14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5222 í B-deild Alþingistíðinda. (4515)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ef hv. síðasti ræðumaður hefði kynnt sér ástand í skólamálum víða úti um land þá vissi hann að fyrir hefur komið að kennarar, sem vel hafa dugað lengi og verið góðir uppalendur, hafa orðið að hrökklast burtu af stöðum af því að nýútskrifaðir kennarar hafa komið og staldra kannske við í eitt ár þannig að gamalreyndir kennarar hafa hrökklast úr störfum. Þetta þekkjum við úti á landsbyggðinni. Mér finnst að fólk, sem er jafn, eigum við að segja, kærulaust fyrir því hvernig skólastarf gengur utan þéttbýlisstöðvanna hér, eigi sem minnst að tala um þessi efni. Það er enn í dag og það hefur verið frá öndverðu mikið af vel menntuðu, heiðarlegu, góðu fólki, góðum uppalendum, sem hafa stundað kennslustörf. Þeir gera það í dag, en það er rétt, því fer fækkandi, þessu fólki. Af hverju? Vegna þess að fleira fólki en áður gefst kostur á að mennta sig. Það er skýringin. Það er ekki vegna þess að þetta fólk hafi ekki viljað mennta sig hér áður fyrr. Það er af því að það hafði ekki ráð á því að ganga í skóla. Þetta fólk hefði gengið í skóla hefði það haft efni á því. Það hafði það ekki. Síðan hefur það hlaupið í skarðið, það hefur menntað sig sjálft, það hefur fræðst af sjálfu sér, eigin dugnaði og eigin meðfæddum skilningi og góðum gáfum. Þessi dæmi þekkjum við um allt. Ég segi það sama og áðan, það fer alltaf í taugarnar á mér þegar verið er að gera litið úr starfi þessa fólks.