkari málefna. Æskilegast væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um fleiri en eitt mál samtímis og tengja það ekki almennum kosningum. Auk þess var heldur óljóst hvað gera ætti við niðurstöðurnar, hvort þær væru bindandi fyrir framkvæmdavaldið eða hvort löggjafarvaldið þyrfti þá að koma til sem hugsanlega væri þá á móti því sem meiri hluti þjóðarinnar hefði samþykki.

Á þessari tillögu hefði því þurft að gera breytingu svo að hún næði tilgangi sínum. En það var ekki gert og allir þekkja örlög hennar. Hún komst aldrei til atkvæða. En á þessu þingi er svo til umfjöllunar frv. til l. um bruggun og bjórsölu og í þetta sinn hafa menn mannað sig upp í rækilega umfjöllun um þetta margþvælda deilumál og verður nú ekki lengur undan vikist að taka afstöðu.

Mér þykir rétt að komi fram hérna að 1. flm. þessa frv. bauð mér aðild að flutningi þess. Ég var fljót að afþakka það á þeim forsendum að ég sæi ekki að framganga þess máls mundi bæta stöðu kvenna og barna sem er eins og mönnum er vonandi kunnugt meginmarkmið Kvennalistans. Við nánari athugun á frv. þótti mér svo einsýnt að hafna því. Mér fannst stefnumótun óskýr og látin í vald ráðh. að mestu eða öllu leyti.

Það er svo annað mál að mér hefur gengið alveg einstaklega illa að koma mér upp nauðsynlegum áhuga á þessu máli. Við vitum öll að um það eru mjög andstæðar skoðanir. Í engu öðru þingmáli hef ég a. m. k. orðið fyrir jafnmiklum þrýstingi og sá þrýstingur er allur á einn veg. Andstæðingar bjórsins eru einir um þann áróður svo til algerlega, bæði munnlegan og skriflegan, enda talsmenn bjórsins líklega nokkuð sigur vissir eftir allmargar skoðanakannanir þeirra málstað í vil. Báðir aðilar hafa mikið til síns máls og því alls ekkert einfalt að taka afstöðu, sérstaklega ekki þegar maður hefur ekki persónulegan áhuga á því. Ég á ákaflega bágt með að trúa að þetta skipti jafn gífurlega miklu máli og menn vilja vera láta. Það er eins og menn haldi að tilveran muni gerbreytast ef bjórsalan verður leyfð hér. Sumir sjá paradís í hillingum, aðrir svartnættið sjálft. Hjá sumum er þetta svo fyrst og fremst grundvallarspurning, spurning um frelsi og þá koma náttúrulega vangaveltur um frelsi til hvers.

Áður en tekin er endanleg afstaða í þessu máli verður að líta á ástandið eins og það er núna. Er landið bjórlaust? Nei, það er langt frá því bjórlaust þótt mér detti ekki í hug að halda því fram að bjórneysla muni ekki aukast verði þetta frv. að lögum. En það er vissulega mikið um bjór í þessu landi og ef við höfnum þessu frv. er hið eina rökrétta í málinu að hindra það bjórflæði sem nú er til staðar. Allir vita að farmenn og ferðamenn bera áfengan bjór inn í landið í tonnatali. Við hljótum að svipta þá þeim forréttindum ef við höfnum þessu frv., annað væri órökrétt. Allir vita að töluverðu magni af áfengum bjór er smyglað inn í landið á einn eða annan hátt. Við hljótum að stórefla eftirlit með því, reyndar óháð því hvort frv. þetta verður að lögum eða ekki. En verði það að lögum má búast við minnkandi smygli.

Allir vita að bruggun áfengs öls er töluverð enda óátalið leyfð sala hvers konar bruggunartækja og ölgerðarefna, a. m. k. ölgerðarefna, jafnvel í matvöruverslunum, og þótt með fylgi aðvaranir um hæsta leyfilega áfengismagn, þá er það einfaldlega brandari af lélegustu gerð. Ætlum við að láta það viðgangast áfram?

