14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5214 í B-deild Alþingistíðinda. (4503)

442. mál, námaleyfi Kísiliðjunnar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðh. Mér sýnist nú heldur halla á iðnrn. orðið í þessu máli. Það hefur komið hér fram að menntmrn. styður eindregið stefnu Náttúruverndarráðs. Menntmrn. gerir skoðanir Gauks Jörundssonar að sínum. Á móti er teflt áliti lögmanns Kísiliðjunnar sem telur ekki vafalaust að þessu sé svona háttað. Það er nokkuð veik afstaða gegn því sem áður er komið fram. Það er bersýnilegt að það er verið að reyna að finna leið fyrir iðnrn. út úr þessu máli, t. d. með þeim skilgreiningum að það sé nóg að leyfi Náttúruverndarráðs komi eftir á, komi þegar leyfi til kísilgúrtöku hafi verið veitt af iðnrn. Ég held nú að ef almennt væri farið inn á þessa braut í stjórnsýslunni yrði margt býsna skondið í sambandi við það hvernig menn afgreiddu leyfi og stimpluðu sín plögg.

Það kemur fram í máli ráðh. að Náttúruverndarráð hefur lýst sig fúst til að veita leyfi til 15 ára kísilgúrtöku og hefur lýst sig fúst til þess að stækka kísilgúrtökusvæðið ef rannsóknir bendi til að mati ráðsins að það sé í lagi. Mér sýnist því, svo ég endurtaki byrjunarorð mín. að boltinn sé að öllu leyti hjá iðnrn. hvað þetta varðar.

Ég spurði ráðh. báða hvort þeir teldu líkur á því að þetta mál yrði á endanum að útkljá fyrir dómstólum, þ. e. hvort menntmrn. mundi höfða ógildingarmál ef ekki næðust samningar. Ráðh. svaraði ekki þeirri spurningu. Við sjáum til hvort henni verður svarað hér í dag. En eins og ég segi, ég vona að iðnrh. sjái ástæðu til þess að taka til máls um þetta hér og útskýra sjónarmið iðnrn., sem virðist hafa þvælst fyrir í þessu síðan að minnsta kosti í byrjun apríl, þegar álit prófessors Gauks liggur fyrir.