14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5209 í B-deild Alþingistíðinda. (4499)

436. mál, framhald samningaviðræðna við Alusuisse

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Já, hæstv. ráðh. er búinn að móta rammann, en honum hentar ekki að greina Alþingi frá því hið minnsta hvað felist efnislega í þeirri stefnumótun af sinni hálfu. Hann lofar því hins vegar að kalla til formenn stjórnarandstöðuflokkanna þegar honum henta þykir. En Alþingi má ekkert um þetta frétta. Þetta eru svipuð vinnubrögð og hæstv. ráðh. viðhafði þegar bráðabirgðasamkomulagið fræga var gert 23. sept. 1983. Þá voru formenn stjórnarandstöðuflokkanna kvaddir til um miðjan september, þegar allt átti að vera klappað og klárt, en jafnframt urðu þeir að gangast undir trúnaðarheit, að segja ekki nokkrum einasta manni frá því hvað fælist í viðkomandi samkomulagi. Þetta eru nú vinnubrögðin og sannarlega lærdómsríkt fyrir Alþingi að heyra á hvaða braut ráðh. er áframhaldandi í sambandi við samningaviðræður við Alusuisse vegna álversins í Straumsvík.