Loks hafa á undanförnum mánuðum sprottið upp krár ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur úti um allt land, ölkrár, sem selja svokallað bjórlíki. Sú þróun er ákaflega sérkennileg að mínu mati og frammistaða framkvæmdavaldsins í því máli til lítils sóma. Sannast þar enn að menn eru býsna útsmognir að finna leiðina kringum lögin, finna götin og gloppurnar. Það er margra álit að þessi sérkennilega blöndun áfengis sé ólögleg þar eð ekki sé leyfilegt að blanda áfengi öðruvísi en í augsýn neytandans. Þetta hef ég reyndar ekki kynnt mér frekar, ég viðurkenni það hreinskilnislega, enda skiptir það harla litlu máli. Það dygði ekki til að útrýma þessari áfengissölu. Lögum skv. má blanda áfengi með hvaða öðrum löglegum drykk sem er og vitaskuld yrði það þá bara gert fyrir framan nefið á neytandanum yrði þess krafist. Það er svo aftur merkilegt umhugsunarefni hvernig þessari nýjung hefur verið tekið. Ölstofurnar hafa sprottið upp eins og gorkúlur á haug og sagt er að þær séu svo fjölsóttar að erfitt sé að fá þar inni, jafnvel í miðri viku. Þær virðast þannig uppfylla ákveðna félagsþörf. En nú tala ég af nákvæmlega engri reynslu og best að hætta sér ekki lengra út á þessa braut. En sem sagt, landið er ekki bjórlaust. Það er þegar fyrir hendi mikil bjórneysla í þessu landi. Það er staðreynd sem við verðum að taka á með einhverjum hætti. Annaðhvort leyfum við bjór eins og annað áfengi eða við leyfum alls ekki bjór. Þessi tvískinnungur og ósamræmi er óþolandi.

Meginspurningin er vitanlega hvort heildarneysla áfengis muni aukast með tilkomu áfengs öls. Flestir svara þeirri spurningu játandi og segja má að allar röksemdir gegn bjór byggist á þeirri fullyrðingu að heildarneysla áfengis muni aukast og þar með áfengisbölið í heild. Ekki treysti ég mér til að afneita þeirri kenningu en er þó sannfærð um að aukningin yrði ekki jafnmikil og margir vilja vera láta, a. m. k. ekki að samþykktum brtt. meiri hl. allshn. Hins vegar er ekki minnsti vafi á því að opinberar tölur muni sýna aukna drykkju ef bjórinn verður samþykktur. Að líkindum drægi stórlega úr heimabruggi og ólöglegum innflutningi þótt ekki sé ég jafn bjartsýn og hv. frsm. meiri hl. allshn. sem taldi að þetta mundi falla niður, eins og hann orðaði það. En eins og öllum má ljóst vera kemur heimabrugg og smygl ekki fram í opinberum tölum nema að því marki sem reynt er að giska á magnið. Þótt opinberar tölur um áfengisneyslu hækkuðu þannig töluvert væri umtalsverður hluti þeirra því engin aukning í raun og veru þar sem hann kæmi aðeins í staðinn fyrir áður óskráða neyslu. Hins skulum við heldur ekki ganga dulin að verði bjórinn leyfður verður honum kennt um flest sem til óheilla horfir í áfengismálum.

Fyrir nokkru — og raunar finnst mér það vera núna helgi eftir helgi — voru áberandi í dagblöðum óvenju hrikalegar fréttir af áfengisneyslu og afleiðingum hennar og í mínum huga er ekki spurning að andstæðingar bjórsins hefðu varpað og mundu varpa allri sök á hann ef búið væri að leyfa hann. Þannig verður það. Honum verður kennt um allt sem miður fer.

Flestir andstæðingar bjórsins leggja mikla áherslu á þá skoðun sína að æskufólki sé sérstök hætta búin af bjórnum og er það algeng athugasemd á ályktunum gegn bjórnum að innleiðing bjórs væri hv. Alþingi til lítils sóma á sjálfu alþjóðaári æskunnar. Að æskufólki sé sérstök hætta búin er að mínum dómi langalvarlegasta og íhugunarverðasta röksemd bjórandstæðinga. Sú röksemd ætti tvímælalaust rétt á sér ef engar hömlur væri á sölu bjórsins. En nú á skv. brtt. meiri hl. allshn. ekki að selja bjórinn nema í áfengiseinkasölum. Þess vegna verður ekki auðveldara fyrir unglinga að nálgast hann en annað áfengi sem þeim hefur því miður veist allt of auðvelt.

