14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5223 í B-deild Alþingistíðinda. (4519)

446. mál, fjárhagstuðningur við Kvennaathvarf

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. 2. flm. þeirrar fsp. sem hann og hv. þm. Kjartan Jóhannsson fluttu á þskj. 759 er það vegna blaðaskrifa um fjárhag Kvennaathvarfsins sem hún er borin fram. Ég sá ekki þessi blaðaskrif þannig að ég get ekki talað um þau. En fyrsta spurningin er:

„Hefur fjmrh. kynnt sér fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur Kvennaathvarfsins í Reykjavík?“

Ekki get ég nú sagt að ég hafi kynnt mér fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur Kvennaathvarfsins, enda ekki verið beðinn um það og hef ekki haft tækifæri til þess af öðrum ástæðum, og satt að segja hefur mér ekki dottið í hug að fara fram á að skoða fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur Kvennaathvarfsins. Eftir því sem mér skilst er Kvennaathvarfið rekið á þeim stað sem helst engir eiga að vita um nema þeir sem reka það þannig að viðkomandi starfsemi fái að vera í sem mestu næði fyrir borgarbúum og eins ættingjum þeirra sem þar búa. Það er ein af þeirra reglum. Fyrstu spurningunni svara ég með neii.

2. spurningin: „Telur fjmrh. koma til greina að ríkissjóður veiti Kvennaathvarfinu sérstakan stuðning til þess að tryggja áframhaldandi þjónustu þess?"

Ég sem fjmrh. hef ekki hugsað mér að bjóða stuðning, en mér finnst sjálfsagt að ef erindi berst frá Kvennaathvarfinu verði það skoðað. Það er Alþingis að taka ákvörðun um stuðning eða ekki stuðning við Kvennaathvarfið, ef slíkt erindi berst, en þá mundi ég segja áð það á ekki að eiga eingöngu við Reykjavík. Það verður þá prinsipákvörðun hvort Alþingi á eða á ekki að styðja kvennaathvörf hvar sem þau eru á landinu og þá með hvaða hætti sá stuðningur er, ef um stuðning er að ræða.

Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að ég efast um að kvennaathvarf í Reykjavík, eins og spurt er um, eigi að fá að njóta stuðnings ríkisins. Ég lít frekar á Kvennaathvarfið sem sveitarstjórnarmál og þá sveitarstjórnarmál á hverjum tíma. En ég hef þær spurnir vegna tengsla minna við Félag einstæðra foreldra, sem ekki hefur notið ríkisstyrks svo að ég viti til, en hefur aftur á móti hlotið mjög myndarlegan sveitarstjórnarstyrk úr höfuðborginni, að þessi tilraun með kvennaathvarf í Reykjavík hafi borið góðan árangur og það hafi svo sannarlega sannað tilverurétt sinn.