13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5182 í B-deild Alþingistíðinda. (4476)

86. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess í þessu máli að gera hér í fáum orðum grein fyrir afstöðu minni þó að hún hafi reyndar áður komið fram úr þessum ræðustól á síðasta þingi þegar fjallað var um þjóðaratkvæðagreiðslu um áfengt öl. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv. og einnig þeirri afstöðu sem fram kemur frá meiri hl. allshn. af margvíslegum ástæðum sem unnt væri að tíunda hér í mjög ítarlegu máli. Þetta mál er hins vegar engan veginn einfalt og ég skil þá þm. vel sem telja sig þurfa að gera með ítarlegum hætti grein fyrir afstöðu sinni.

Ég get stytt mjög mál mitt með því að taka undir mjög margt af því sem fram hefur komið í umr. áður, m. a. frá hv. 3. landsk. þm. hér rétt áðan, en vil þar fyrir utan bæta við nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi það að það er starfandi nefnd skv. samþykki Alþingis sem á að gera tillögur um opinbera stefnumótun í áfengismálum. Það er rangt, sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði áðan, að þessi nefnd hefði ekki skilað áliti. Hún hefur skilað áliti fyrir löngu en ríkisstj. liggur á álitinu. Hún hefur skilað áliti til núv. hæstv. heilbr.og trmrh. í tveimur hlutum. Annars vegar um áfengismál og hins vegar sérstökum tillögum varðandi önnur ávana- og fíkniefni. Þessar tillögur hafa ekki fengist ræddar hér á hv. Alþingi. Þær hafa aldrei verið lagðar fyrir alþm. og mér er ekki kunnugt um að ríkisstj. hafi tekið afstöðu til þeirra. Ég hlýt að gagnrýna mjög harðlega vinnubrögð ríkisstj. í þessu efni vegna þess að ég tel að það hefði verið eðlilegt áður en þetta mál kemur til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi að um þessar tillögur að stefnumótun í áfengismálum hefði verið fjallað hér. Ég hlýt að harma vinnubrögð ríkisstj. í þessum efnum, bæði hæstv. dóms- og kirkjumálaráðh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. sem fara með þessi mál.

Ég verð var við það að rökstuðningur fólks fyrir því að taka afstöðu með þessu frv. er m. a. fólgin í því að benda á að það séu í raun og veru allar varnir brostnar.

Eftir að leyft var að selja áfengt öl í fríhöfninni í Keflavík og eftir að bjórbúlurnar voru opnaðar, sem hafa verið að spretta upp hér eins og gorkúlur á undanförnum tveimur árum, sé í raun og veru ekki unnt annað en að samþykkja þessar tillögur. Ég bendi á að þetta hvort tveggja byggist í raun og veru á lögleysu að mínu mati. Það liggur fyrir grg. frá Sigurði Líndal prófessor þar sem hann bendir á að reglugerðin um sölu á áfengu öll í Keflavík sé lögbrot. Þessi álitsgerð Sigurðar Líndals hefur legið fyrir um nokkurra ára skeið með alveg ótvíræðum hætti. Hann telur að þessi reglugerð Sighvats Björgvinssonar, fyrrv. hæstv. fjmrh., brjóti í bága við áfengislögin eins og þau eru.

Í annan stað eru þan rök flutt í þessu máli að hér hafi verið opnaðar bjórknæpur með svokölluðu bjórlíki, sem hv. þm. Helgi Seljan kallar bjórlíkhús, í stórum stíl á undanförnum árum. Hæstv. dóms- og kirkjumrh. hefur haldið á þessu máli með furðulegum hætti. Hann telur að hann hafi ekki getað neitað um starfsleyfi fyrir þessar stofnanir og byggir þar á áliti saksóknara ríkisins. (ÓÞÞ: Sem ekkert veit um brugg.) Hvað sem því líður, hv. þm., tel ég að málið hefði einfaldlega átt að meðhöndlast þannig af hæstv. dóms- og kirkjumrh. að hann átti að neita um þessi leyfi og síðan að láta reyna á það hvort sú neitun hefði verið felld úr gildi fyrir dómstólum í stað þess að snúa þessu með þeim hætti sem núv. hæstv. dómsmrh. hefur gert og þar með í rauninni brotið niður með athafnaleysi sínu sem ráðh. að verulegu leyti þá andstöðu sem var hér á hv. Alþingi við því að innleiða áfengan bjór. Ég tel þess vegna að athafnaleysi ríkisstj. varðandi till. um opinbera stefnumótun í áfengismálum og þessi frammistaða núv. ríkisstj. varðandi þessar bjórbúlur sé í rauninni ein meginástæðan til þess að svo virðist sem meiri hl. Nd. Alþingis, ef ég kann að ráða rétt í upplýsingar, muni samþykkja þetta frv.

