14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5204 í B-deild Alþingistíðinda. (4492)

409. mál, útflutningur niðurgreiddra landbúnaðarafurða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. En hér hefur eitt mjög athyglisvert komið í ljós. Þegar ráðh. svaraði fsp. minni 12. mars sagði hann orðrétt: „Útboð hefur farið fram á þessum flutningum.“ Þegar ég spyr nú aftur ítarlegar, þá segir hæstv. ráðh.: „Formleg útboð hafa ekki farið fram.“ — Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að hæstv. ráðh. hafi vísvitandi verið að segja þinginu ósatt. Ég þekki hann að öllu öðru en því að ég mundi ætla honum slíkt. Hins vegar er alveg ljóst að þeir sem ráðh. hefur leitað til um upplýsingar hafa sagt honum rangt til og gefið honum alrangar upplýsingar. Það hefur nú verið staðfest í þessu svari að sá útflutningur á niðurgreiddum landbúnaðarvörum, sem um var spurt, hefur aldrei formlega verið boðinn út. Það er kannske í mesta lagi að lyft hafi verið símtóli einhvern tíma. Ég held að það sé mjög alvarlegt mál þegar það kemur í ljós að sá aðili sem ráðh. leitar til um svör við fsp. á Alþingi gefur beinlínis rangar upplýsingar. Ég skal ekki fullyrða hvaða aðili það er, en hitt þykist ég vita að Samband ísl. samvinnufélaga hefur aldrei boðið út þessa flutninga, hvorki formlega né óformlega. Raunar gefa þær tölur sem ráðh. las hér áðan um skiptingu þessara flutninga alveg ákveðna mynd af því hvernig þessum málum er háttað.

Þetta litla mál, sem þó er kannske alls ekki svo lítið, veitir okkur nokkra innsýn í það hvernig landbúnaðarkerfið á Íslandi og sukkið í kringum það er rekið, allt í skjóli núv. ríkisstj. og hinna sem á undan hafa verið og með blessun ráðh. Sjálfstfl. sem telja sig talsmenn frelsis í verslun og vilja láta bjóða alla hluti út. Ég ítreka það að ég er ekki að segja að ráðh. hafi vísvitandi sagt þinginu ósatt, en ég fullyrði hins vegar, í ljósi þess sem sagt var þegar hinni fyrri fsp. minni var svarað og þegar þessari fsp. er svarað nú, að þar rekur sig eitt á annars horn. Áður sagði hæstv. ráðh.: Útboð hefur farið fram á þessum flutningum. En nú er svarið: Formleg útboð hafa ekki farið fram. Það er alvarlegt umhugsunarefni fyrir þingheim þegar slíkir hlutir eiga sér stað.