14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5214 í B-deild Alþingistíðinda. (4504)

442. mál, námaleyfi Kísiliðjunnar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Einarssyni fyrir að hreyfa þessu máli hér. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að vinnubrögð hæstv. iðnrh. í þessu máli séu í fyrsta lagi nokkuð óvenjuleg, í öðru lagi óheppileg. Ég tel að leita hefði átt fastar á um samkomulag og sátt í þessu máli og ég tel að það hefðu verið fullar forsendur fyrir því ef öðruvísi hefði verið á málum haldið af hálfu hæstv. iðnrh.

Í mínum huga, herra forseti, er staða laganna nr. 36 frá 1974, um verndun Mývatns og Laxár, ótvíræð og hún er mjög sterk. Og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig hvers virði t. d. hin almennu náttúruverndarlög í landinu séu ef þessi lög, þessi sérstöku lög um verndun þessa svæðis, halda ekki betur en þetta. Ég óttast að þau séu þá ákaflega veik ef hægt er að leika svona með þessi lög sem hafa sérstaka stöðu í hugum allra náttúruverndarmanna á Íslandi.

Ég hvet hæstv. menntmrh. til að halda þannig á þessu máli fyrir hönd Náttúruverndarráðs að staða ráðsins og hlutverk sé virt. Hér er á ferðinni ákveðið prófmál í sambandi við náttúruvernd og stöðu þeirra mála og þeirrar stofnunar sem fer með yfirstjórn þeirra.

Ég tel að af svörum menntmrh. og af öllu eðli málsins sé nú alveg ljóst og ótvírætt að í öllu falli þurfi leyfi Náttúruverndarráðs að liggja fyrir áður en Kísiliðjan hefur vinnslu á grundvelli hins nýja námuleyfis. Ég bið hæstv. iðnrh. að leiðrétta mig ef hann er ekki sammála þessum skilningi. Ég skildi að minnsta kosti orð hæstv. menntmrh. þannig að hún væri þeirrar skoðunar, sem og má ótvírætt vera af lestri grg. dr. Gauks Jörundssonar.

Herra forseti. Það orkar víst allt tvímælis þegar gert er. Ugglaust má deila um efnisþætti þessa máls en það er ekki tóm til þess hér í stuttum fyrirspurnatíma. Ég verð að segja það að mér finnst hæstv. iðnrh. hafa unnið hér meir af kappi en forsjá. Hann hefur að mínu mati verið fullfljótur að grípa til vopna sinna, enda er það alkunna að hann óttast fátt meira en að verða fyrir því að lenda í snerrum en ná ekki vopnum sínum. Ég hvet hæstv. iðnrh. til að endurskoða afstöðu sína í ljósi nýrra upplýsinga, m. a. grg. dr. Gauks Jörundssonar. Einnig hvet ég hæstv. menntmrh. til að halda á máli þessu af fullri reisn fyrir hönd náttúruverndar og Náttúruverndarráðs. Annað er ekki verjandi í þessu máli burtséð frá efnisatriðum þess.