14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5225 í B-deild Alþingistíðinda. (4521)

446. mál, fjárhagstuðningur við Kvennaathvarf

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjendum fyrir að hreyfa þessu máli og hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem ollu mér þó miklum vonbrigðum. Og hann virtist sannarlega ekki vita mikið um málið. Ég hélt raunar að þarna hefði komið til hans beiðni eftir því sem lesa mátti út úr fréttum í blöðum. En ég get t. d. upplýst hann um að Kvennaathvarfið í Reykjavík sækja ekki bara konur og börn í Reykjavík, heldur víða af landinu þótt flestar séu af eðlilegum orsökum héðan. Annað er það að það er líka búið að stofna kvennaathvarf á Akureyri. Og bæði þessi athvörf hafa fengið fjárstuðning Alþingis. Stofnun og rekstur kvennaathvarfs er eitt gleggsta og besta dæmið um samtakamátt kvenna og eru slík dæmi þó mörg og merkileg. Kvennaathvarfið sannaði umsvifalaust tilverurétt sinn og þangað hefur verið stöðug aðsókn, því miður. Það er heldur ófagur vitnisburður um samskiptavandamál siðaðs fólks, ef hægt er að nota slíkt lýsingarorð um þá sem þarna eiga hlut að máli. Kvennaathvarfið hefur verið mörgum það ljós í myrkri sem þær hefur skort til þess að vísa þeim veginn út úr algeru vonleysi. Kvennaathvarfið er nauðsyn og þjóðfélaginu ber að mínu mati skylda til að styrkja slíkt framtak eins og framast er unnt.

Ljúft er og skylt að geta þess að fjvn. hefur sýnt skilning á málinu. Fulltrúar þar hafa ekki efast um réttmæti þess að styðja þetta framtak. Á síðasta ári jukum við verulega framlag ríkissjóðs til Kvennaathvarfsins, en við afgreiðslu fjárlaga í ár varð hins vegar um óverulega hækkun að ræða þótt ég ætti reyndar ekki von á að svo skjótt kæmi til vandræða, en það hefur m. a. stafað af því að gert var ráð fyrir meiri stuðningi frá sveitarfélögum og er leitt til þess að vita að ekki skuli öll nágrannasveitarfélög hafa séð ástæðu til að leggja fé af mörkum til þessarar starfsemi.

Ég vil svo að lokum heita á hæstv. fjmrh. að kynna sér þetta mál og verða að fullu við beiðni um þann fjárstuðning sem þarf til að halda þessari starfsemi gangandi og ég þykist þess fullviss að hver einasti þm. sé okkur sammála um réttmæti þess og nauðsyn.