14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5221 í B-deild Alþingistíðinda. (4514)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Kristín H. Tryggvadóttir:

Hæstv. forseti. Ég má til að koma hér aðeins og svara Halldóri Blöndal, hv. þm. Norðurl. e. þar sem það var ekki verið að kasta rýrð á þá sem „bjarga“ því að kenna. Þeir eru ekki kennarar. Tímarnir hafa breyst. Starfið er allt annað en það var þegar við vorum í skólum. Ég er hér með tölu frá 1983–1984, þar sem ég tek aðeins Reykjanes, mitt kjördæmi, þar eru tólf manns fastráðnir kennarar, sem sagt eru kallaðir hér kennarar en menntun þeirra er aðeins landspróf eða gagnfræðapróf þannig að þeir eru með sömu menntun og þeir nemendur sem þeir eru að kenna núna í dag. Ég er ekki að kasta rýrð á þetta fólk. Mig langar kannske líka til að stunda lögfræðistörf en ég fengi það ekki. Kannske gæti ég verið góður lögfræðingur.