13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5189 í B-deild Alþingistíðinda. (4478)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Þannig stendur á að menntmn. hefur verið boðuð á fund kl. 8 í fyrramálið. Seinasti menntmn.-fundur, sem boðaður var, var aldrei haldinn vegna þess að menn mættu ekki til fundar. Einn hv. þm. í menntmn. lét þess getið í vetur að hann hefði verið boðaður vansvefta á fundi og kvartaði undan því. Ég tel að það sé spurning hvort forseti geti stjórnað þannig deildarstörfum að það komi fyrirsjáanlega niður á nefndarstörfunum.

Það vill svo til með þetta mál sem hér er á dagskrá að það hefur verið meiri hl. fyrir því í allan vetur að koma því úr nefnd. Eftir að það kom úr nefnd dróst það mjög að meiri hl. skilaði nefndaráliti. Mig undrar það ef forseti telur það eðlileg vinnubrögð að reka nú svo hratt trippin á kvöldfundi eftir kvöldfund að það raski eðlilegu þingstarfi. Ég óska eindregið eftir því að forseti gefi það upp hversu lengi hann telur eðlilegt að framhalda hér fundi í kvöld.