Mín skoðun er sú að bjórinn komi fyrr en síðar. Ef við leyfum hann ekki nú með löglegum hætti erum við aðeins að fresta málinu og að mínum dómi gæti það orðið til skaða. Andstæðingar bjórsins eru að vísu í minni hluta skv. skoðanakönnunum en vegna harðrar og tiltölulega málefnalegrar andstöðu þeirra er lag einmitt núna til að setja þær skorður við bruggun, innflutningi og sölu áfengs öls að þær dragi verulega úr hættunni af því að leyfa það. Ég treysti því ekki að til þess yrðu jafngóðar aðstæður síðar — og raunar meira en það — ég er viss um að tíminn mundi ekki vinna með okkur í þessu máli og á því byggi ég afstöðu mína.

Meiri hl. allshn. virðist hafa verið á sama máli. Hann sýnist hafa unnið samviskusamlega og einlæglega að þessu þingmáli og gert mjög markvissa tilraun til að móta stefnuna skýrt og draga úr ágöllum málsins og fyrir það ber að þakka. Virðist mér allar tillögur meiri hl. til bóta. Um þær hefur að sjálfsögðu verið fjallað hér rækilega og þær skýrðar og ekki ástæða til að ég geri það frekar. En á þskj. 849 flyt ég brtt. við 6. tölul. á þskj. 733. Sú grein, sem um ræðir þar, miðar að því að stórauka fræðslu um skaðsemi áfengis en þar fannst mér nefndarmenn ekki nógu djarfir. Mér finnst sjálfsagt að nota tækifærið til hins ýtrasta til fræðslu og herferðar gegn misnotkun áfengis og hefði jafnvel viljað ganga enn lengra. Áætlað er að 0.5% af skatttekjum ríkissjóðs vegna framleiðslu og sölu áfengs öls kunni að nema allt að 4 millj. kr. og 1%, eins og till. mín hljóðar upp á, næmi þá allt að 8 millj. Það kann að virðast myndarleg upphæð en gerð fræðsluefnis t. d. á myndspólum er dýr og við megum ekkert til spara.

Hv. frsm. talaði um fræðslu í skólum landsins en ég tel fráleitt að miða aðeins við skólana. Við hljótum að nýta okkur fjölmiðlana, ekki síst sjónvarpið og þar vil ég t. d. nefna að mikilvægt er að koma mönnum í skilning um að bjór er áfengi og neysla hans fer t. d. alls ekki saman við bifreiðaakstur. Við höfum góða reynslu af fræðsluherferðum, t. d. í sambandi við skaðsemi tóbaks, um það get ég persónulega vitnað. Og í sambandi við umferðarmál, t. d. þegar við breyttum úr vinstri umferð yfir í hægri umferð. Bönn hafa því miður oft óæskileg áhrif. Fræðsla með réttum upplýsingum er sterkasta vopnið. Ég vil þakka sérstaklega hv. þm. Gunnari G. Schram, sem að vísu er ekki viðstaddur hér nú. Hann studdi till. mína eindregið í umr. um þetta mál þegar það var hér á dagskrá fyrir viku og ég bið alla þm. að skoða þessa till. mína vel og styðja hana.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta miklu lengur. Það hefur mikið verið höfðað til ábyrgðar og þjóðhollustu í þessu máli og gefið í skyn að þeir séu óþjóðhollir og ábyrgðarlausir sem láti sig hafa það að greiða bjórnum atkvæði sitt. Eftir mikla umhugsun hef ég þó ákveðið að greiða atkvæði með þessu frv., þ. e. að samþykktum brtt. þeim sem við það eru gerðar. Á þessari stundu treysti ég mér reyndar ekki til að lofa atkvæði mínu verði brtt. mín ekki samþykkt. En það skal skýrt tekið fram að þetta er persónuleg afstaða mín. Um þetta eru skiptar skoðanir innan Kvennalistans eins og innan annarra stjórnmálasamtaka.