14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5220 í B-deild Alþingistíðinda. (4512)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að svara fsp. minni. En ekki horfir til betri vegar að því svari fengnu því að efnislega upplýsti hæstv. ráðh. okkur um það, að alls ekki væri á döfinni af hálfu rn. að leggja fram stjfrv. hér um þetta efni svo sem lofað hafði verið. Ég er satt að segja meira en lítið undrandi á þeirri framkomu af hálfu hæstv. menntmrh. að koma nú undir lok þings þrátt fyrir ítrekaða svardaga hér fyrr í vetur um að slíkt frv. væri í burðarliðnum og greina frá því að ríkisstj., eins og hæstv. ráðh. sagði, teldi að ekki væri hægt að fallast á að slíkt frv. yrði flutt. Þó hafði hæstv. ráðh. greint frá því hér í tilvitnuðu svari mínu áðan, ég hygg 19. febr. s. l., að mjög gott samkomulag væri milli aðila í þeirri nefnd sem hæstv. ráðh. hafði skipað varðandi efnisþætti þessa máls, þannig að þar var ekkert hik, þar var enginn vafi.

Hvenær snérist hæstv. ráðh. hugur í þessu efni og hvers vegna tryggði hæstv. ráðh. ekki skil þeirrar nefndar, þar sem hæstv. ráðh. átti sína fulltrúa, þannig að það lægi þá skýrt fyrir hvaða sameiginleg niðurstaða þarna væri fengin? Hér kemur einn hv. nm. sem situr nú sem þm. hér á Alþingi og upplýsir okkur um að það hafi aðeins verið eitt atriði sem var ófrágengið en enginn sérstakur efniságreiningur um málið og varðaði ekki það sem ráðh. er að segja að nú standi í vegi í þessum efnum og hafi valdið því að ráðh. treysti sér ekki að leggja fram stjfrv. og þess er ekki von.

Þessi vinnubrögð af hálfu hæstv. menntmrh. og ríkisstj. gagnvart kennurum eru dæmigerð fyrir það sem gerðist á síðasta vetri. Hæstv. menntmrh. reyndi lengi vel að láta líta svo út að hans rn. og hann sjálfur væri allur af vilja gerður að ljá kennurum lið með störfum nefnda á vegum síns rn. Ég gekk einmitt eftir því ítrekað hér í þinginu hverjar væru efndirnar. Það var sérstök nefnd til að endurmeta kennarastarfið. Hver hefur orðið uppskeran af starfi þeirrar nefndar sem kennarar bundu vissulega miklar vonir við? Jú, Kjaradómur sem ríkisstj. vísaði deilunni við kennara til, Kjaradómur sem hefur skammtað kennurum með réttindi í byrjunarlaun hækkun upp á tæpar 3 þús. kr. Nú kemur hæstv. ráðh. og lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að erfitt reynist að manna skólana á komandi skólaári.

Ég tek undir þær áhyggjur eftir það sem gerst hefur á því skólaári sem nú er að ljúka. Aldrei fyrr, hygg ég, í sögu lýðveldisins hefur framkvæmdavaldið staðið að fræðslumálum í landinu og undirstöðu þeirra þar sem eru kennararnir með þeim hætti sem gerst hefur á því skólaári sem nú er að ljúka. Þar horfir víða í hreinan voða jafnt í grunnskólum sem framhaldsskólum. Það er ekki aðeins spurningin um að manna skólana heldur um það með hvaða hug starfsmenn ganga þar til starfa. Traust manna á framkvæmdavaldinu hefur brostið sem von er þegar ítrekað koma fram fyrirheit frá æðstu stjórnvöldum, einnig hæstv. forsrh., í þessu máli en sem öll eru svikin þegar á reynir. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum hæstv. menntmrh. ætlar að standa upp úr sínum stóli þegar þar að kemur að störfum ráðh. í ríkisstj. lýkur, með þann arf sem nú horfir í sambandi við skólastarf. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hér: Hvern telur hann raunverulegan árangur þess starfs sem menntmrn. beitti sér fyrir á liðnu skólaári til þess að rétta hag kennara og treysta störf í skólunum?

Að lokum, herra forseti, vil ég upplýsa það að hv. formaður menntmn. Nd. hefur haft um það góð orð að þmfrv. um lögverndun á starfsheiti kennara. sem við þrír þm. í hv. Nd. stöndum að, verði brátt afgreitt úr menntmn. Nd. Þar eru bæði ákvæði sem varða verndun starfsheitis og starfsréttinda og einnig ákvæði til bráðabirgða sem tryggja eðlilegan sveigjanleika í sambandi við aðlögun þessa máls.