14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5201 í B-deild Alþingistíðinda. (4487)

389. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ekki fer það milli mála að Rafmagnseftirlit ríkisins hefur víðtæku og um leið margþættu hlutverki að gegna svo ríkur þáttur sem rafmagnið, búnaður og tæki og notkun öll, er hjá okkur, jafnt í heimilishaldi okkar sem hvarvetna í atvinnulífinu. Virkt aðhald og eftirlit í þessum efnum er með stærstu öryggisþáttum okkar og þó erfitt sé að koma í veg fyrir allt tjón sem af vanrækslu og ónógu viðhaldi getur stafað og hefur stafað er það samfélagsleg skylda að sjá svo til að eftirlitið sé sem best og virkast.

Af langri kynningu minni af þessum málum og kynnum af þeim sem starfa hér að af mikilli samviskusemi er mér ljóst að í mörgu, allt of mörgu er þessu ábótavant. Í raun eiga eftirlitsaðilar í stöðugu stríði við trassana og jafnvel þá sem ættu gleggst að gera sér grein fyrir alvarlegum afleiðingum af ónógu eftirliti og vanrækslu í úrbótum. Á ég þá við rafveitufyrirtækin sjálf öðru fremur.

Mér er enn ríkt í minni þegar allsherjarskoðun var framkvæmd á heimabyggð minni á öllum húsum og atvinnufyrirtækjum. Ónýtar rafmagnslagnir, illa varðar leiðslur, alls konar uggvekjandi niðurstöður komu í ljós sem hér yrði of langt mál að rekja. Úrbætur í kjölfarið hjá nær öllum hafa áreiðanlega komið í veg fyrir hina alvarlegustu hluti. Hér skal ekki í fyrirspurnatíma fara út í almennar umræður um nauðsyn skipulegs eftirlits og virks aðhalds, allt frá prófun raffanga, hins margvíslega varnings sem nú er fluttur inn eða framleiddur, til reglubundinnar skoðunar á rafbúnaði í fyrirtækjum og húsum og úttektar á nýlögnum og búnaði öllum. Öll þekkjum við frásagnir af brunum sem hafa endað á hinu sakleysislega: „Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni.“ Auðvitað getur alltaf eitthvað óvænt gerst, en rökstuddur grunur minn er sá að fullnægjandi eftirlit og möguleiki til að fyrirskipa lagfæringar hefði oft dugað til að koma í veg fyrir hörmulegt tjón, og ég veit raunar að svo er. Einkennilegt skilningsleysi ríkir í þessum málum og jaðrar við kæruleysi hjá þeim sem gleggst eiga að vita, hvað þá hjá almenningi.

Rafmagnseftirlitið og ágætir starfsmenn þess hafa unnið mjög vel og vilja fá enn víðtækara verksvið og möguleika til aðgerða. Í kjölfar Hagvangskönnunar og nefndarstarfa, sem munu að hluta í gangi enn, er uggur í mörgum þeim sem um þessi mál fjalla af mestri reynslu og þekkingu að þessum þýðingarmikla þætti öryggismála okkar verði ekki sinnt sem skyldi. Því hef ég leyft mér að beina svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

1. Eru uppi áætlanir um að draga úr starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins, m. a. með því að fela öðrum stofnunum ákveðin, veigamikil verkefni þess?

2. Hvað hyggst rn. gera til að tryggja enn betur þann þýðingarmikla þátt öryggismála sem Rafmagnseftirlitið annast nú?