12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður.

Áður en ég hef ræðu mína, og beini þá fyrst orðum mínum til hæstv. forsrh., vildi ég gjarna að kannað væri hvort hæstv. fjmrh. væri í húsinu því mig langar til að beina til hans örfáum orðum.

Mín spurning til hæstv. forsrh. er ekki löng eða flókin. Ég býst við því að fleiri en mig langi að fá að vita hvað gerðist á þeim fundi sem haldinn var í dag í Stjórnarráðinu milli kl. 6 og 7 og sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins án þess að fram kæmi hvort þar hefði eitthvað gerst eða orðið einhver niðurstaða.

Í framhjáhlaupi langar mig að nefna annað. Ég býst við því að í fjölmiðlaleysinu hafi menn kannske ekki fregnað hvaða árangur för forsrh. til Jórdaníu hafði í för með sér. Þessi Jórdaníuför hefur reyndar orðið mörgum mönnum umræðuefni hér. Það gildir mig einu hvort ráðh. fara til útlanda eða ekki. Þeir eru frjálsir menn í frjálsu landi. — Hæstv. forsrh. hafði um það nokkuð mörg orð, þegar hann kom heim, að mönnum hefði orðið mjög starsýnt á hið íslenska efnahagsundur. En varla hafði hæstv. forsrh. kvatt Jórdan er Ísraelsstjórn kom sér endanlega saman um efnahagsúrræði. Af því að menn hafa e.t.v. ekki haft af því spurnir langar mig til þess að greina frá þeim í helstu aðalatriðum.

Fyrsta atriðið var: Þeir héldu því sem kallast frjálsir samningar. Annað atriði: Þeir tóku vísitöluna ekki úr sambandi, þ.e. þeir telja að verðbólga þeirra sé ekki laununum að kenna. Í þriðja lagi: Úrræði ísraelsku ríkisstjórnarinnar felast eingöngu í því að draga úr ríkisumsvifum. (lðnrh.: Í hverju er verðbólgan þeirra núna?) Ísraelsstjórn komst að þeirri niðurstöðu að glundroðinn í efnahagslífinu væri fyrst og fremst stjórnvöldum að kenna en ekki fólkinu. Það er mjög heilbrigð afstaða að mínu mati. (Gripið fram í: Og hver er verðbólgan þar?) Hún var 300% síðast þegar ég vissi. (Gripið fram í: 400.) Eða 400.

Hæstv. fjmrh. vék í gær með þeim hætti að störfum kennara að ég get ekki setið á mér að verja þeirra málstað að svo miklu leyti sem það er hægt og þess er þörf. Hann reyndi að gera lítið úr störfum þessa fólks og gekk svo langt í sínum fullyrðingum að hann hélt því fram að það starfaði ekki nema hálft árið. Nú skulum við líta á það að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson er líka löggjafi, þ.e. hann er þm. Ef við mælum laun og tíma þessa þm. á sama mælikvarða og hann mælir laun og vinnutíma kennara fengjum við líklega út undarlegt dæmi.

Við skulum byrja á því að hafa í huga að hæstv. fjmrh. er líklega með um það bil 100% hærri laun sem þm. en venjulegur kennari. Hann starfar ekki að löggjafarstörfum nema fimm mánuði á ári. Það er um 21 vinnuvika. Fundadagar þessa fundastaðar hér eru 90–100. Fundatímar, og þá að meðtöldum nefndafundatímum, eru um 560–600. (Gripið fram í: Hann er ekki í neinni nefnd.) Hann er ekki í neinni nefnd. Fyrir þetta þiggur hann sem þm. 44 þús. kr. á mánuði.allt árið um kring og ég býst ekki við því að hann sé reiðubúinn frekar en aðrir þm. að skera þau laun niður.

Hæstv. fjmrh. kom hingað í stólinn í gær og tilkynnti að bylting væri skollin á, októberbyltingin. Það var helst á honum að skilja að hann væri eini maðurinn sem hefði haft kjark til þess að ráðast gegn þessari októberbyltingu með því að reyna að svelta byltingarmennina út launalausa. Hæstv. ráðh. gleymdist að hann sjálfur er frumkvöðull að einhverju lengsta verkfalli í sögu þessarar þjóðar með því að hætta stuðningi sínum við fyrrv. ríkisstj., en það leiddi síðan til þingrofs og kosninga. Þá kom hann því til leiðar að þm. voru í sjö mánaða verkfalli á seinasta ári. Ég hef ekki heyrt að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson hafi skilað laununum sínum vegna þess að hann mætti ekki til löggjafarstarfa í sjö mánuði. (Forseti: Ég vil vekja athygli á því að þetta er ekki leikhús og áheyrendur eru hér í trausti þess að það sé hljóð á pöllunum.)