14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5208 í B-deild Alþingistíðinda. (4498)

436. mál, framhald samningaviðræðna við Alusuisse

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Spurt var: Hvenær afhenti ríkisstj. Alusuisse bréf um fyrirhuguð kjör og skilmála álbræðslunnar, hverjir eru þessir skilmálar og hver er staðan í samningum um stækkun álversins? Ég svaraði þessu eins og hið háa Alþingi heyrði, að ríkisstj. hefði ekki enn sem komið væri afhent Alusuisse bréf um þetta efni. Það þýðir ekki og það er útúrsnúningur að halda því fram að þar með hafi ég upplýst að ríkisstj. væri ekki búin að móta þennan ramma sem hún mun setja fram. Ég hef gert mér grein fyrir þeim skilyrðum sem ég ætla að setja en það kemur ekki til nokkurra greina á þessari stundu að ég upplýsi það. Ég hef sagt að ég muni upplýsa og kalla til fundar við mig formenn stjórnarandstöðunnar þegar ég er til þess reiðubúinn að upplýsa með hvaða skilyrðum ég hyggst ganga til samninga um stækkun álbræðslunnar, þar sem undirstaðan er auðvitað orkuverðið. Þetta hef ég sagt hér áður og við þetta mun ég standa.

Um rafskautin er það að segja að sú athugun hefur verið í gangi en henni er ekki lokið, eins og fram kom í svari mínu.