13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5180 í B-deild Alþingistíðinda. (4474)

86. mál, áfengislög

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð um þetta mál til að lýsa viðhorfum mínum. Að vísu verð ég að segja að mér finnst margur annar vandi vera brýnni og verðugri umr. þm. um þessar mundir en þetta mál. En það er að mörgu leyti erfitt viðfangs og reyndar líkar mér illa að vera í þeirri stöðu að ætlast er til þess af alþm. að þeir hafi vit fyrir öðrum í þessu máli. Að málinu hníga mörg rök, bæði með og á móti, og það er auðvelt að sjá réttmæti flestra þeirra. Það er afleitur sá tvískinnungur sem nú ríkir í bjórmálum. Réttindum manna til að kaupa áfengan bjór og flytja hann inn í landið er misskipt og eru þau bundin við þá sem ferðast erlendis. Lögmæti bjórsölu í fríhöfn Keflavíkurflugstöðvarinnar er í raun vafasamt miðað við núgildandi lög og sömuleiðis sala þess bjórlíkis sem á boðstólum er út um borg og bý. Það er því nauðsyn að koma þessum málum í viðunandi horf þannig að ekki séu brotin lög leynt og ljóst. Um þetta eru flestir sammála.

Svo skilja leiðir því að menn eru ekki sammála um það hvað er viðunandi horf. Það má segja að skoðanir manna séu mjög skiptar og svipað gildir um skoðanir kvenna, þær eru nokkuð skiptar. Þrýstingur frá þeim aðilum sem vilja selja og neyta bjórs hefur ráðið því að hann er seldur í fríhöfninni og enn fremur því að bjórstofur selja bjórlíki. Sá þrýstingur hefur líka ráðið því að flutt er þetta frv. sem hér er til umr. Það má segja að þeir sem brjóta lögin séu að knýja löggjafann til að hagræða málum á sinn veg. Að mínum dómi á lögleysa ekki að þvinga löggjafann á sitt band.

Nú er enn að störfum fjölmenn nefnd sem skipuð var af fyrrverandi hæstv. heilbrrh. og hefur það verkefni að móta stefnu í áfengismálum. Mér þætti eðlilegra að beðið væri eftir niðurstöðum þessarar nefndar áður en þetta mál verður afgreitt því að það er sannarlega mikilsverður þáttur í mótun heildarstefnu í áfengismálum.

Nú er það svo að málið mundi vefjast minna fyrir mér og líklega flestum öðrum ef það væri öruggt að áfengur bjór mundi koma í staðinn fyrir og leysa af hólmi þá drykkju af sterkum vínanda sem mörgum þykir óhófleg eða óæskileg hérlendis. Á þetta einkum við um unglinga. Þrátt fyrir sterka sannfæringu manna í þessum efnum og jafnvel óskhyggju virðast þó niðurstöður rannsókna sýna að viðbót á áfengum bjór eykur heildarneyslu en kemur ekki í stað sterkari drykkja. Í þessu sambandi má nefna að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur af heilsufarslegum ástæðum mæli með því í ljósi rannsóknaniðurstaðna að dregið sé úr heildarneyslu áfengis með takmörkun á aðgengi og með háu verði.

Reynsla annarra þjóða sýnir að áfengisneysla barna og unglinga eykst og byrjar fyrr þar sem áfengur bjór er á boðstólum en þar sem hann fæst ekki. Það ástand, sem nú ríkir í okkar þjóðfélagi í umönnun barna og unglinga, ekki síst í málefnum þeirra sem erfiðast eiga vegna vímuefnaneyslu, gefur ekki tilefni til þess að auka á þann vanda sem fyrir er að mínu mati. Meðan ekki er gert betur í þessum efnum, meðan félagsleg umönnum barna og unglinga er ekki beysnari en hún er, meðan ekki er til neyðar- eða langtíma meðferðarathvarf fyrir allra yngstu fórnarlömb vímuefnaneyslu, meðan geðheilbrigðisþjónusta barna annar ekki verkefnum sínum vegna fjármagnsskorts, meðan aðstæður til sérstakrar geðheilbrigðisþjónustu fyrir unglinga eru gersamlega ófullnægjandi, í stuttu máli sagt, meðan úrræði okkar til að sinna þeim sem óhjákvæmilega verða fórnarlömb aukinnar neyslu eru ekki betri í reynd, þá get ég ekki stutt það frv. sem hér er til umr.

Það kunna að koma þeir tímar og þær staðreyndir byggðar á reynslu að réttlætanlegt sé að bæta við það úrval áfengis sem á boðstólum er. En nú á þessu ári æskunnar get ég ekki sannfærst um að þetta sé kappsmál kvenna og barna en hingað kom ég sem málsvari þeirra. Ég mun því ekki styðja þetta mál.