Ég treysti mér ekki til þess sem alþm. að samþykkja frv. af þessu tagi og bera þannig ábyrgð á þeim vandamálum sem samþykkt þess mun hafa í för með sér. Ég held að hver og einn þm. verði að skoða mjög vel sinn hug og sýna ábyrgð sem einstaklingur gagnvart komandi kynslóðum í þessu landi þegar hann gerir upp hug sinn í máli af þessum toga. Ég vona þess vegna að fólk hér á hv. Alþingi leyfi sér ekki að taka afstöðu til þessa máls af léttúð. Þó get ég ekki neitað því að mér finnst það stundum vera þannig. Mér finnst stundum vera býsna mikið kæruleysi í sambandi við afstöðu hv. alþm. í þessu efni og mér finnst það mjög athyglisvert að flm. þessa frv. gera enga tilraun til þess að svara þeim rökum sem fram hafa komið frá andstæðingum frv. Andstæðingar frv. hafa flutt hér margvísleg rök. Ég bendi t. d. á mjög ítarlega ræðu sem hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti hér við þessa umr. þar sem margt kom fram af mjög athyglisverðum upplýsingum, m. a. frá talsmönnum heilbrigðisstétta hér á landi. Ég held að fáir alþm. hafi þá faglegu þekkingu að þeim sé stætt á að hundsa þær upplýsingar.

Ég bendi á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur með alveg afgerandi hætti mótað afstöðu í þessum efnum sem er ósköp einfaldlega sú að aukið aðgengi að áfengi þýðir meiri áfengisvandamál. Þetta er eins einfalt og það getur verið. Ég bendi á að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hafa a. m. k. fram .til þessa haft mjög mótaðar skoðanir í þessu efni sem eru ekki byggðar á viðhorfum þeirra einstaklinga sem þessar skoðanir hafa út af fyrir sig, til bjórs eða ekki bjórs, heldur eru þessar álitsgerðir t. d. okkar fólks í heilbrigðisþjónustunni hér á Íslandi byggðar á faglegu, ígrunduðu mati. Mér finnst það mikil hreysti af alþm. að samþykkja þetta bjórfrv. eftir að jafn mætur maður og sérfræðingur og Tómas Helgason hefur tekið af skarið með jafn afdráttarlausum hætti og menn þekkja í blaðagreinum og hér hefur verið vitnað í.

Það þarf mikla innri sannfæringu og öryggi um sitt eigið ágæti í þessum efnum til þess að menn slái því föstu að þetta sé rugl sem kemur frá þessum sérfræðingi, einum fremsta sérfræðingi okkar í geðheilbrigðismálum um áratuga skeið. Ég get ekki sagt að ég hafi alla tíð verið ákaflega ánægður með Tómas Helgason þann tíma sem ég starfaði með honum, einkum var það nú í sambandi við framkvæmdir, en það kom ekki faglegum málum hans við. Ég bendi á að menn eins og Tómas Helgason hafa haft daglega atvinnu af því um áratugaskeið að umgangast þau vandamál sem hljótast af áfengisneyslu. Ég held að það gæti verið fróðlegt fyrir þm. að kynna sér þær stofnanir þar sem það fólk er sem einkum hefur orðið fyrir barðinu á áfengi hér á landi. Ég veit ekki hvort menn hafa gert það, það vill svo til að ég hef gengið um þær stofnanir og séð með hvaða hætti hefur verið unnið t, d. á vegum SÁÁ að því að leysa þarna margvísleg vandamál og það er þakkarvert sem þar hefur verið unnið.

En ég efast um að þeir hv. alþm., sem eru núna að ákveða að styðja þetta frv., hafi allir gert sér grein fyrir því að það er beint samhengi milli aukins framboðs á áfengi og þeirra vandamála sem blasa við í okkar heilbrigðisþjónustu mjög víða. Vegna þess að sumir þeirra þm., sem eru að tala um að það þurfi að innleiða hér öl, eru þeirrar skoðunar að það eigi að draga úr ríkisrekstri minni ég á þann stórkostlega kostnað sem samfélagið hefur á seinni árum verið að bæta við sig, bæta á útgjöld ríkisins, til þess að kosta stofnanir vegna áfengissjúklinga. Það er hægt að telja hér upp einar fjórar stofnanir vegna meðferðar á áfengissjúklingum sem hafa orðið til á síðustu tíu árum. Ætla menn bara að láta sem ekkert sé og vera svo öruggir um að hér skuli bara vera bjór og allt frjálst og allt þetta eins og það heitir, ætla menn bara að strika yfir þær mannlegu og félagslegu þjáningar sem eru á bak við tilveru þessara stofnana? Ætla menn að setja sig í þær-mér liggur við að segja — hrokafullu stellingar að strika yfir þessar staðreyndir og jafnframt þekkingu og reynslu manna sem hafa komið fram með velviljaðar ábendingar, manna eins og t. d. Tómasar Helgasonar?

