14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5223 í B-deild Alþingistíðinda. (4518)

446. mál, fjárhagstuðningur við Kvennaathvarf

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Á þskj. 759 hef ég ásamt Kjartani Jóhannssyni, sem nú er erlendis í opinberum erindum, leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. Tilefni fsp. eru blaðaskrif sem urðu fyrir tæpum fjórum vikum um fjárhagsstöðu og fjármál Kvennaathvarfs í Reykjavík. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hefur fjmrh. kynnt sér fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur Kvennaathvarfsins í Reykjavík?

2. Telur fjmrh. koma til greina að ríkissjóður veiti Kvennaathvarfinu sérstakan stuðning til þess að tryggja áframhaldandi þjónustu þess? Ef svo væri, með hvaða hætti yrði það þá gert?“