Ég held að í þessum efnum eigi menn að skoða hið faglega mat sem liggur fyrir frá fjölmörgum læknum og starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar og ég skora á hv. þm., flm. þessa frv. og stuðningsmenn þess, að íhuga mjög vandlega hvort þeir rísi undir því sjálfir að bera ábyrgð á því flóði vandamála sem hellist yfir einkum okkar yngstu kynslóð í landinu ef þetta verður samþykkt.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að verði þetta frv. samþykkt og hér leyfður áfengur bjór muni varnir bresta mjög víða á öðrum sviðum í þessum efnum líka. Ég er þeirrar skoðunar að það verði uppi kröfur um það að þessi vara verði fáanleg í matvöruverslunum hvarvetna og það leiði síðan til þess að þær hömlur, sem nú eru á áfengissölu allri, falli niður. Hér er verið að opna fyrir flóðgátt í margföldum skilningi þess orðs. Það þarf, eins og ég sagði áðan, mikinn innri sannfæringarkraft, mikla vissu um sjálfan sig, til þess fyrir einn alþm. að vilja taka ábyrgð á þeim niðurstöðum sem hér er gerð till. um.

Ég kýs heldur að greiða atkvæði gegn þessu frv. og í framhaldi af því teldi ég skynsamlegt að Alþingi gripi til markvissra ráðstafana til að draga almennt úr áfengisneyslu hér á landi, með forvarnarstarfi, með upplýsingum og fræðslu. En að koma hingað núna, herra forseti, og segja: Ég ætla að leyfa bjórinn en ég ætla bara að fræða fólkið í leiðinni — það er sjálfsagt einhver sálarléttir fyrir þann sem vill leyfa þetta og kannske er það viðurkenning um leið á því hvað þetta er í raun og veru alvarleg ákvörðun. En í rauninni stríða þessar ákvarðanir stórkostlega hvor gegn annarri.

Ég held að það væri skynsamlegra fyrir hv. Alþingi að fjalla um það á þessu ári hvernig unnt er með skynsamlegri áfengisstefnu, sem tekur mið af þeim venjum sem hér eru í þeim efnum, að reyna að byggja upp varnir hjá fólkinu sjálfu gagnvart hinum stóru vandamálum sem ég hef hér rakið.

Það var verið að nefna Alþjóðaár æskunnar hér áðan. Það voru Sameinuðu þjóðirnar sem samþykktu að Alþjóðaár æskunnar skyldi vera árið 1985. Fyrir nokkrum árum ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að helga eitt ár málefnum aldraðra og Alþingi tók um það ákvörðun með samhljóða samkomulagi allra stjórnmálaflokka hér og þm. með engum ágreiningi að efna til mjög víðtæks átaks í þágu aldraðra með fjármunum og skipulögðu starfi vegna þjónustu við aldraða hér á landi.

Núv. ríkisstj. hefur því miður ekki borið gæfu til að nota sér, liggur mér við að segja, þetta tækifæri sem ár æskunnar getur gefið fyrir Alþingi og stjórnvöld til að grípa á þessum málum. Ég hefði viljað sjá hér frv. og till. frá ríkisstj. um það hvað hún vill gera til þess að bæta þetta þjóðfélag handa því unga fólki sem er að vaxa upp hér á landi. Engar till. eru hér til umr. um það. Þetta er eina till. sem viðurkennt er að sérstaklega snerti æskuna í landinu, þetta er eina till. sem uppi er. Þetta er vonandi umhugsunarefni fyrir fleiri en mig. Hefði ekki verið tækifæri til þess núna á þessu ári að grípa þessa till. og afstöðu Sameinuðu þjóðanna til þess að fá þm. úr öllum flokkum og stjórnvöld hér á landi til að efna til átaks til að verja ungt fólk fyrir fíkniefnaöldunni? Ætla menn algerlega að vera kaldir gagnvart þeim vandamálum? Hafa menn ekki heyrt um þau? Hafa menn ekki séð þau í kringum sig? Ætla menn að láta þetta nægja, frv. til i. um að hvolfa áfengu öll yfir þetta unga fólk?